Einn þekktasti undirheimamaður íslenskrar afbrotasögu, Sverrir Þór Gunnarsson, kallaður Sveddi tönn, tengist með óbeinum hætti stóra fíkniefnamálinu sem þingfest verður eftir helgi. Þar eru 18 manns, 13 karlar og 5 konur, ákærð fyrir ýmis brot, m.a. skipulagða brotastarfsemi, stórfelld fíkniefnabrot og peningaþvætti.
DV hefur undir höndum rannsóknargögn í málinu, sem fylla um 1.500 blaðsíður, og verður nánað fjallað um málið á dv.is um helgina. Eins og áður hefur komið fram er einn sakborningur talinn vera höfuðpaur og rak hann 18 manna hópinn eins og fyrirtæki. Hann réði fólk til starfa og sagði því upp, greiddi fólki laun, útvegaði sumum bíla, veitti fólki jafnvel sumarfrí. Tveir aðrir sakborningar voru hægri hönd hans og tóku þátt í að stjórna hópnum með honum, og þó raunar hvor í sínu lagi, þar sem annar leysti hinn af hólmi. Skýr verkaskipting var í hópnum eins og á þróuðum vinnustað en nánar verður fjallað um þá verkaskiptingu um helgina.
Í rannsóknargögnum ber nafn Sverris á góma í tengslum við skort á fíkniefnum inn í landið. Eftir mjög gjöfula tíma tók að halla undan fæti vegna skorts á efnum inn í landið. Mikil óánægja var með höfuðpaur hópsins um tíma vegna þessa. Í rannsóknargögnum er vikið að samtali sem lögreglan hefur hlerað, milli höfuðpaursins og óþekkts aðila. Er þeir víkja talinu að fíkniefnum segir höfuðpaurinn að það sé „ferlegt að fá ekki meira frá tönninni, allavega í bili.“
Segir síðan í skýrslunni að lögregla telji fullvíst að höfuðpaurinn „sé þar að meina Svedda tönn (Sverri Þór Gunnarss) sem var handtekin í Brasilíu 14. apríl 2023 fyrir fíkniefnalagabrot.“ Er jafnframt fullyrt í skýrslunni að höfuðpaurinn og Sveddi þekkist mjög vel og hafi meðal annars hist í byrjun árs 2023.
Sveddi er fæddur árið 1972 og hófst brotaferill hans strax við sextán ára aldur. Hafði lögreglan þá ítrekað afskipti af honum vegna umferðar- og fíkniefnabrota. Með tíð og tíma urðu brot hans skipulagðari og stórtækari og á árunum 1991-1995 var hann fjórum sinnum sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot. Viðurnefnið Sveddi tönn fékk hann vegna tannlýtis.
Eftir stórtækan feril í undirheimum Íslands fluttist Sveddi til Brasilíu. Árið 2012 var hann ásamt unnustu sinni handtekinn á alþjóðaflugvelli í Ríó de Janeiro, en þau höfðu undir höndum hátt í 50 þúsund e-töflur. Þetta kemur m.a. fram í samantekt Vísis þá um árið. Var hann dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir aðild sína að e-töflu smyglinu en losnaði út löngu áður en sá tími hafði verið afplánaður. Hann var síðan, eins og áður sagði, handtekinn í Brasilíu í vor fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot og skipulagða glæpastarfsemi. Í byrjun júlí var hann síðan ákærður fyrir aðild sína að þeim málum og bíður nú réttarhalda.
Fjallað var um skrautlegan feril Svedda í DV í vor: