„Þetta snýst ekki um einstaka úrslit eða leiki heldur er það einfaldlega mat okkar í stjórn að við séum ekki á réttri leið með liðið og því var þessi ákvörðun tekin,“ sagði Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar Vals þegar félagið tilkynnti að búið væri að reka Arnar Grétarsson.
Arnari var tilkynnt um uppsögnin beint eftir tap Vals eftir gegn St. Mirren, ljóst er að brottrekstur Arnars átti sér nokkurn undirbúning en á sama tíma og tilkynnt var um uppsögn hans var tilkynnt um ráðningu á Srdjan Tufegdzic (Túfa).
Túfa gerði þriggja ára samning og ljóst að slíkur samningur var ekki kokkaður upp beint eftir tap í Skotlandi.
Samkvæmt því sem 433.is kemst næst var það til skoðunar hjá forráðamönnum Vals að reka Arnar úr starfi eftir tap gegn KA í undanúrslitum bikarsins á dögunum, þótti þeim frammistaðan ekki boðleg fyrir Val. Var ákveðið að bíða með uppsögnina að sjá og taka stöðuna eftir nokkra leiki. Tapið gegn Fram í Bestu deild karla á sunnudag varð svo til þess að forráðamenn Vals fóru aftur að skoða stöðuna.
Endanleg ákvörðun var svo tekinn beint eftir leik í Skotlandi og Arnar rekinn rétt eftir leik. Hafði verið gert samkomulag um Túfa að koma inn.
Í gærdag fórust svo að heyra orðrómar að Arnar yrði rekinn úr starfi ef illa færi í Skotlandi um kvöldið og það varð raunin. Eftir eitt og hálft tímabil á Hlíðarenda var Arnar látinn fara.
Hann ferðast ekki heim með liðinu og verður eftir í Skotlandi þar sem aðilar úr fjölskyldu hans voru mætt á leikinn.