fbpx
Þriðjudagur 30.júlí 2024
Fréttir

Landspítalinn réð konu og braut jafnréttislög

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 30. júlí 2024 11:30

Landspítalinn við Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landspítalinn hafi gerst brotlegur við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði með því að ráða konu í starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á þjónustusviði. Það var karlmaður sem kærði ráðninguna til nefndarinnar á þeim grundvelli að með því að ráða konuna fremur en hann í starfið hefði spítalinn mismunað honum á grundvelli kyns og aldurs.

Starfið var auglýst í júlí 2022 og voru maðurinn og konan þau einu sem sóttu um. Manninum var tilkynnt í október 2022 að konan hefði verið ráðin í starfið en eftir að maðurinn hafði fengið bæði rökstuðning og gögn sem vörðuðu ráðninguna frá Landspítalanum lagði hann loks fram kæruna til Kærunefndar jafnréttismála í júní á síðasta ári.

Maðurinn lagði kæruna fram á þeim grundvelli að ómálefnalegar ástæður hafi leitt til þess að hann var ekki ráðinn í starfið. Hann hafi verið hæfasti umsækjandinn en sé af öðru kyni og töluvert eldri en konan. Hann sé með áratugs reynslu sem lyfjafræðingur og sem lyfsöluleyfishafi um tíma. Vildi maðurinn meina að Landspítalinn hafi gert lítið úr reynslu hans og getu með því að ráða konuna sem hafi verið nýútskrifuð úr lyfjafræði. Sagði maðurinn augljóst að menntun hans og reynsla hafi ekki verið metin að verðleikum. Ekki hafi verið færð fullnægjandi rök fyrir því með hvaða hætti konan stóð honum framar.

Sumarstarf eigi ekki að skipta höfuðmáli

Taldi maðurinn í kæru sinni að starfsreynsla ætti að vega þungt við mat á umsækjendum um sérfræðistarf eins og starf lyfjafræðings óneitanlega sé. Starfsreynsla konunnar sem lyfjafræðinemi í sumarstarfi hjá Landspítalanum og stutt reynsla hennar sem lyfjafræðingur í apóteki geti ekki vegið þungt í samanburði við reynslu hans enda hafi starfið átt að varða lyfjafræðilega þjónustu frekar en vinnu í apóteki. Þá liggi fyrir að konan hafi fengið útgefið starfsleyfi í upphafi árs 2022 og verið ráðin í starfið sjö mánuðum síðar. Vildi maðurinn því meina að hann standi konunni framar hvað varðar faglega þætti þjónustunnar.

Maðurinn sagðist uppfylla allar hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingunni. Vísaði maðurinn til þess rökstuðnings Landspítalans að konan hafi staðið sig betur í viðtali auk þess að sýna af sér gott viðmót, áhuga og metnað. Sagði maðurinn að góð frammistaða eins umsækjanda í viðtali eigi ekki að geta leitt til þess að litið verði framhjá starfsreynslu og menntun annars umsækjanda. Taldi maðurinn að niðurstaða viðtalanna sem tvær konur tóku hafi verið byggt á huglægu mati þeirra. Vakti hann sérstaka athygli á því að spurningarnar í viðtölunum hafi verið í kvenkyni og þar með þvert á íslenska málhefð og málfræðilegt kyn, en ekki í öllum kynjum til að gæta jafnræðis.

Benti maðurinn einnig á að Landspítalinn væri að mestu kvennavinnustaður og sagði hann halla á karla þegar komi að ráðningu í störf lyfjafræðinga.

Taldi maðurinn einnig líklegt að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs þar sem hann væri töluvert eldri en konan.

Hafi bæði uppfyllt skilyrðin

Landspítalinn taldi sig ekki hafa mismunað manninum. Bæði hann og konan hafi uppfyllt skilyrði starfsauglýsingarinnar og ákvörðun um ráðningu hafi því að töluverðu leyti byggt á viðtölunum þar sem konan hafi staðið sig betur. Þótt maðurinn hafi búið yfir starfsreynslu sem lyfjafræðingur í apótekum hafi ekki verið gerð krafa um slíka hæfni í auglýsingunni. Starfsumhverfi á Landspítalanum sé töluvert frábrugðið þeim vinnustöðum sem maðurinn hafi tilgreint í ferilskrá sinni.

Spítalinn tók hins vegar undir með manninum um að það halli á karlmenn þegar kemur að kynjahlutföllum meðal lyfjafræðinga sem starfa á spítalanum en 83 prósent þeirra séu konur. Karlar hafi hins vegar sömu tækifæri við mat á hæfni en þrátt fyrir þennan kynjahalla sé spítalanum óheimilt að ráða karl í starf sem hæfari kona sækir um. Það sé einnig langsótt að spítalinn hafi mismunað manninum á grundvelli aldurs þar sem hann sé nálægt meðalaldri lyfjafræðinga á spítalanum sem sé um 42 ár. Konan hafi verið hæfari og því hafi spítalinn ekki mismunað manninum og þar af leiðandi ekki brotið lög.

Ekki nóg að vísa til stiga

Í niðurstöðu sinni bendir Kærunefnd jafnréttismála meðal annars á að aðrir starfsmenn en þeir sem tóku viðtölin hafi tekið ákvörðun um ráðninguna en frekari gögn úr viðtölunum liggi ekki fyrir eins og t.d. skráning á svörum umsækjendanna við einstaka spurningum. Sagði nefndin einnig að misræmis hafi gætt í svörum Landspítalans en manninum hafi verið tjáð að reynsla konunnar af starfi í sjúkrahúsapóteki hafi átt sinn þátt í ráðningunni en eins og áður kom fram hélt Landspítalinn því fram að ekki hafi verið gerð ákveðin krafa um starfsreynslu.

Segir nefndin að í ljósi þess að engin önnur gögn en stigagjöf liggi fyrir um frammistöðu konunnar og karlsins í viðtölunum nægi ekki að vísa eingöngu til stigagjafarinnar við mat á umsækjendunum en eins og áður kom fram sagði spítalinn að frammistaða í viðtölunum hafi haft úrslitaáhrif. Telur nefndin því hafa verið leiddar líkur að því að mismunun á grundvelli aldurs og kyns hafi leitt til þeirrar ákvörðunar að ráða konuna í starfið. Miðað við þessa áherslu á viðtölin hafi spítalanum samkvæmt upplýsingalögum borið að skrá sérstaklega svör mannsins og konunnar og frammistöðu þeirra í viðtölunum.

Nefndin segir þar af leiðandi að ekki verði séð að heildarmat hafi farið fram á þeim þáttum sem lágu til grundvallar ákvörðunar Landspítalans að ráða konuna fremur en manninn í starfið. Ekki verði séð að ráðningin hafi verið byggð á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Spítalanum hafi ekki tekist að sýna fram á að ráðningin hafi byggt á öðru en kyni og aldri og því sé um að ræða brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bandarískur ferðamaður nefnir það ljótasta við Ísland – „Þetta kemur mér verulega á óvart“

Bandarískur ferðamaður nefnir það ljótasta við Ísland – „Þetta kemur mér verulega á óvart“
Fréttir
Í gær

Jón Viðar segir að Egill sé „yfirtuðari“ þjóðarinnar – „Maður líttu þér nær – segi ég nú bara“

Jón Viðar segir að Egill sé „yfirtuðari“ þjóðarinnar – „Maður líttu þér nær – segi ég nú bara“