fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Eyjan

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti ekki íbúakosningu um Coda Terminal – „Leikhús fáránleikans kom oft upp í huga mínum á fundinum“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 15. ágúst 2024 10:15

Jón Ingi harmar ákvörðunina.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tillaga Jóns Inga Hákonarsonar, bæjarfulltrúa Viðreisnar, um að Coda Terminal verkefnið verði sent í íbúakosningu var vísað frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar í gær og hún send í bæjarráð. Jón Ingi harmar þetta og segir það hafa verið súrrelískt að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar tala á fundinum.

Fyrirhugað verkefni Coda Terminal, sem er á vegum Carbfix, hefur verið gríðarlega umdeilt. Snýst það um að dæla koldíóxíði niður í berglögin sunnan við Vallahverfið í Hafnarfirði en þá þarf að dæla grunnvatni burt. Hafa margir íbúar áhyggjur af því að verkefnið geti raskað berglögum svo nálægt íbúabyggð og haft slæm áhrif á grunnvatnsstöðu. Þetta sé risastórt tilraunaverkefni.

Einnig hafa margir áhyggjur af miklum kostnaði við stækkun Straumsvíkurhafnar, vegna komu sérútbúinna tankskipa með koldíoxíð að utan. Bæjarstjórn hefur hins vegar sagt að hún muni ekki fjármagna stækkunina.

6 þúsund mótmæla

„Það var súrrealísk upplifun að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Samfylkingar tala háfleygt um mikilvægi þess að auka samtal og samráð við íbúa en þora síðan ekki að taka afstöðu til aukins samtals og samráðs við íbúa á sama tíma,“ segir Jón Ingi.

Hann lagði fram tillögu um að fram fari íbúakosning um breytingar á aðalskipulagi sem varðar leyfi fyrir borteiga til að dæla niður koldíoxíði á vegum Carbfix. Var henni vísað til bæjarráðs með 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Viðreisn greiddi atkvæði á móti.

Fyrir fundinn afhentu íbúar bæjarstjórn undirskriftalista með rúmlega 6 þúsund nöfnum þar sem framkvæmdinni er mótmælt. Í áskorun íbúa segir að ef bæjarstjórn vilji ekki beinlínis falla frá verkefninu skuli setja það í íbúakosningu. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, veitti undirskriftalistanum móttöku í gær.

Skýrist seinna hvort þörf sé á íbúakosningu

Eftir umræður og atkvæðagreiðslu lét Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokks, bóka fyrir hönd meirihlutans:

„Álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati vegna Carbfix verkefnisins á að liggja fyrir í síðasta lagi 26. ágúst nk. Eftir það munu bæjaryfirvöld meta framhald verkefnisins og þá skýrist hvort þörf sé á að halda íbúakosningu. Tillögunni er því vísað í bæjarráð til frekari úrvinnslu.“

Frá fundi bæjarstjórnar í gær. Mynd/Davíð Arnar Stefánsson

Fyrir hönd Samfylkingar í minnihluta bæjarstjórnar lét Árni Rúnar Þorvaldsson bóka:

„Fulltrúar Samfylkingarinnar samþykkja að þessari tillögu verði vísað til frekari skoðunar og vinnslu í bæjarráði. Í vinnslu þessa verkefnis hafa ýmsar spurningar vaknað og eðlilegar áhyggjur bæjarbúa vegna þess komið fram. Mikilvægt er að haldið verði áfram að upplýsa um alla þætti málsins. Íbúakosningu verður að undirbúa mjög vel þannig að upplýsingar séu eins og best verður á kosið og valkostirnir skýrir. Þess vegna teljum við rétt á þessum tímapunkti að vísa tillögunni til bæjarráðs svo hægt sé að rýna hana betur þannig að ef til íbúakosningar kemur þá sé hún eins vel undirbúin og ígrunduð og kostur er.“

Mikið talað en lítið gert

Eins og áður segir harmar Jón Ingi hins vegar ákvörðunina og lét bæjarstjórn vita að það sé skynsamlegt að gefa fólki skýr svör varðandi ákvarðanaferlið í málinu. Þessi ákvörðun auki á óvissu íbúa.

„Leikhús fáránleikans kom oft upp í huga mínum á fundinum. Tillagan snéri ekki að því að taka afstöðu til verkefnisins Coda Terminal. Hún séri að íbúalýðræði. Þarna var mikið talað en lítið gert,“ segir hann í samtali við DV.

Davíð Arnar Stefánsson, sem var oddviti Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar en náði ekki kjöri, er sama sinnis og Jón Ingi. Hann skrifar færslu á samfélagsmiðla um málið.

„Þrátt fyrir allt tal fyrir kosningar um aukið íbúalýðræði þá hafnaði bæjarstjórn einfaldri tillögu Viðreisnar um íbúakosningu um Coda Terminal Carbfix í bænum. Átti svo sem ekki von á öðru. Þegar á hólminn er komið virðist sú eðlilega krafa að íbúar hafi áhrif á stórar ákvarðanir óheppileg. Sveitarfélagið Hafnarfjörður minnir sífellt meira á valdakerfi en þjónustustofnun,“ segir Davíð Arnar í færslunni.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Davíð skemmtir sér yfir átökum bak við tjöldin hjá Heimildinni – „Það hlýt­ur að vera til marks um eitt­hvað“

Davíð skemmtir sér yfir átökum bak við tjöldin hjá Heimildinni – „Það hlýt­ur að vera til marks um eitt­hvað“