fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fókus

Nafnlaus frásögn af ótrúlegu faðernismáli á Akranesi vekur athygli – „Eru orð karlmanna engan vegin trúverðug eða er hægt að leika sér svona að okkur“

Fókus
Sunnudaginn 11. ágúst 2024 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrirspurn frá nafnlausum aðila hefur vakið mikla athygli inn á hópi Lögfræðinördar á Facebook. Þar spyr Grindvíkingur hvort að það sé virkilega svo á Íslandi að kona geti dregið hvern sem er fyrir dóm og haldið því fram að sá sé faðir barns hennar. Þar sem um nafnlausa frásögn er að ræða er ómögulegt að sannreyna frásögn mannsins en hún hefur þó vakið upp vangaveltur um faðernismál á Íslandi.

Maðurinn, Grindvíkingur, fékk símtal frá lögmanni í janúar á þessu ári þar sem honum var sagt að hann ætti mögulega 7 ára dóttur á Akranesi. Þetta kom manninum nokkuð á óvart enda á hann ekki bíl og er ekki með bílpróf. Hann hefur því ekki verið neitt á Akranesi. Lögmaðurinn nafngreindi móður þessarar stúlku en maðurinn kannaðist ekki við nafnið. Hann fór og fletti konunni upp á Facebook og kannaðist ekkert við hana.

„Ég þvertek fyrir þetta og segi henni að hún sé að fara mannavillt. Hún reynir að lýsa atburðinum þannig að ég hafi kynnst henni á Tinder og tekið rúntinn á Akranes og átt að hafa sofið hjá henni og notað smokk en smokkurinn rifnað.“

Maðurinn sagði lögmanninum að þetta væri algjör della. Engu að síður var honum stefnt fyrir dóm í faðernismáli og tilkynnt að hann gæti þurft að borga meðlag aftur í tímann.

„Þó ég viti 100% að ég hafi aldrei farið á Akranes og hitt þessa manneskju“

Hann var boðaður í þinghald en lögmaður konunnar tilkynnti honum að hann þyrfti ekki að mæta, svo hann gerði það ekki. Hann mætti svo sjálfur í næsta þinghald og var þá sagt að þar sem hann hafði ekki mætt í fyrra skiptið hefði hann þar með gengist við barninu.

„Já gott fólk þögn er sama og samþykki hjá þessu blessaða ríki ykkar“

Maðurinn mótmælti og sagðist aldrei hafa hitt þessa meintu barnsmóður. Loksins fékk hann í gegn að gerð yrði á honum líffræðileg rannsókn sem staðfesti að hann ætti ekkert í barninu.

„En mín vangavelta er, getur kona bara bent á mann og sagt hann faðir barns og látið hann ganga í gegnum þetta með engum afleiðingum? Eru orð karlmanna engan vegin trúverðug eða er hægt að leika sér svona að okkur“

Líflegar umræður en lítið um svör

Maðurinn tjáir sig svo í athugasemdum þar sem hann segir málið hafa tekið verulega á hann, sem Grindvíkingur hafi hann misst heimilið sitt og svo þurft að vera frá vinnu til að svara fyrir þetta meinta faðerni fyrir dóm. Hann sé þó þakklátur að hann á ekki konu og börn sjálfur því svona mál sé til þess fallið að sundra hjónum. Hann tekur fram að meinta barnsmóðirin hafi sjálf ekki mætt hjá dómstólum og sá hann myndir af henni í sumarleyfi erlendis á meðan hann stóð í þessu öllu saman. Hann telur að konan þurfi nú að biðja hann afsökunar.

Umræða fór að stað í athugasemdum um lagalega stöðu mannsins. Þarna takist á tilteknir hagsmunir. Líklega sé í svona málum barn látið njóta vafans enda hafi það lögbundinn rétt til að þekkja foreldra sína og uppruna sinn.

Ein greinir frá því að þekkja til sambærilegs máls þar sem kona benti á mann sem barnsföður sinn og sagði þau hafa getið barnið á djamminu. Viðkomandi maður kannaðist þó ekkert við konuna en fór þó í erfðarannsókn til að vera viss. Konan fylgdi málinu svo ekkert eftir heldur sóaði bara tíma mannsins með því að stefna honum en skrópa svo. Hann hafi heyrt frá lögmanni að hann gæti stefnt konunni fyrir svik.

Önnur hafði reynslu af máli þar sem staðan var öfug. Þar höfðaði maður mál gegn henni því hann taldi sig fera föður barns hennar. Sá hafði sætt nálgunarbanni vegna ágengni við konuna til fjölda ára, barnið var feðrað af öðrum manni og eins sýndi erfðarannsókn fram á að barnið væri rétt feðrað. Því máli var vísað frá dómi þar sem maðurinn hafði ekki höfðað málið gegn báðum foreldrum barnsins og krafist véfengingar á faðerninu. Hann hefði auk þess ekki leitt nægar líkur að því að faðernið væri ranglega ákvarðað til að það réttlætti að raska friðhelgi fjölskyldunnar meira.

Ekki hafa komið góð svör við fyrirspurn mannsins um hvort svona framganga sé lögmæt.

Barnið áður rangfeðrað

Um faðernismál segir í barnalögum að höfði barnið sjálft mál eða móðir þess skal stefnt þeim manni eða mönnum sem eru taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns. Þessi mál eru háð fyrir lyktum dyrum og sæta almennri málsmeðferð einkamála á þann veg sem ekki er mælt fyrir um annað í lögum.

Samkvæmt athugasemdum mannsins hafði stúlkan áður verið feðruð af öðrum manni, sem svo reyndist ekki vera faðir hennar. Þá stóð eftir hjá móður að feðra barnið að nýju en lögum samkvæmt er slíkt gert með faðernisviðurkenningu manns sem móðir telur líffræðilegan föður, eða úr því verður skorið með dómi í faðernismáli þar sem niðurstöður erfðarannsóknar ræður úrslitum. Móður ber skylda til að feðra barn sitt.

Í því skyni getur móðir fyllt út hjá sýslumanni beiðni um faðernisviðurkenningu og meðlag, ef meintur faðir skrifar ekki undir þarf að fara með málið fyrir dóm til að skera úr um faðernið. Bendi móðir á fleiri en einn mann sem hún hafi haft samfarir við á getnaðartíma þá skal leysa úr málinu með dómi.

Ekki er að finna ákvæði í barnalögum um réttarstöðu þeirra sem ranglega eru sagðir feður barna sem þeir eiga ekkert í. Til skoðunar koma þó ákvæði almennra hegningarlaga, svo sem um rangan framburð, en hver sem skýrir rangt frá einhverju fyrir rétti eða stjórnvaldi, sem hefur heimild til heitfestingar, skal sæta fangelsi allt að 4 árum ef um ásetning var að ræða og sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum ef um stórfellt gáleysi var að ræða. Eins má þar finna ákvæði um rangar yfirlýsingar til stjórnvalda.

Eins og að framan segir þá er um nafnlausa frásögn að ræða sem ekki hefur verið sannreynd, en engu að síður má af lögunum lesa að það er vel mögulegt að staða sem þessi komi upp í tilvikum þar sem barn hefur verið ranglega feðrað og móður gert að feðra barnið að nýju. Þá er ekkert sem útilokar að kona bendi á hvaða mann sem er sem mögulegan föður og að hún krefjist faðernisviðurkenningar og meðlags. Að ranglega benda á mann sem föður barns síns gæti þó varðað sektum eða fangelsi eftir alvarleika máls og eftir því hvort um ásetning var að ræða, og ef um gáleysi var að ræða hvort það sé stórkostlegt eða ekki.

Sá hagur sem faðernismál gætir er hagur barnsins og í samræmi við rétt þess til að þekkja uppruna sinn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Bill Gates: „Þetta eru mistökin sem ég sé mest eftir“

Bill Gates: „Þetta eru mistökin sem ég sé mest eftir“
Fókus
Í gær

Beggi Ólafs fagnaði stórum áfanga – „Það er erfitt trúa þessu“

Beggi Ólafs fagnaði stórum áfanga – „Það er erfitt trúa þessu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég á lítinn skrítinn skugga – Lífið er núna“

„Ég á lítinn skrítinn skugga – Lífið er núna“