fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Lögreglurannsókn á lokastigi á sama tíma og Hagkaup boðar áfengissölu í Skeifunni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 18. ágúst 2024 10:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjögurra ára rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kæru ÁTVR á hendur þremur aðilum fyrir netsölu áfengis lýkur á næstu dögum og mun fljótlega verða send til ákærusviðs lögreglunnar.

Ríkissaksóknari sendi lögreglunni bréf í lok maí þar sem krafist var skýringa á hægum framgangi málsins. Var lagt fyrir lögreglustjóra að gera grein fyrir stöðu kærumálanna og setja fram áætlun um meðferð þeirra. Ríkissaksóknari krafðist svara innan vikutíma, sem er óvenjulegt.

Lögregla svaraði bréfi Ríkissaksóknara fimm dögum of seint og baðst afsökunar á töfinni. Jafnframt er greint frá því í þessu svari, sem dagsett er 10. júní 2024, að rannsókninni sé við það að ljúka en beðið sé greinargerða frá annars vegar tolllgæslusviði Skattsins og hins vegar rannsóknarsviði Skattsins. Segir að þær greinargerðir muni berast rannsóknardeilidnni á næstu dögum (þ.e. um miðjan júní síðastliðinn).

Samkvæmt heimildum DV hafa umræddar greinargerðir frá Skattinum borist lögreglu og er talið að þær séu „svartar“, í þeim séu færð rök fyrir því að netsala áfengis, eins og hún hefur verið stunduð hér undanfarin ár, sé ólögleg. Hætta virðist því á því að þeir aðilar sem ÁTVR kærði verði ákærðir af hálfu lögreglunnar og starfsemi þeirra lokað.

Hagkaup hyggst hefja netsölu áfengis fyrir mánaðamótin en undirbúningur er á lokametrunum. DV sendi fyrirspurn á Sigurð Reynaldsson, framkvæmdastjóra Hagkaupa, og spurði hvers vegna Hagkaup ákveða að hefja áfengissölu, hvort þau telji engan vafa leika á lögmæti hennar og hvort ekki sé lagaleg óvissa fyrir hendi. Sigurður segir í svari sínu:

„Í rúmlega 3 ár þá hafa vefverslanir með áfengi verið starfandi á Íslandi og sú starfsemi farið fram án athugasemda, en þar á meðal eru stórir aðilar á okkar markaði eins og t.d. Costco, Heimkaup og fleiri.  Í dag er fjöldi verslana í kringum 6-8.  Vefverslun Hagkaups hefur verið í undirbúningi í marga mánuði og mun opna þegar hún er tilbúin. Það er því augljóslega okkar mat að rekstur erlendra netverslana með áfengi er ekki bönnuð í íslenskum lögum, en ef niðurstaða dómstóla verður önnur þá munum við að sjálfsögðu hlíta henni,“ segir Sigurður.

Sigurður segist fullviss um að starfsemin sé lögleg: „Við erum þess fullvissir að lögin heimila netverslun með áfengi eins og þá sem Hagkaup hyggst opna. Nú ef niðurstaða dómstóla verður önnur þá munum við að sjálfsögðu hlíta henni.“

Sigurður segir þó lagalega óvissu vera alltaf til staðar þegar ekki hefur reynt á löggjöf fyrir dómstólum: „Þegar aldrei hefur reynt á löggjöf fyrir dómstólum má segja að það ríki alltaf einhvers konar óvissa um hana því túlkun dómstóla á löggjöfinni skortir. Fari þetta mál sem lögreglan hefur haft til rannsóknar fyrir dómstóla þá er það þeirra að túlka löggjöfina og skera endanlega úr um það hver skilningurinn er á lögunum. Eins og fyrr segir þá erum við fullvissir um að lögin heimila netverslun með áfengi eins og þá sem Hagkaup hyggst opna og teljum að dómstólar munu komast að sömu niðurstöðu. Ef ekki, þá hlítum við því að sjálfsögðu.“

Forsvarsmaður forvarnarsamtaka fær ekki fund með Högum

Fjölmargir aðilar sem beita sér fyrir lýðheilsu hafa barist hart gegn netsölu áfengis eins og hún hefur verið iðkuð hér síðustu árin, foreldrasamtök og bindindishreyfingin eru þeirra á meðal. Undanfarið hafa þessir aðilar sameinast í breiðfylkingu í baráttu sinni gegn netsölu áfengis.  Lífeyrissjóðurinn Gildi er stærsti einstaki hluthafi í Högum, sem reka Hagkaup, með 17,5 prósent eignarhlut. Hópurinn óskaði eftir fundi með Gildi um netsöluáformin. Gildi hafnaði því að hitta hópinn og benti honum á að hafa samband við Haga sjálfa varðandi þessi mál. Björn Sævar Einarsson, formaður IOGT á Íslandi, óskaði bréfleiðis eftir fundi með Högum í júní síðastliðnum. Í bréfinu segir:

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Hagar hyggist hefja áfengissölu í júní 2024.

Nú tilheyri ég hópi forsvarsmanna forvarnarsamtaka og lýðheilsuþenkjandi fólks sem er algerlega ósammála því að netsalan sem nú fer fram á Íslandi, og Hagar áforma, geti talist lögleg. Það getur hún ekki óháð því hvort um innlent, eða erlent fyrirtæki (skúffufyrirtæki) sé að ræða. Það er vegna þess að því í báðum tilvikum er áfengið, sem selt er og afhent í smásölu til neytenda, afgreitt af lager sem er staðsettur innanlands, en ekki erlendis.  Sala þessi fer á svig við lög sem gilda um ÁTVR. Um þetta hefur einmitt verið fjallað í hæstaréttardómi sem féll í Svíþjóð 7. júlí 2023, en þar eins og hér er viðhöfð einkasala ríkis á áfengi samkvæmt lögum. Höfum við kynnt okkur sænska hæstaréttardóminn. 

Hópurinn sem ég tilheyri hefur óskað eftir fundi með stjórnarformanni og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Gildi, sem er stærsti hluthafinn í Högum með tæp 20% hlutafjár, til að ræða ofangreinda áfengissölu. Teljum við hana vera á svig við starfs- og siðareglur Gildis sem og 4. gr. stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar.

Gildi hafnar því að hitta okkur á grundvelli þess að á aðalfundi Haga 30. maí sl. hafi komið fram að ekki komi annað til greina en að Hagar og dótturfélög fari í einu og öllu að lögum og reglum og að áform þeirra væru vel undirbúin.

Í svari Gildis segir:

„Eins og fram kom í svörum forsvarsmanna Haga á aðalfundi félagsins þá hefur félagið aflað sér lögfræðiálits vegna málsins. Gildi hefur ekki óskað eftir því áliti og hyggst ekki gera það sem hluthafi í félaginu, enda eru slík mál ekki á forræði hluthafa og um að ræða gögn stjórnar og stjórnenda Haga er varðar rekstrarleg og samkeppnisleg áform félagsins.“

Þá bendir Gildi á að við getum haft samband við félagið sjálft, þ.e. ykkur varðandi þessi mál.

Hér með fer ég að ábendingu Gildis og óska eftir tvennu.

a) Að fá fund með stjórnarformanni og forstjóra Haga núna í annarri eða þriðju viku júlí ásamt öðrum þeim sem þið teljið rétt að sæki slíkan fund fyrir ykkar hönd.

b) Að fá sent lögfræðiálit það sem Hagar byggja á um lögmæti fyrirhugaðrar áfengissölu. Ekki er óskað eftir þeim hluta sem gæti varðað samkeppnisupplýsingar, einungis lögfræðihlutann þar sem fram kemur að áformin standist lög.

Af okkar hálfu sæki ég fundinn og aðrir þeir aðilar í okkar hópi sem eru lausir á þessum tíma. Við verðum sirka 3-4 býst ég við.

Með ósk um svar hið fyrsta.“

Þessu bréfi hafa Hagar ekki svarað.

Stjórnarformaður Gildis talar gegn áfengissölu en beitir sér ekki

Stjórnarformaður Gildis er Stefán Ólafsson. Hann virðist persónulega vera andsnúinn netsölu áfengis ef miðað er við pistil sem hann birti á Facebook-síðu sinni í júní. Þar segir:

„Það hefur verið kostulegt að fylgjast með þróun netsölu áfengis á síðustu misserum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt við stóraukna netsölu og heimsendingar áfengis sem margir ætla að séu lögbrot gegn einkarétti ÁTVR og sem gengur í berhögg við lýðheilsustefnu hins opinbera. Ráðherrar Framsóknarflokksins og VG hafa lýst áhyggjum af þessu en Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið sitt fram, með því að horfa aðgerðalaus á framvinduna. Ef þetta reynast vera lögbrot þá eru þau í boði Sjálfstæðisflokksins, sem fer með dómsmálin í ríkisstjórninni.

Þeir aðilar sem þegar hafa boðið upp á netsölu áfengis styðjast við glufu í reglum evrópska efnahagssvæðisins sem leyfir netsölu milli landa ef lagerinn er í öðru landi þegar kaupin fara fram, þ.e. ef um alvöru sölu milli landa sé að ræða.

Hagkaup réttlætir fyrirhugaða netsölu sína á áfengi með skírskotun til dóms sem gekk í Svíþjóð og byggir á þessari glufu. En hér er hins vegar áformað að selja út af lagerum sem eru innanlands og því er lagafordæmið frá Svíþjóð ekki að fullu gilt sem réttlæting á þeim áformum, né heldur sem rök fyrir lögmæti þeirra netsala áfengis sem þegar eru starfandi.

Nú hefur slegið í brýnu milli ráðherra í ríkisstjórninni um þetta mál og ber að fagna löngu tímabæru frumkvæði Framsóknarráðherra um að láta reyna á lögmæti þessarar starfsemi sem augljóslega gengur gegn forvarnarstarfi og lýðheilsumarkmiðum er tengjast áfengismálum.)“

DV sendi Stefáni eftirfarandi fyrirspurn vegna þessa ósamræmis:

„Á næstu vikum hyggst Hagkaup hefja sölu áfengis. Um er að ræða netsölu sem þó um leið hefur á sér yfirbragð smásölu.

Ef marka má skrif þín um málið þann 13. júní á Facebook ert þú andvígur þessum áformum.

Nú vill svo til að lífeyrissjóðurinn Gildi, þar sem þú ert stjórnarformaður, er stærsti hluthafinn í Högum, sem reka Hagkaup. Hefur þá ekki skapast hér ágreiningur á milli eins eiganda samsteypunnar og stjórnenda hennar?“

Svar Stefáns er eftirfarandi:

„Ég er ekki einn í stjórn Gildis, heldur einungis einn af átta stjórnarmönnum.

Gildi hefur hins vegar látið í ljós þá skoðun á ársfundi Haga sem reka Hagkaup að mikilvægt sé að fyrirtæki sem lífeyrissjóðurinn á eignarhlut í starfi alfarið innan ramma hins löglega. Stjórnendur Haga hafa fullyrt við fulltrúa Gildis að það verði gert. Ef nokkur vafi er á að það standist, sem sumir hafa fullyrt, þá er það hlutverk lögreglu og annarra stjórnvalda að skerast í leikinn.“

Fordæmisgefandi hæstaréttardómur í Svíþjóð

Í Svíþjóð er sambærilegt fyrirkomulag og lagarammi varðandi áfengissölu og á Íslandi. Systembolaget, sem er fyrirtæki í eigu sænska ríkisins, sér um áfengissöluna með sambærilegum hætti og ÁTVR hér á landi. Sumarið 2023 var kveðinn upp í Hæstarétti Svíþjóðar fordæmisgefandi dómur. Tekist var á um rétt danska áfengissalans Winefinder til að selja sænskum neytendum áfengi í gegnum netið. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að einkainnflutningur sænskra neytenda á áfengi frá Danmörku væri heimill samkvæmt undanþáguákvæði sænsku áfengislaganna. Niðurstaða Hæstaréttar Svíþjóðar var reist á þeim forsendum að danskt félag seldi áfengið til sænskra neytenda, áfengið var selt af lager sem var staðsettur í Danmörku og það var flutt inn til Svíþjóðar af óháðum flutningsaðila.

Íslensku aðilarnir sem selja áfengi í netsölu gera það í gegnum erlend félög. Áfengið er hins vegar flutt hingað til lands og leyst úr tolli áður en það fer á lager söluaðilanna og er boðið til sölu. Það er síðan pantað í gegnum netið og sótt á sölustaðinn (einhverjir aðilar eru einnig með heimsendingu).

Andstæðingar netsölunnar hafa bent á að grundvallarmunur sé á þessu fyrirkomulagi og þeirri sölumennsku sem Hæstiréttur Svíþjóðar dæmdi góðan og gildan. Margir telja að hér sé í raun réttri um smásölu innlendra aðila að ræða, í búningi netsölu erlendra aðila.

Hneykslaður á Hagkaup

Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, er þungorður í garð Hagkaupa vegna áformanna. „Mér finnst eiginlega hneyksli hvernig þeir haga sér, sem virðulegt fyrirtæki. Þetta er fyrirtæki sem á djúpar rætur hjá þjóðinni. Maður skilur að götudrengir í bílskúrum vilji selja áfengi en þetta er alvöru fyrirtæki – eða var það,“ segir Árni í viðtali við DV.

Árni segir engan vafa leika á því að áfengissala með þessu fyrirkomulagi sé ólögleg.

„Það má flytja inn áfengi. Ég má eiga viðskipti í gegnum erlenda vínsölu. Þá fer það þannig fram að ég panta áfengi, ég leysi það úr tollinum og borga af því gjöld og ég neyti áfengisins. Ég er ekki að selja neitt  áfengi. Það er vefsala eins og hún er lögleg. En það sem Hagkaup ætlar að gera og kallar erlenda vefsölu er að panta fleiri tonn af áfengi erlendis frá, setja það inn í verslun og selja það í hefðbundnu smásöluformi. Svo ef maður lúsles áfengislöggjöfina þá leikur enginn vafa á því að þetta er ólöglegt.“

Árni segir enga lagalega óvissu vera um þetta „nema í hausnum á þeim sem hafa hagsmuni af því að selja áfengi.“

„Ef Hagkaup er illa við verslunarfyrirkomulag í landinu þá eiga þau að beita sér fyrir breytingum á réttum stöðum, þ.e.a.s. í gegnum Alþingi. Það er ákveðin tegund af ofbeldi að taka lögin í sínar hendur. Það er algjörlega fyrir neðan virðingu Hagkaupa. Við getum ekki byggt samfélagið á því að manni finnist eitthvað og svo gerir maður það bara. Mér finnst þeir vera lentir í ógöngum með þetta sem virðulegt fyrirtæki, þeir eru komnir út í móa með allan sinn málatilbúnað og eru sjálfum sér til skammar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni