fbpx
Mánudagur 29.júlí 2024
Fréttir

Boða breytingar á útlendingalögum – „Lágmarkskrafa að viðkomandi aðilar virði lög og reglur á Íslandi“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. júlí 2024 10:30

Mohamad Kourani. Mál hans hefur skapað mikla umræðu um fólk með alþjóðlega vernd sem brýtur af sér.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp í haust sem gerir yfirvöldum kleift að svipta fólk alþjóðlegri vernd gerist það uppvíst að alvarlegum brotum.

Vinna við frumvarpið er framundan í allsherjarnefnd. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, og Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. sem á sæti í nefndinni, ræddu málið á Bylgjunni í morgun.

Bryndís sagði: „Mér finnst auðvitað að þegar fólk kemur til Íslands og fær hjá okkur vernd, sem er vernd íslenska ríkisins, við erum að styðja viðkomandi vegna þess að hann er að koma úr einhverjum aðstæðum, að þá sé lágmarkskrafa að viðkomandi aðilar virði lög og reglur á Íslandi. Það er auðvitað bara ofboðslega eðlilegt. Við erum að bjóða þeim sem einskonar gestum inn á okkar heimili. Þá auðvitað viljum við að okkar lögum og reglum sé fylgt.

Það er auðvitað bara mjög eðlilegt að við gerum þá kröfu. Það er einmitt það sem ráðherra hefur boðað. Ég held að sé bara mjög mikilvægt að við finnum leiðir til að útfæra – en mig langar líka að segja af því það hefur verið mikið í umræðunni, við afgreiddum breytingar á útlendingalögum síðasta vor og við höfum verið að gera töluverðar breytingar á útlendingalöggjöfinni  og ég vil meina að það sé til mikilla bóta þær breytingar sem við höfum gert. Þetta er ein af þeim sem við þurfum að skoða líka.“

Vanda þarf til verka

Í viðtalinu sakaði Bryndís Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, um popúlisma. Inga hefur greint frá því að breytingatillaga sem hún kom með á útlendingalöggjöfinni hefði leitt til þess að hægt hefði verið að senda brotamanninn Mohamad Kourani úr landi. Sjá hér. „Ég hefði haldið að ráðherrann tæki breytingartillögu minni fagnandi enda hafði hún á opinberum vettvangi ítrekað tjáð sig um mikilvægi þess að fá heimild inn í löggjöfina sem heimilaði að senda erlenda brotamenn úr landi þrátt fyrir að hafa hér alþjóðlega vernd. Það þarf ekki að orðlengja frekar um það, en dómsmálaráðherrann felldi tillöguna ásamt Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni í heild sinni. Aum voru rökin þegar ráðherrann brá fæti fyrir sjálfa sig og afneitaði því sem hún hefur ítrekað talið nauðsynlegt að næði fram að ganga. Það kom fram í atkvæðaskýringu með breytingartillögunni að hana væri ekki hægt að samþykkja vegna „lagatæknilegra annmarka“. Það voru engir lagatæknilegir annmarkar á tillögunni enda byggðist hún á eldri útlendingalöggjöf. Hins vegar ef hún hefði náð fram að ganga, þá væri landsþekkti glæpamaðurinn frá Sýrlandi ekki á leið í átta ára fangelsi í boði íslenskra skattborgara, hann væri farinn af landi brott,“ sagði Inga herská í greininni.

Bryndís segir að Flokkur fólksins hafi komið með breytingatillögu á síðustu stundu við lok þings í vor, sem ekki hafi fengið neina umræðu. Vanda þurfi mjög til breytinga af þessu tagi, líta til fordæma í nágrannaríkjum og gæta að alþjóðlegum skuldbindingum. „Það er flókið að útfæra svona í lagatexta. Þannig að þó að Flokkur fólksins hafi komið með ég ætla að leyfa mér að segja dálítið popúlíska tillögu á lokametrunum sem hafði ekki fengið neina umræðu eða yfirferð í nefndinni þá er það ekki leiðin,“ segir Bryndís. Segir hún að breytingar á lögunum krefjist mikillar og vandlegrar yfirferðar.

Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á sæti í allsherjarnefnd. Nokkur samhljómur var með henni og Bryndísi í viðtalinu á Bylgjunni, en Dagbjört vill einnig líta til Norðurlandanna sem fyrirmyndar varðandi breytingar á útlendingalöggjöfinni. „Við í Samfylkingunni höfum verið opin fyrir því að gera ákveðnar umbætur sem eru nauðsynlegar á regluverkinu sem tengjast móttöku flóttafólks eða umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það eru helst þeir mælikvarðar sem Bryndís nefnir sem við höfum horft til: skilvirkni og vandaður undirbúningur í þinginu. Viljum horfa á mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar og ekki síst norrænar og evrópskar fyrirmyndir.“ Dagbjört segir að Samfylkingin muni fara inn í þessa vinnu með opinn huga.

Manndrápstilraunir og nauðganir

Bryndís og Dagbjört voru spurðar hvar draga eigi línuna varðandi alvarleika brota þegar svipta eigi fólk alþjóðlegri vernd. Nefndu báðar kynferðisbrot, morð og tilraun til manndráps. Dagbjört lagði hins vegar áherslu á að hún vildi ekki fjalla um einstök mál í þessu samhengi.

Bryndís benti á að dómsmálaráðherrar úr röðum Sjálfstæðismanna hafi hvað eftir annað komið fram með tillögur um breytingar á útlendingalögum. Núna hafi loksins verið samþykkt ný útlendingalög sem feli í sér miklar endurbætur. Ekki hafi staðið á Sjálfstæðisflokknum að gera umbætur í þessum málaflokki.

Nánar má heyra um málið hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Pabbakroppur í þröngri sundskýlu sló í gegn á ÓL

Pabbakroppur í þröngri sundskýlu sló í gegn á ÓL
Fréttir
Í gær

Háhyrningar sökktu skútu á Miðjarðarhafi – Skipstjórinn segir að dýrin hafi vitað upp á hár hvað ætti að gera

Háhyrningar sökktu skútu á Miðjarðarhafi – Skipstjórinn segir að dýrin hafi vitað upp á hár hvað ætti að gera
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Taldi nágrannann njósna um sig með dyrabjöllumyndavél – Orð stóðu gegn orði og athæfi nágrannans talið venjulegt og lögmætt

Taldi nágrannann njósna um sig með dyrabjöllumyndavél – Orð stóðu gegn orði og athæfi nágrannans talið venjulegt og lögmætt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dóttir Musk segir hann ljúga um æsku sína – „Ég notaði ekki orðið fabjúlöss þegar ég var fjögurra ára af því að ég var fjögurra ára“

Dóttir Musk segir hann ljúga um æsku sína – „Ég notaði ekki orðið fabjúlöss þegar ég var fjögurra ára af því að ég var fjögurra ára“