fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Að útskrifa sjálfan sig

Eyjan
Föstudaginn 26. júlí 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stundum hugsa ég um það hversu mikið af þeirri reynslu sem lífið hefur boðið mér er mitt sköpunarverk. Ef ég skoða mína eigin sögu er ansi margt sem ég átti engan þátt í að búa til.

Tilveran með sínum atvikum, áföllum, uppákomum, kemur manni oft í opna skjöldu. Allt í einu er maður staddur í kringumstæðum sem maður hefði aldrei kosið sjálfur.

En svona er lífið! Maður lendir í allskonar!

Ég er ekki að segja að maður ráði engu í sínu lífi, langt í frá, en oft er sagan okkar skrifuð af öðrum eða öðru en okkur beinlínis sjálfum.

Ég þykist viss um að hver og einn hefði skrifað sína sögu á annan veg ef við réðum einhverju yfirleitt og vitanlega án þess að í henni rúmuðust erfiðar og flóknar reynslur þær sem öllu fólki virðist þó á einn eða annan hátt ætlað að reyna.

Allt sem hendir okkur í lífinu er staðreynd, eitthvað gerist og um það er enginn vafi. Og þær tilfinningar sem vakna við slíkt eru líka staðreynd. Eitthvað hefur gerst, það hefur áhrif á mann og stundum verður það til grundvallarbreytinga á lífi manns.

Hversu mikið við leyfum slíkum atburðum að skilgreina okkur sjálf og hversu lengi er hins vegar stóra spurningin. Er það sem gerðist, það sem henti mig, það sem var sagt og breytti jafnvel miklu, orðið óumflýjanlegur hluti af mínum persónuleika og þarf ég þá eftirleiðis að haga mér sem slík? Þarf ég að láta þessa lífsreynslu, þessi orð, lita allt mitt líf hér eftir?

Ég kallaði ekki eftir þessu, ég óskaði þessa ekki, ég hefði alveg klárlega vilja sleppa við að lifa þetta. Af hverju á ég þá að dragnast um með þetta á bakinu? Þetta var ekki búið til af mér, þetta er því ekki sú sem ég er.

Margt er það í samfélaginu sem skilgreinir okkur manneskjurnar og okkar sögur og flokkar okkur og merkir eftir þeim en kannski gerum við það ekki síst sjálf og erum kannski á stundum þannig sjálfum okkur verst. Við setjum upp merkimiðana án þess að hugsa okkur um og höldum þeim jafnvel á lofti sjálf. Ég er svona og hinsegin af því að lífið bauð mér að reyna þetta, fullyrðum við. Við klifum á sögunum okkar eins og þær séu ódauðleg bókmenntaverk! Og þá er ég til ítrekunar að tala um þá þætti lífsins þar sem við höfðum enga stjórn á aðstæðum og gátum ekki gripið til varna.

Ég held að þessar sögur okkar séu okkur misgagnlegar og stundum beinlínis hamlandi. Hver er ég, þrátt fyrir það sem gerðist, þrátt fyrir það sem aðrir segja um mig og þarf ég eitthvað á þessari skilgreiningu að halda? Er hún mér til framdráttar á nokkurn hátt? Er ég hugsanlega að fela mig á bak við hana til að forðast það að komast að því hver ég er?

Barni sem sagt er í æsku að það sé tossi, burðast með þann merkimiða hið innra og óafvitandi trúir að svo sé og tönnlast jafnvel á því með sjálfu sér. ,,Ég er tossi, ég er tossi, ég er tossi!“ Barnið með þetta nesti heldur svo klyfjað inn í lífið og fullorðið upplýsir hvern þann sem heyra vill eins og það sé að vitna til virtrar vísindagreinar. ,,Ég var tossi, ég gat aldrei lært neitt!“ Eins og það sé nokkur einasti fótur fyrir þessu? Hvaða fásinna er þetta? Er merkimiðinn sem við höfum í hugsunarleysi haldið á lofti orðinn að einhverskonar falskri hlíf sem aftrar því að við látum á það reyna hvers við erum megnug í raun?

Ég velti því mikið fyrir mér hvernig við sleppum þessum sögum lífs okkar sem við áttum engan þátt í að semja? Þeim sem aðrir sömdu. Og þeim sem við höfðum enga stjórn á sjálf.

Hvernig skiljum við þær frá svo við fáum næði til að vita hver við erum. Er ekki ráð að losa um klyfjarnar, leggja þær frá sér, þakka þeim fyrir miserfiðar kennslustundirnar og ljúka svo þessari sjálfskipuðu skólaskyldu með einhverskonar útskrift.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim