Þessari spurningu var nýlega varpað fram á vef Live Science sem segir að á ensku sé hlaupastingur þekktur undir læknisfræðiheitinu „exercise-related transient abdominal pain“.
Það er pirrandi og óþægilegt að fá hlaupasting en alls ekki hættulegt. En hvað veldur þessum leiðindum?
Þrátt fyrir að hlaupastingur sé algengur, þá er ekki vitað með vissu hvað veldur honum en ýmsar kenningar eru á lofti um frá hvaða líkamshluta verkurinn kemur.
Ein þeirra naut mikilla vinsælda áratugum saman, eftir að kenningin var sett fram 1941, meðal vísindamanna og íþróttalækna en hún gekk út á að hlaupastingur væri afleiðing ónægs blóðflæðis til þindarinnar en hún sér um að draga loft inn og út úr lungunum. Þessi blóðskortur gæti valdið sársaukafullum krampa. Þessi kenning byggðist á kenningu um að blóð fari frá þindinni og safnist saman í vöðvum útlimanna þegar við reynum á okkur.
En þessi kenning er ekki mjög vinsæl lengur því vitað er að þindin starfar af miklum krafti þegar við reynum á okkur en það tryggir blóðflæði til hennar ekki frá.
Sumir hafa sagt að hlaupastingur geri vart við sig ef fólk er í lélegu líkamlegu formi. En vísindamenn efast um þetta og benda á að íþróttamenn í topp formi fái einnig hlaupasting.