Baráttukonan Hildur Lilliendahl Viggósdóttir sakar Einar Scheving, trommuleikara, um fullkomna vanþekkingu á feðraveldinu og að boð hans um að setjast niður með konu, sem hann hefur átt í ritdeilu, yfir kaffibolla hljómi eins og hótun en ekki vinarhót. Þetta kemur fram í eldfimum pistli Hildar á Facebook-síðu hennar.
Forsaga málsins eru deilur í íslenska jazzsamfélaginu. Píanistinn Sunna Gunnlaugsdóttir steig fram í byrjun vikunnar og skrifaði pistil, sem vakti mikla eftirtekt, þar sem hún sagði karlrembu og lítilmennsku grassera í tengslum við hina árlegu Jazzhátíð Reykjavíkur. Sunna birti engin nöfn í greininni en áðurnefndur Einar Scheving tók skrifin til sín og svaraði Sunnu í löngu máli í aðsendri grein á Vísi.
Í greininni vísar Einar ásökunum Sunnu alfarið á bug og klikkir síðan út með að bjóða henni að hittast yfir kaffibolla og ræða málin. Við þessa grein gerir Hildur, eins og áður segir, alvarlegar athugasemdir.
„Í þessari hegðun kristallast fullkomin vanþekking á feðraveldinu. Við sem ruggum þeim bát fáum mjög reglulega „vingjarnleg“ kaffiboð frá körlum sem virðast ekki skilja að fyrir okkur hljómar þetta eins og hótun. Kannski halda þeir að við búumst við að mæta ofsalega heiðarlegum manni sem tekur á móti okkur opnum örmum og vill raunverulega hlusta og læra. Það gerum við ekki. Við vitum að þessi kaffiboð snúast um að fá tækifæri til að útskýra fyrir okkur í einrúmi allt sem við höfum misskilið, flytja umræðuna eitthvert annað þar sem þeir geta verið fávitar án þess að almenningur sjái til. „Komdu bara í kaffi vænan og ég skal segja þér hvað feðraveldið er og hvers vegna ég er ekki ein af birtingarmyndum þess.“ Hann meira að segja reynir að dulbúa það með því að segjast vera tilbúinn að biðjast afsökunar ef (athugið: ef) í ljós kemur að hann hafi með einhverjum hættti (athugið: með einhverjum hætti) sært hana ómeðvitað (athugið: ómeðvitað). Ekkert í skrifum hans fram til þess hefur gefið til kynna að hann sé að fara að hlusta á eitt aukatekið orð sem Sunna kann að hafa að segja,“ skrifar Hildur og bætir við:
„Og jafnvel þótt ofangreint hafi ekki verið það sem vakti fyrir honum, heldur hafi hann einlæglega viljað læra smá um ýmsar birtingarmyndir feðraveldisins frá manneskju sem hefur fundið þær á eigin skinni, er það alveg yfirgengileg frekja að ætlast til þess að hún gefi af sér tíma og fyrirhöfn til að mennta hann í frekar einföldum grundvallaratriðum sem hann getur hæglega menntað sig í sjálfur. Þessi hegðun er karlrembuhegðun og lýsir forréttindafrekju. Það er bara svo einfalt,“ skrifar Hildur.