Haniyeh ferðaðist til Tehran í gær til að vera viðstaddur innsetningu nýs forseta landsins, Masoud Pezeshkian, sem vann írönsku forsetakosningarnar fyrir skemmstu. Sjálfur var hann búsettur í Katar og fór hann fyrir pólitískum armi Hamas-samtakanna.
Óvíst er hvaða áhrif þetta mun hafa á framvindu mála fyrir botni Miðjarðarhafs, en Haniyeh var í forsvari Hamas-samtakanna í viðræðum um hugsanlegt vopnahlé og lausn ísraelskra gísla. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur fordæmt morðið á Haniyeh og segir að það geti haft „hættulegar“ afleiðingar í för með sér.
Nokkrum klukkustundum áður en Haniyeh var drepinn gerði Ísraelsher árás á Beirút, höfuðborg Líbanons, þar sem Fuad Shukr, hátt settur herforingi innan Hezbollah-samtakanna, var drepinn. Hezbollah-samtökin hafa ekki staðfest dauða hans en Ísraelsmenn segja að hann hafi verið drepinn í árásinni.
Nader Hashemi, prófessor í Miðausturlandafræðum við Georgetown University, segir við BBC í morgun að morðið á Haniyeh færi þennan heimshluta nær allsherjarstríði. „Þetta er stór atburður,“ segir hann og vísar einnig til árásarinnar sem gerð var á Shukr í Beirút.
Hann segir að atburðir síðustu vikna og mánaða hafi bent til þess að hvorki Íran né Hezbollah-samtökin væru tilbúin að láta átökin stigmagnast en atburðir gærkvöldsins og næturinnar gætu hæglega breytt því. Bæði rússnesk og tyrknesk yfirvöld hafa fordæmt morðið á Haniyeh og segja Rússar að morðið muni óhjákvæmilega leiða til stigmögnunar átakanna.