Internetið er fullt af upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Það þarf töluverða leikni til að greina arfann frá hveitinu og jafnvel þeir sem telja sig nokkuð lunkna geta fallið fyrir uppspunanum. Elon Musk lenti í því að falla fyrir falsfrétt. Hann deildi færslu á samfélagsmiðli sínum X en rétt um hálftíma síðar eyddi hann færslunni þegar honum varð ljóst að hann var að deila lygum.
Hann deildi færslu frá öðrum netverja sem virtist vera að birta skjáskot af alvöru fréttamiðli. Þar sást fyrirsögn sem fullyrti að forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, væri að íhuga að byggja neyðar-varðhaldsbúðir (e. emergency detainment camps) á Falklandseyjum til að hýsa þá sem hafa verið handteknir í tengslum við óeirðir sem hafa ríkt í landinu undanfarið. Á skjáskotinu var því haldið fram að fangelsi landsins væru sprungin.
Elon Musk deildi þessu skjáskoti og skrifaði: „Varðhaldsbúðir….“. Fljótlega bentu aðrir netverjar á að skjáskotið væri falsað, engin frétt hefði birst hjá nokkrum fjölmiðli þar sem þessu væri haldið fram heldur væri hreinlega um áróður frá öfga-hægrinu að ræða.
Musk eyddi færslunni eftir 35 mínútur, líklega eftir að honum varð ljóst að hann féll fyrir falsfrétt. Áður en hann eyddi færslunni höfðu þá hátt í 2 milljónir fylgjenda hans lesið færsluna en í heildina er Musk með 193 milljón fylgjenda.
DailyBeast segir að skjáskotinu falsaða hafi upphaflega verið deilt af einum leiðtoga öfgahægri hreyfingarinnar Britain First og var skjáskotið viljandi látið líta út fyrir að koma frá breska miðlinum Daily Telegraph.
Alastair Campell, sem starfaði áður sem talsmaður Tony Blair og breska verkalýðsflokksins, hefur tjáð sig um færslu Musk: „Þökkum almættinu þetta. Þetta færðu fyrir að fylgja Elon Musk sem deilir falsréttum frá Britain First sem eru yfirlýstir samtök fasískra uppþotsmanna. Kannski, í þetta eina skiptið, hefur heilvita maður hnippt í hann og sagt í guðanna bænum Elon geturðu hætt að haga þér eins og þú sért þriggja ára? Hlakka til að hlusta á viðtal hans við Trump. Tvö sjálfsmörk á sama tíma.“
Musk hefur undanfarið harðlega gagnrýnt bresk yfirvöld fyrir það hvernig þau hafa tekið á tíðum óeirðum öfgahægrimanna undanfarna daga. Hann kallar stjórnvöld þar í landi „rétttrúnaðar Stasi“ og vísar þar til öryggissveitarinnar Staatssicherheit sem starfaði í austur Þýskalandi í kalda stríðinu sem gengu hart gegn þýskum borgurum og handtóku um 250 þúsund manns fyrir að kyssa ekki vöndinn.
Musk heldur því fram að óeirðirnar og í raun borgarastyrjöld sé óumflýjanleg í Bretlandi út af stefnu stjórnvalda þar í landi í innflytjendamálum.