„Við ákváðum heldur að borga vexti lengur af lóðinni enda væri það betri ákvörðun en að fara af stað,“ segir Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins Þingvangs, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Á forsíðu blaðsins er greint frá því að Þingvangur hafi ákveðið að fresta uppbyggingu 140 íbúða í Hafnarfirði vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar. Býðst fyrirtækinu nú allt að 14 prósenta vextir.
Pálmar segir að fyrirtækið sé með lóð í Hjallahrauni undir 380 íbúðir og er komið graftarleyfi fyrir fyrsta áfanga, 140 íbúðir. Fyrirtækið ákvað fyrir hálfu ári að setja verkefnið á ís en íbúðirnar hefðu komið á markað í byrjun árs 2026 ef upphaflegri áætlun hefði verið fylgt.
„Því er jafnvel spáð að vextir muni ekki lækka fyrr en um þar næstu áramót. Það er versta hugsanlega útkoman fyrir Þingvang. Fyrirtækið hefur að jafnaði byggt og afhent um 200 íbúðir á ári en vegna þessa mun þeim fækka í örfáar íbúðir á næsta ári,“ segir Pálmar við Morgunblaðið og bætir við:
„Þannig að fyrirtækið er fjarri því að fullnýta framleiðslugetu sína. Fyrir vikið verður minna framboð af nýjum íbúðum á markaði. Þetta er því á allan hátt ömurleg ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir. Við missum að óbreyttu mannskap nema á móti komi verkefni í verktöku.“
Sparaði 12 milljónir á tveimur árum en íbúðin hafði á sama tíma hækkað um 18 milljónir