Peter Crouch, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur sagt ansi skemmtilega sögu sem tengist sér, eiginkonu sinni Abbey og Rafael Benitez, fyrrum stjóra liðsins.
Crouch byrjaði að hitta fyrirsætuna Abbey er hann var leikmaður Liverpool en hún er afskaplega hugguleg kona og kom sambandið mörgum á óvart á þeim tíma.
Benitez var ekki hrifinn af því að Crouch væri reglulega á forsíðum slúðurblaða í Bretlandi á þessum tíma og reyndi í raun að sannfæra framherjann um að hætta við sambandið.
,,Ég man eftir því þegar Rafa sagði mér að hafa stjórn á henni því Abbey var í blöðunum og ég var á þessum sömu myndum. Hann spurði mig: ‘Ertu viss um þetta?’
,,Hann sagði að þetta væri að skapa vandamál, að fólk væri að taka myndir af okkur saman og við værum reglulega í blöðunum. Fólk gat varla trúað því sem var í gangi á milli mín og Ab, hvernig fór ég að þessu?“
,,Það sem ég afrekaði innan vallar var mögulega í skugga þess sem ég afrekaði utan vallar.“