Í gær var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Dagbjörtu Rúnarsdóttur sem ákærð var fyrir að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana á heimili þeirra í Bátavogi laugardagskvöldið 23. september. Maðurinn er talinn hafa látist af völdum misþyrminga sem stóðu yfir í um sólarhring.
Dagbjört neitaði sök í málinu.
Lögregla fann á vettvangi hræ af dauðum smáhundi í frystihólfi. Um var að ræða hund Dagbjartar og í skýrslutöku fyrir dómi taldi hún að hundurinn, sem var 14 ára, hefði orðið sjálfdauður. En á hljóðupptökum úr síma hennar sem spilaðar voru í dómsal kom í ljós að hún kenndi hinum látna um dauða hundsins og uppnefndi hann dýraníðing.
Á upptökunum heyrist hinn látni meðal annars segja: „Viltu ekki bara ná í hníf og stinga mig beint í hjartað, þú vilt bara pína mig, geturðu ekki bara drepið mig beint.“ – Einnig segir hann Dagbjörtu hafa gert sig heyrnarlausan en á líkinu voru áverkar á eyra.
Samkvæmt frétt mbl.is var Dagbjört sýknuð af ákæru um manndráp en sakfelld fyrir brot á eftirfarandi lagagrein:
„Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það 1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru.
Var Dagbjört dæmd í tíu ára fangelsi.
Dómurinn var kveðinn upp í gær og var á dagskránni á vefsíðu dómstólanna. Blaðamenn sem ætluðu að fylgjast með dómsuppkvaðningunni gripu hins vegar í tómt þar sem hús Héraðsdóms Reykjavíkur var lokað og læst.