fbpx
Þriðjudagur 30.júlí 2024
Fókus

Segir að tíminn eftir Byrgismálið hafi verið hræðilegur – „Ég hef aldrei sagt þetta opinberlega áður“

Fókus
Þriðjudaginn 30. júlí 2024 08:47

Mummi Týr. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mummi Týr Þórarinsson, fyrrverandi forstjóri Götusmiðjunnar segir að tíminn eftir Byrgismálið hafi verið hræðilegur af því að fólk hafi ruglað sér saman við Guðmund í Byrginu. Mummi sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir málið hafa elt sig í mörg ár, sem hafi verið sérstaklega sárt af því að hann hafi átt stóran þátt í að koma málinu af stað.

„Ég hef aldrei sagt þetta opinberlega áður, en ég var að frétta af krökkum inni í Byrginu og að það væru mjög óeðlilegir hlutir í gangi þar. Ég hef samband við barnaverndarnefnd og segi þeim að það séu unglingar í Byrginu sem eigi ekki að vera þar. Svo hnippi ég í Jóhannes Kr Kristjánsson sem var með Kompás á þessum tíma. Þannig hefst í raun Byrgismálið. Ég hringdi í Jóhannes og hann fór í kjölfarið af stað í að rannsaka þetta. Ég sagði honum að það yrði að kíkja á þetta af því að þar væru ungar stelpur komnar í ástarsamband við starfsmenn. Ég var búinn að tilkynna þetta niður í Barnaverndarstofu en þeir sögðust aldrei hafa fengið tölvupóstana frá mér. Ég var meira að segja farinn að fá símtöl þar sem var drullað yfir mig, af því að það var verið að rugla mér saman við Guðmund í Byrginu. Það átti að fara að handrukka mig og þá vissi ég að ég yrði að gera eitthvað í þessu,“ segir hann.

Skjáskot/YouTube

„Þetta hefur fylgt mér í mörg ár“

Mummi þekkir það vel að vera á milli tannanna á fólki og að fólk hafi á honum skoðanir eftir áraraðir í opinberri umræðu. En hann segir að þegar Byrgismálið hafi komið upp hafi farið í hönd mjög erfiður tími, þar sem ruglingurinn hafi verið mikill í langan tíma.

„Kvöldið sem þessi Kompásþáttur var sýndur var ég uppi á sviði með Ragga Bjarna og fleirum á tónleikum þar sem átti að styrkja Götusmiðjuna um eina milljón króna. Tónleikarnir gengu vel og það var mikið klappað, en þegar ég labbaði niður af sviðinu segir konan sem hélt utan um þetta við mig: „Þú komst ekkert sérstaklega vel út úr þessum Kompásþætti, en ég vil að þú vitir að þú færð að halda milljóninni.“ Ég man bara að það fyrsta sem ég hugsaði var: „Fokk!“ Kompásþátturinn var sýndur á sunnudagskvöldi og var í sjónvarpinu á sama tíma og ég er þarna uppi á sviði. Ég hugsaði strax hvort allir þessir þúsund manns sem voru þarna inni væru að hugsa hvort að ég væri þessi maður sem verið væri að fjalla um. Símarnir voru þarna komnir nokkuð sterkt inn og upplýsingaflæðið orðið hratt. Við heitum báðir Guðmundur og vorum báðir með sítt grátt hár á þessum tíma að reka meðferðarúrræði. Ég þurfti eftir þetta að fara á fullt í að reyna að koma fólki í skilning um að þetta væri ekki ég sem verið var að fjalla um,“ segir Mummi, sem segir að tíminn eftir þetta hafi í raun verið bölvanlegur:

„Það var hringt í starfsfólkið mitt eftir þáttinn og spurt hvort ég hafi leitað á það og fleira í þeim dúr. Þetta hefur í raun fylgt mér í mörg ár. Ég hef lent í því margoft að fólk öskri á mig úti á götu og fleiri opinberum stöðum. Að ég sé kallaður perri og öllum illum nöfnum. Þetta gekk svo langt að ég þurfti að senda frá mér fréttatilkynningu þar sem ég sagði að ég væri ekki Guðmundur í Byrginu. Þetta var skelfilegur tími og það er ekki langt síðan ég lendi síðast í því að þurfa að leiðrétta þetta.”

Fann sig strax í þessum bransa

Mummi er þekktastur fyrir ötult starf með unglingum í fíknivanda og rak mörg ár meðferðarheimilið Götusmiðjuna sem gott orð fór af. Hann segist strax hafa fundið sig í þessum bransa:

„Við áttuðum okkur á því að margir af þessum krökkum áttu engan samastað, þannig að mér fannst ekkert annað í boði en að gera allt sem ég gæti til að skjóta skjólshúsi yfir þau. Eftir að hafa horft á þessa krakka fara inn og út úr meðferðum og sum hver deyja rann mér blóðið til skyldunnar. Hið opinbera vildi ekki vita af þessum vanda og afneitaði honum. Ég tók þess vegna bara af skarið og opnaði Götusmiðjuna, meðferðarúrræði með óskilgreindan tíma fyrir þá sem nýttu sér úrræðið. Eina skilyrðið var að börnin væru undir 18 ára og hafði Barnaverndarstofa svokallaða yfirumsjón með milligöngu þeirra ungmenna sem nýttu sér úrræðið. Á þeim 14 árum sem Götusmiðjan var starfrækt fóru um 2.000 ungmenni í gegnum úrræðið og árangurinn var mjög góður þó að ég segi sjálfur frá. Tveimur árum eftir meðferð voru 50% ungmennanna í góðum málum, sjálfbær félagslega og fjárhagslega, með vinnu og þak yfir höfuðið.“

Þakklátur

Eftir mjög erfiða æsku, viðburðaríkt líf þar sem mikið hefur gengið á segist Mummi kominn í betra jafnvægi en nokkru sinni og er þakklátur og sáttur þegar hann horfir yfir farinn veg.

„Það sem gleður mig mest er þegar ég hitti krakka sem voru hjá mér í Götusmiðjunni og lifa núna fallegu og innihaldsríku lífi. Ég fæ hlýtt í hjartað þegar ég hugsa um það og það segir mér að ég hafi gert eitthvað rétt í gegnum tíðina. Þetta eru í heildina þrjú þúsund ungmenni sem komu í gegnum úrræðin hjá mér. Eðli málsins samkvæmt dóu sumir og aðrir fóru í fangelsi, en fjöldi þessara krakka náðu að eignast farsælt og gott líf.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Mumma og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Katy Perry með sjóðheitt flugglæfrabragð í næsta myndbandi – Mun það floppa líkt og síðasta lag?

Katy Perry með sjóðheitt flugglæfrabragð í næsta myndbandi – Mun það floppa líkt og síðasta lag?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eyddu 8-9 milljónum í brúðkaupið en sjá ekki eftir því

Eyddu 8-9 milljónum í brúðkaupið en sjá ekki eftir því
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán birtir bikinímynd í tilefni 45 ára afmælis

Ásdís Rán birtir bikinímynd í tilefni 45 ára afmælis
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taka fyrir umdeilt mataræði hjá stæltum áhrifavöldum – Segja ómenntaða „sérfræðinga“ orsaka óreiðuna

Taka fyrir umdeilt mataræði hjá stæltum áhrifavöldum – Segja ómenntaða „sérfræðinga“ orsaka óreiðuna
Fókus
Fyrir 5 dögum

Háklassa vændiskona rukkar 1,4 milljónir fyrir endaþarmsmök – „Ég held að karlmenn njóti þess að sjá konur í óþægilegum aðstæðum“

Háklassa vændiskona rukkar 1,4 milljónir fyrir endaþarmsmök – „Ég held að karlmenn njóti þess að sjá konur í óþægilegum aðstæðum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ingi skorar á Íslendinga að finna sig – Klukkarinn fær 100 þúsund í fundarlaun

Ingi skorar á Íslendinga að finna sig – Klukkarinn fær 100 þúsund í fundarlaun