fbpx
Fimmtudagur 25.júlí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Samkrull banka og Seðlabanka um vaxtaokur – verslunin og heildsalar senda reikninginn til neytenda

Eyjan
Fimmtudaginn 25. júlí 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að stjórnendur bankanna hafi grátið verðbólguskotið sem Hagstofan kynnti í gær þurrum tárum, er vísitala neysluverðs hækkaði meira milli mánaða en greiningardeildir bankanna höfðu spáð. Það er nefnilega opinbert leyndarmál að bankarnir eru dálítið hrifnir af verðbólgu. Sumir myndu segja að verðbólgan sé besti vinur bankanna, alla vega til skamms tíma.

Verðbólga kallar nefnilega á vaxtahækkanir frá Seðlabankanum og þeim vaxtahækkunum miðla bankarnir rakleiðis út í útlánsvexti sína. Meiri tregða er á að stýrivaxtahækkanir rati út í innlánsvexti bankanna og því er verðbólga ávísun á aukinn vaxtamun og aukinn hagnað bankanna. Stórhagnaður Landsbankans á fyrri hluta ársins er staðfesting á því.

Þá er aukin verðbólga og háir nafnvextir jafnframt ávísun á að lántakendur skuldbreyti lánum sínum úr óverðtryggðum yfir í verðtryggð og það er gott fyrir bankana. Í verðbólgunni hækkar höfuðstóll verðtryggðra lána og svo rukka bankarnir vexti ofan á það. Segja má að verðtrygging í sveiflukenndu verðbólgulandi sé í raun sjálfvirk peningaprentunarvél fyrir bankana.

Orðið á götunni er að það hafi því ekki þurft að koma á óvart að Una Jónsdóttir, hagfræðingur Landsbankans, skyldi rjúka til í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær og lýsa því yfir með þjósti að með svona verðbólgutölur væri útséð um vaxtalækkun hjá Seðlabankanum í ágúst. Útilokað væri að vextir lækkuðu við slíkar aðstæður.

Bankarnir eru því með öðrum orðum að gefa Seðlabankanum réttlætingu fyrir því að lækka ekki vexti 21. ágúst næstkomandi. Orðið á götunni er að samstarf Seðlabankans og bankanna í vaxtamálum sé slíkt að réttast væri að Seðlabankinn sækti um aðild að Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu til að gera það samstarf og samráð lögmætt. Ekki kæmi á óvart þótt peninganefnd Seðlabankans tiltæki sérstaklega sem rök fyrir því að halda stýrivöxtum óbreyttum í ágúst (eða jafnvel bara hækka þá!) að bankarnir hafi bent á að útilokað sé við þessar aðstæður að lækka vexti.

En hvers vegna hækkaði vísitalan óvænt svona mikið milli mánaða?

Þrír undirliðir vógu þar þyngst. Flugfargjöld hækkuðu meira en búist var við, en þau hækka alltaf yfir hásumarið. Verðlækkun á útsölum var minni en búist hafði verið við. Og svo var það matvaran, sem vegur mjög þungt í vísitölunni.

Orðið á götunni er að hækkun á matvöru megi rekja mest til afmarkaðra þátta. Greinilegt sé að sú einokun í kjötvinnslu sem ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi keyrði í gegn á þingi í vor, þegar sett voru lög sem í raun heimiluðu Kaupfélagi Skagfirðinga sérstaklega að kaupa Kjarnafæði norðlenska án afskipta Samkeppniseftirlitsins, séu farin að virka gegn neytendum, eins og við var að búast. Verð frá afurðastöðvum sé farið að hækka.

Einnig séu gífurlega háir vextir beinlínis til þess fallnir að kynda undir verðbólgu en ekki slá á hana – alla vega til skemmri eða meðallangs tíma. Orðið á götunni er að þegar horft sé yfir risana í smásölu komi í ljós að nýir og rándýrir stórmarkaðir spretti nú upp eins og gorkúlur – þar séu allir sekir, Krónan, Bónus og Nettó. Jafnvel verslanir sem hafi verið endurnýjaðar með ærnum tilkostnaði fyrir örfáum árum séu nú teknar í gegn á ný. Allt of margir fermetrar fari undir búðargólf á Íslandi.

Ofan á þetta hafi stærstu heildsölurnar nú reist sér alsjálfvirk vöruhús sem hæglega gætu þjónað milljónaþjóðum hvert og eitt.

Orðið á götunni er að öll þessi fjárfesting hlaupi á milljörðum og milljarðatugum og smásölufyrirtækin og heildsalarnir borgi nú vexti af þessari miklu fjárfestingu, íslenska vexti, ekki evruvexti eins og útgerðin sem hefur allar sínar tekjur í evrum. Þessi vaxtakostnaður hafi nú ratað út í verðlag, stórmarkaðirnir hafi sent reikninginn til neytenda.

Fyrir hálfu ári, í febrúar, voru gerðir stöðugleikasamningar á íslenskum vinnumarkaði. Samið var um hóflegar launahækkanir sem skyldu leiða til minni verðbólgu, sem aftur myndi leiða til vaxtalækkana. Forsendan var mjög hóflegar launahækkanir og að launþegar yrðu ekki þeir einu sem létu á móti sér. Fyrirtækin og hið opinbera yrðu líka að taka á sig byrðar og ekki velta kostnaðarauka beint út í verðlagið.

Orðið á götunni er að samstarf bankanna og Seðlabankans, auk svika heildsala og smásala við meginlínur síðustu kjarasamninga hafi valdið því verðbólguskoti sem Hagstofan kynnti í gær. Einungis launþegar hafi fram til þessa lagt sitt af mörkum í samræmi við innihald og anda kjarasamninganna. Spurning sé hversu lengi verkalýðsforystan láti bjóða sér þetta. Að óbreyttu sé tímaspursmál hvenær verkalýðshreyfingin hóti að segja upp kjarasamningunum vegna forsendubrests, eða jafnvel segi þeim upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Snýr aftur heim
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Sakar Reykjavíkurborg um að draga lappirnar varðandi viðbrögð við rafhjólaslysum

Sakar Reykjavíkurborg um að draga lappirnar varðandi viðbrögð við rafhjólaslysum