Glúmur Baldvinsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar blaðamaður Heimildarinnar hringdi í hann og rakti úr honum garnirnar varðandi auglýsingu Glúms eftir iðnaðarmanni.
Glúmur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og ljóst er að honum er nokkuð skemmt.
„Nú viðurkennist að ég er ekki handlaginn maður. Ég er vissulega með þrjár háskólagráður en að öðru leyti ónýtur til flestra hagnýtra verka. Svo þegar ég þurfti um daginn að setja upp gluggatjöld og festa sjónvarp á vegg auglýsti ég eftir starfskrafti á FB. Og uppskar hlátur margra. Þá hafði samband gamall félagi og benti mér á appið Giggó. Þar fann ég mann sem gekk strax í verkið. Og málið dautt. En svo gerðist hið undarlega í hádeginu. Ég fékk símtal frá fréttamiðli sem kallar sig Heimildina. Blaðamaður spurði mig útí málið og bar upp ýmsar kynlegar spurningar einsog þessar: Notar þú Giggó oft? Er sjónvarpið stórt? Kynnistu fólki á Giggó? Ég var hálf gáttaður á spurningunum en ákvað að leggja ekki á. Mér fannst þessi spurning best: Kynnistu fólki á Giggó? Var maðurinn að ýja að því að ég væri að leita að elskuhuga á þessu appi?,“ skrifar Glúmur og segist hafa hálfparinn hlegið.
Hann hafi spurt blaðamanninn um hvort að frétt væri í vændum og fengið þau svör að það kæmi til greina.