fbpx
Miðvikudagur 31.júlí 2024
Fréttir

Sigmundur um útlendingamálin: Fólk sé hrætt við að fara í sumar verslanir „vegna þess að þar hanga einhverjir sem áreita fólk“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 31. júlí 2024 11:00

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd: KSJ/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir Ísland hafa gjörsamlega misst tökin á útlendingamálunum og lýsir ófremdarástandi. Hann segir fólk vera orðið hrætt við að fara í sumar verslanir „vegna þess að þar hanga einhverjir sem áreita fólk og virða ekki grundvallarviðmið sem hafa verið í gildi í þessu samfélagi.“

Þetta kom fram á Bylgjunni í morgun. „Það má nefna ástandið á leigubílamarkaðnum sem bara á nokkrum vikum fór gjörsamlega úr böndunum, eins og hafði verið varað við þegar lögunum var breytt. Þá eru þar komnir menn í vinnu sem margir hverjir eru ekki mjög traustvekjandi. Mér skilst að pólsku og íslensku leigubílstjórarnir séu meira og minna hættir að fara að Leifsstöð. Ástandið sé orðið slíkt þar. Við höfum heyrt a.mk. í þrígang af því að konum hafi verið nauðgað af mönnum sem kölluðu sig leigubílstjóra, mönnum sem áttu aldrei að vera hérna og áttu aldrei að hafa leyfi hér til að aka leigubíl. Ástandið er að þróast mjög hratt til verri vegar, það þarf að taka á því og ég er bara  þakklátur hvaða embættismanni sem leyfir sér að lýsa ástandinu eins og það er og taka á því,“ sagði Sigmundur ennfremur.

Tilefni viðtalsins voru málefni Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara en Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur áminnt hann og lagt til við dómsmálaráðherra að hann verði leystur tímabundið frá störfum, vegna ummæla Helga í fjölmiðlum um útlendingamál í tengslum við brotamanninn Mohamad Kouraini sem nýlega fékk 8 ára fangelsisdóm fyrir ofbeldisbrot. Kourani ofsótti Helga og fjölskyldu hans í þrjú ár, eins og Helgi ræddi í viðtali við DV í gær.

Sjá einnig: Helgi lýsir þriggja ára taugastríði undir ofsóknum Kourani – „Maður á ekkert dýrmætara en börnin sín“

Sigmundur segir ummæli Helga hafa verið hófsöm og eðlileg. „Má kannski segja að það hafi verið tími til kominn að einhverjir háttsettir í kerfinu segðu hlutina bara eins og þeir eru, hvað þessi mál varðar. Þeir eru miklu verri en langflestir gera sér grein fyrir, held ég, og jafnvel verri en ég sjálfur gerði mér grein fyrir, hef ég þó mikinn áhuga á að fylgjast með þessu og legg mig fram við það. Búinn að vera í samskiptum við fólk hér og þar í kerfinu árum saman, að fylgjast með þessari þróun. Ég var nú dómsmálaráðherra um tíma og það gaf tækifæri til að fylgjast enn betur með þessu en ella. Margt af því sem Helgi var að benda á eru bara staðreyndir sem blasa við og eiga að blasa við hverjum sem er. Ekki bara staðreyndir hér heldur víðar en þetta er að gerast mjög hratt hér á Íslandi. En þegar ég var í dómsmálaráðuneytinu þá til að mynda hafði lögreglan gert upptæka bæklinga á albönsku til þess að leiðbeina fólki sem verið var að smygla hingað um það hvernig mætti misnota íslenska kerfið. Eitt af því sem var nefnt var t.d. að reyna að eignast barn með íslenskri konu, annað var að segjast vera samkynhneigður. Það er t.d. eitt sem Helgi benti á og fékk bágt fyrir, en er bara staðreynd.“

Ísland búið að missa tökin

Sigmundur var spurður hvort háttsettir embættismenn mættu leyfa sér að segja hvað sem er. „Ekki hvað sem er en þeir eiga að segja sannleikann. Þarna er bara fyrirliggjandi sannleikur, þetta eru ekki einhverjar kenningar sem hann er að koma með, hann er ekki að segja frá sínum eigin skoðunum eða hugrenningum, hann er bara að lýsa staðreyndum. Og þetta eru staðreyndir sem kerfið hefur að allt of miklu leyti verið sofandi gagnvart. Meðal annars þess vegna er þróunin svona hröð á Íslandi, að við erum að missa tök á þessu í auknum mæli. Þegar menn eru endanlega búnir að missa tökin á þessum málaflokki þá er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Þannig að þetta voru bara orð í tíma töluð og hefði mátt ræða þetta miklu meira og miklu fyrr.“

Komið hefur fram í viðtölum við Helga, m.a. á DV í gær, að hann hafi ekki notið neinnar aðstoðar eða verndar við að verjast ofsóknum Kourani. Þetta þykir Sigmundi afleitt: „Það er náttúrulega algjörlega afleitt því eins og hann benti á sjálfur þá er með þessu ekki bara verið að ráðast á einstaklinginn og fjölskyldu hans, það er verið að ráðast á allt kerfið. Það er með þessu verið að reyna að hafa áhrif á þá sem eru í vinnu við að viðhalda lögum og reglu í landinu. Það má bara ekki láta það viðgangast og þá þarf að standa vörð um það fólk. Við höfum líka heyrt sögur af því að lögreglumönnum hafi verið hótað og fjölskyldum þeirra jafnvel í auknum mæli. Þetta er auðvitað alveg hrikaleg lífsreynsla að ganga í gegnum, sérstaklega þegar fjölskyldan er undir og maður reynir að setja sig í sömu spor og Helgi þó að maður hafi kynnst einu og öðru í pólitíkinni.“

Útlendingalögin ónýt

Sigmundur segir að útlendingalögin séu ónýt. „Það þýðir ekkert að halda áfram að stagbæta þau eitthvað með einhverjum smámálum sem ná kannski í gegn hjá þessari ríkisstjórn í fimmtu tilraun. Það þarf að skrifa ný útlendingalög. Það hefur legið fyrir frá upphafi, að mínu mati. Ég hef sagt það frá upphafi að þessi lög, eins gölluð og þau eru, myndu leiða til þess sem þau hafa leitt til. Það þarf bara ný útlendingalög sem taka mið af veruleikanum eins og hann er núna. Eitt af því er að það þarf að vera auðvelt að vísa fólki frá landinu þegar það brýtur af sér, en eins og í tilviki þessa manns sem hefur verið ræddur vegna hótana við Helga, þá hlýtur maður að spyrja sig, í fyrsta lagi, hvers vegna fékk maðurinn leyfi til að vera á landinu þegar það er tekið fyrir jafnvel eftir að hann er byrjaður að brjóta af sér, og svo er það framlengt. Af hverju er haldið áfram að framlengja dvalarleyfi þessa manns? Það er eflaust að einhverju leyti vegna þess að einhverjir í kerfinu telja sig bara skuldbundna til þess. En það held ég að sé alveg kolröng nálgun í íslenska stjórnkerfinu, það er of mikil undirgefni gagnvart einhverjum ímynduðum kröfum á okkar samfélag. Verið að leitast við að ganga jafnvel lengra en annars staðar. Við höfum séð að Ísland hefur slegið met á meðal Norðurlandanna í ásókn hingað. Og skortur á vilja til að taka á hlutunum í samræmi við tilefni.“

Sigmundur gagnrýndi baráttusamtökin Solaris, sem kærðu Helga til lögreglu fyrir orðræðu hans um útlendingamál, og sakaði þau um öfga. „Aktivistar reyna að misnota kerfið til að reyna að taka menn úr umferð. Það er reynt að gera menn hrædda við að gera það sem þarf að gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Terra Einingar kaupir Öryggisgirðingar

Terra Einingar kaupir Öryggisgirðingar
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Stemning og gleði í Pósthlaupinu

Stemning og gleði í Pósthlaupinu
Fréttir
Í gær

Hræðilegt ástand göngupalla við Leirhnjúk og Kröflu – „Mér finnst lítið vera gert í þessu“

Hræðilegt ástand göngupalla við Leirhnjúk og Kröflu – „Mér finnst lítið vera gert í þessu“
Fréttir
Í gær

Veðurstofan segir auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum

Veðurstofan segir auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum
Fréttir
Í gær

Tveir árásarmennirnir fyrir rétt á morgun eftir harðort bréf lögmanns – Yana lýsir barsmíðunum

Tveir árásarmennirnir fyrir rétt á morgun eftir harðort bréf lögmanns – Yana lýsir barsmíðunum
Fréttir
Í gær

Ferðamaður sem heimsótti Ísland nýlega segir þetta hafa breyst til hins verra frá síðustu heimsókn árið 2015

Ferðamaður sem heimsótti Ísland nýlega segir þetta hafa breyst til hins verra frá síðustu heimsókn árið 2015
Fréttir
Í gær

Kona grunuð um að brjóta margoft rúður í lögreglubílum og einkabílum lögreglumanna

Kona grunuð um að brjóta margoft rúður í lögreglubílum og einkabílum lögreglumanna
Fréttir
Í gær

Síbrotamaður braust inn í fjölbýlishús um miðja nótt – Sagðist bara vera að hlýja sér

Síbrotamaður braust inn í fjölbýlishús um miðja nótt – Sagðist bara vera að hlýja sér