Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, fær við starfslok sín 9,7 milljónir króna í orlofsuppgjör frá Reykjavíkurborg vegna síðustu 10 ára í valdastóli auk 9,6 milljón króna í biðlaun. Morgunblaðið greinir frá þessu en í svari borgarritara við fyrirspurn Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, kemur fram að Dagur hafi átt rétt á 240 orlofsstundum á ári þegar hann gegndi starfinu.
Hann hafi ekki getað tekið fullt orlof á meðan valdatíð hans stóð og því söfnuðust stundirnar upp og voru gerðar upp við starfslok hans. Segir í svari borgarritara að þessi framkvæmd hafi verið viðhöfð eins gagnvart öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar.
Á almennum markaði fyrnast hins vegar orlofsstundir iðulega og hefur Morgunblaðið eftir Hildi Björnsdóttur að hún telji ekki um eðlilega framkvæmd að ræða.
„Okkur finnst ekki eðlilegt að gera upp tíu ára uppsafnað orlof við fyrrverandi borgarstjóra miðað við þær fyrningarreglur sem gilda um orlofsuppgjör. Mér þykir eðlilegt að kalla eftir upplýsingum um hvernig uppgjöri hefur verið háttað við starfslok æðstu embættismanna á undanförnum árum,“ segir Hildur.
Bendir hún á að í kjarasamningi borgarinnar og Sameykis komi fram að ekki sé heimilt að fresta orlofsgreiðslum milli ára nema um sérstakar kringumstæður sé að ræða eins og við fæðingarorlof eða þá að yfirmaður hafi krafist þess vegna verkefna sem þyrfti að ljúka.
„Það er ekki hægt að sjá að slíkt eigi við í tilfelli borgarstjóra,“ segir Hildur og á bágt með að sjá að hægt sé að réttlæta greiðslurnar til borgarstjórans fyrrverandi.