Rússar hafa flutt tugi þúsunda íbúa á brott frá héraðinu og hafa sent liðsauka þangað til að takast á við innrásarliðið.
En af hverju réðust Úkraínumenn inn í héraðið? Þessu hafa margir velt fyrir sér, þar á meðal hernaðarsérfræðingar.
TV2 ræddi við Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðing hjá danska varnarmálaskólanum, um þetta og sagði hann að innrásin geti haft áhrif á sókn Rússa í Úkraínu. Þeir neyðist til að flytja hersveitir frá Donetsk til Kursk og þar með verða þeir hugsanlega að draga úr sóknarþunga sínum í Donetsk.
Hann sagði að innrásin þýði að Rússar neyðist til að ráðast á úkraínska innrásarliðið til að hrekja það á brott. Það geti haft í för með sér að Úkraínumenn geti haft hag af því að verjast þar í langan tíma ef þeir geta komið sér vel fyrir í varnarstöðvum á þeim svæðum sem þeir hafa hertekið í Rússlandi.
Hann sagði að einnig þurfi að skoða málið í stærra samhengi þar sem stríðið muni í auknum mæli færast yfir á rússneskt landsvæði og það auki þrýstinginn á Vladímír Pútín.
„Það er kostur fyrir Úkraínumenn, því það eina sem er mikilvægara fyrir Pútín en að sigra í stríðinu í Úkraínu er að halda völdum í Rússlandi,“ sagði hann.
Hann sagði besti möguleiki Úkraínumanna á að ljúka stríðinu sé að gera það að meiri ókosti en kosti fyrir Pútín. „Úkraínumenn neyðast til að flytja stríðið til Rússlands til að mynda þrýsting innanlands á Pútín,“ sagði hann.