fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Andri Þór lenti í martröð á lúxushóteli á Tenerife – Rándýrt hótelrúmið iðaði af blóðsjúgandi pöddum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. ágúst 2024 13:30

Dvölin á lúxushótelinu endaði sem martröð

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í júlímánuði skellti Andri Þór Kristjánsson sér til Tenerife ásamt sambýliskonu sinni. Framundan var 15 daga dvöl á paradísareyjunni og ákvað parið að gera vel við sig og bóka gistingu á rándýru lúxushóteli, Princess Inspire,  á Adeje-ströndinni vinsælu. Gistingin á hótelinu kostaði 900 þúsund krónur fyrir vikurnar tvær en ferðin ljúfa átti fljótlega eftir að snúast upp í martröð þegar í ljós kom að hótelrúmið var krökkt af blóðsjúgandi veggjalúsum.

Hélt fyrst að um moskítóbit væri að ræða

„Ég hélt að ég myndi aldrei á minni lífsleið lenda í svona lífsreynslu,“ skrifaði Andri Þór í færslu á Facebook-hópnum vinsæla Tenesrife-spjallið sem hann veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um.

Strax á öðrum degi ferðarinnar fór Andri Þór að taka eftir bitum á líkama sínum sem hann taldi að væri moskítóbit. Bitin hins vegar ágerðust og þegar þau voru orðin yfir 100 talsins, með tilheyrandi óþægindum, ákvað parið að fara að skoða hótelrúmið betur og þá kom í ljós að það iðaði af lífi. Um var að ræða blóðsjúgandi veggjalýs og var greinilegt á þroskastigi þeirra að þær hefðu verið í rúminu í dágóðan tíma.

Andri Þór hafði þá þegar sambandi við afgreiðslu hótelsins og var parið flutt á annað herbergi og farangur þeirra skilinn eftir enda dreifa veggjalýs sér hratt.

Parið var bitið í bak og fyrir á lúxushótelinu

Vildu að skrifað yrði undir þöggunaryfirlýsingu

Í kjölfarið hófst ekki síðri martröð hjá Andra Þór og sambýliskonu hans en það var viðureignin við stjórnendur hótelsins. Segir hann að fyrst hafi gestastjórinn reynt að klína því á parið að þau hafi komið með veggjalýsnar og byggði það á því að slík óværa þekktist ekki á Tenerife. Hann hafi svo dregið það tilbaka þegar honum var bent á að gestirnir væru frá Íslandi þar sem slíkt er enn sjaldgæfara.

Til að byrja með bauðst gestastjórinn til að þvo föt íslenska parsins og sótthreinsa farangur þeirra sem þau þáðu með þökkum. Umræðurnar um mögulegar bætur voru þó mikil vonbrigði en eftir að hafa tekið sér tíma til að skoða málið ákvað gestastjórinn að bjóða Andra Þór 10 prósent afslátt af gistingunni og boð í lúxuskvöldverð. Til þess að taka þessu boði þyrftu þau þó að skrifa undir þöggunaryfirlýsingu.

Hafnaði boðinu og ber hótelinu ekki vel söguna

Andri Þór segir í færslunni að hann hafi upplifað reiði gestastjórans þegar hann og sambýliskona hans ákváðu að hafna boðinu. Þau hafi farið fram á að fá að minnsta kosti 6 nætur endurgreiddar enda ljóst að draumafríið var farið í hundanna og mikill kostnaður væri framundan við að tryggja með hjálp meindýraeyðis að veggjalýsnar myndu ekki sníkja sér far með þeim til Íslands og taka sér bólfestu á heimili þeirra.

Það sættust hótelstjórnendurnir ekki á, vildu að hámarka veita 15 prósent afslátt og 20 prósent afslátt af næstu heimsókn. Sögðu þeir að ef Andri Þór gengi ekki að þessu tilboði yrði málinu vísað til tryggingafélags hótelsins og úrvinnslan þar myndi taka langan tíma. Þær hótanir lét Andri Þór sem vind um eyru þjóta og er málið þar statt núna.

Ljóst er að Andri Þór er allt annað en sáttur við þessa martröð sem hann og sambýliskona hans upplifðu og ekki síður viðbrögð hótelsins.

„Það sem ég bið ykkur að gera er að forðast þetta hótel eins og rauðan eldinn,“ segir Andri Þór. Þá ráðleggur hann þeim sem leggja land undir fót að skoða hótelrúmin sín vel áður en lagst er til hvílu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars