Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skorar á Guðrúnu Hafsteinsdóttur að fallast ekki á beiðni Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari verði leystur tímabundið frá störfum.
„Það má ekki verða niðurstaðan að Helgi Magnús Gunnarsson verði hrakinn úr embætti vararíkissaksóknara að kröfu öfgamanna! Maðurinn hefur mátt þola margra ára hótanir gagnvart sjálfum sér og fjölskyldu sinni án eðlilegra viðbragða eða stuðnings frá yfirvöldum,“ segir Sigmundur Davíð í færslu á Facebook.
Beiðni Sigríðar kemur eftir að hjálparsamtökin Solaris kærðu Helga Magnús fyrir rógburð og smánun vegna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sem og ærumeiðingar samkvæmt almennum hegningarlögum. Það er vegna ummæla um innflytjendur, flóttafólk og samtökin sjálf.
„Eftir þá miklu raun leyfði hann sér ekki annað en að benda mjög hóflega á þá hættu sem samfélagið allt stendur frammi fyrir. Hættu sem stjórnkerfið virðist að miklu leyti vera algjörlega sofandi gagnvart,“ segir Sigmundur. „Það er hlutverk stjórnkerfisins að verja borgarana. Ef stjórnvöld bugast gagnvart valdbeitingu erum við komin í samfélagslegt þrot.“