fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

„Blaðamaðurinn Einar myndi spyrja hvað í ósköpunum gerðist eiginlega og hver ber ábyrgð.“

Eyjan
Miðvikudaginn 7. ágúst 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, segir ljóst að mistök voru gerð við byggingu á leikskólanum Brákarborg sem opnaði í lok sumarsins 2022 við Kleppsveg. Aðeins tveimur árum síðar hefur leikskólanum verið lokað út af byggingagalla. Reiknað álag frá ásteypuálagi og torfi á þaki byggingarinnar var meira en tilgreint var á teikningum og hafa sprungur myndast á veggjum og hurðir höfðu tekið að skekkjast í dyrakörmum.

Einar ræddi um málið við Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagði málið allt mikið áfall fyrir alla sem að því koma. Nú þurfi að finna út hver beri ábyrgð svo að borgin geti eftir atvikum leitað réttar síns.

„Blaðamaðurinn Einar myndi spyrja hvað í ósköpunum gerðist eiginlega og hver ber ábyrgð. Borgarstjórinn Einar er að spyrja nákvæmlega sömu spurninga uppi í ráðhúsi þessa daganna og um leið og þetta kom fram, þegar starfsfólk Brákarborgar sá þessar sprungur í veggjunum og loftinu, þá voru börnin sem betur fer komin í sumarfrí, þá var bara strax farið í það af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs, sem sér um þessar byggingar og framkvæmdir á þeim, að fá verkfræðistofu til að kanna hvað væri að gerast.“

Í ljós kom að burðarþol Brákarborgar stóðst ekki kröfur. Til að staðfesta þetta mat fékk borgin aðra verkfræðistofu til að staðfesta niðurstöðurnar. Eftir það var rokið að stað til að tryggja að börnin á Brákarborg gætu sótt leikskóla eftir sumarið. Það gekk vonum framar og munu börnin nú hefja leikskólagöngu í bráðabirgðahúsnæði í Ármúlanum. Koma þurfti húsnæðinu í stand sem olli því að um tveggja daga töf varð á því að börnin kæmu aftur úr fríinu en Einar segir að foreldrar verði að sjálfsögðu ekki rukkaðir fyrir þá töf.

Eftir standi þó áleitnar spurningar.

„Hvernig í ósköpunum gerðist þetta?,“ vill Einar vita og hefur hann óskað eftir óháðri úttekt á málinu. Hann segir að innri endurskoðun borgarinnar sé þessi óháði aðili og muni skoða hlut þeirra aðila sem komu að framkvæmdinni til að leiða í ljós hvar ábyrgðin liggur. Þar með talið verður horft til borgarinnar og hvort mistökin megi rekja þangað. Einar segir í raun með ólíkindum að þetta hafi gerst þar sem borgin fékk sérstaklega eftirlitsaðila að borðinu til að fylgjast með framkvæmdunum. „Við þurfum að horfast í augu við það ef það hafa verið gerð mistök hjá borginni

Sjálfur segir Einar að hann ætli ekki að leggja mat á hvort það hafi verið góð hugmynd að byggja Brákarborg til að byrja með. Það hafi meirihlutinn á síðasta kjörtímabili ákveðið og þýði lítið að fást um það núna.

„Nú þurfum við að finna út úr því hvar liggur ábyrgðin, hvar voru mistökin gerð, af hverju er burðarþolið ekki í lagi. Þetta er algjörlega óásættanlegt. […] Ég lít svo á að þetta sé mjög alvarlegt mál og við ætlum að láta gera alvöru úttekt á því.“

Einar sagði að það geti vissulega eitthvað verið til í því að framkvæmdir kosti hið opinbera meira en gengur og gerist. Verkefni fara gjarnan út fyrir kostnaðaráætlanir og sjálfur telur Einar að nýtt verklag þurfi að vera tekið upp til að tryggja betra samræmi milli hönnunar og framkvæmdar. Til dæmis með því að koma verktökum og hönnuðum saman í teymi og gefa þeim stífan kostnaðarramma. Þá þurfi að gæta hófs við hönnun þar sem það sem lítur fallega út á til að kosta meira þegar kemur að því að raungera hönnunina. Með því að hafa þetta samstarf milli hönnuða og verktaka sé hægt að halda þessu í skefjum.

„En varðandi Brákarborgina vil ég að foreldrar, sem eiga börn í þessum leikskóla, viti að það fer ekki barn þarna aftur inn fyrr en húsnæðið er orðið öruggt, það er númer eitt, tvö og þrjú.“

Einar þorði ekki að skjóta á hvað það taki langan tíma að opna Brákarborg aftur, en hann hafi þó heyrt út undan sér að það sé miðað við um sex mánuði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu