fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Hrollur fór um Davíð: „Ég hef upplifað það að vera báðum megin við borðið“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. júlí 2024 10:30

Davíð Bergmann. Mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Bergmann, ráðgjafi og starfsmaður Fjölsmiðjunnar, segir að hrollur hafi farið um hann þegar hann las álit Viðskiptaráðs Íslands þess efnis að stjórnvöld ættu að taka upp samræmd próf að nýju. Þetta álit Viðskiptaráðs sem birtist í Samráðsgátt stjórnvalda á dögunum hefur vakið athygli og sitt sýnist hverjum.

Davíð hefur mikla reynslu af vinnu með ungmennum sem hafa farið út af brautinni í lífinu og hann hefur sterkar skoðanir á málinu. Í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis segist hann þakklátur Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra menntamála, fyrir að hafa slegið þessa hugmynd strax út af borðinu og skólasamfélagið líka.

Bókin versti óvinur margra

„Af hverju? Jú, vegna þess að ég hef upplifað það að vera báðum megin við borðið, annars vegar sem barn sem átti bókina sem minn versta óvin í lífinu og hins vegar sem ráðgjafi í 30 ár með olnbogabörnum samfélagsins og ég starfa þar enn. Mikill meirihluti þeirra sem ég hef verið að vinna með þessi 30 ár eiga einmitt bókina sem sinn versta óvin í lífinu.“

Í grein sinni veltir Davíð því upp hvað myndi gerast ef hugmynd Viðskiptaráðs yrði að veruleika. „Það fyrsta sem kæmi upp í huga minn væri að við þyrftum þá að lágmarki að stofna 5 nýjar Fjölsmiðjur á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann og bendir á að þeim drengjum fjölgi stöðugt sem geta ekki lesið sér til gagns. Og miðað við tölur frá 2022 séu um 3.000 ungmenni á aldrinum 16 til 24 ára hvorki í vinnu né skóla. Upptaka samræmdra prófa muni aðeins auka á stéttaskiptingu í skólakerfinu.

„Vélvæðing framtíðar mun ekki hjálpa þeim að komast til manns, nema með miklum stuðningi og það gerum við í gegnum skólakerfið okkar. Sóknarfærið liggur í því að styrkja úrræði eins og Fjölsmiðjur og um allt land og iðnnámið enn frekar, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.“

3.000 ungmenni hvorki í skóla né vinnu

Að mati Davíðs þarf að forgangsraða upp á nýtt og dæla fjármagni í framtíðina sem eru börnin okkar, styrkja menntakerfið og þar með talin úrræði eins og Fjölsmiðjuna.

„Hún ætti vera efst á forgangslistanum sér í lagi í ljósi þess að veruleikinn sé sá að 3000 ungmenni eru hvorki í skóla né vinnu. Fjölsmiðjan er frábær vettvangur fyrir þá einstaklinga því oft eru þeir sem leita þangað með langa og ljóta sögu úr skólakerfinu. Koma út úr skólakerfinu með brotna sjálfsmynd því þau hafa ekki rúmast þar inni. Eða eins og annar góður vinur minn sagði sem ég vann með í útdeildinni í gamla daga: „Þau passa ekki í kassann, ef þú aðlagast ekki vertu þá úti“ og hann hafði svo sannarlega rétt fyrir sér sá vinur minn.“

Davíð talar af reynslu og bendir hann á í grein sinni að hans skólaganga hafi ekki verið auðveld. Kveðst hann hafa þurft að upplifa mikla niðurlægingu á meðan á henni stóð.  „Eins og það að vera settur í tossaskóla þar sem næstum helmingurinn af honum var alvarlega þroskaskertur. Ég er það ekki, heldur var ég að glíma við sértæka námserfiðleika vegna höfuðhöggs sem ég fékk sem smábarn. Það var reyndar ekki til neitt hugtak yfir það í þá daga en í dag er það kallað vera lesblindur og vera með ADHD.“

Verður aldrei fyrirgefið

Hann segist ekki hugsa fallega til félags- og skólaþjónustu Kópavogs sem hann segir að hafi stillt foreldrum hans upp við vegg og hótað að taka hann frá þeim ef þau hlýddu ekki.

„Það sem beið mín var að vera sendur í burt vegna þess að skólinn ætlaði ekki að aðlagast mér heldur átti ég að aðlagast honum. Og það gat ég ekki. Þá var lausnin að koma þessum dreng sem lengst frá sveitarfélaginu og hans nánustu og vinum og rjúfa öll þau félagslegu tengsl sem hann var búinn að byggja upp á sinni lífsleið.“

Hann segir að allir þeir ósigrar sem hann upplifði á þessum árum hafi tvímælalaust haft áhrif á hans fullorðinsár. „Þessi sturlaða ákvörðun skólayfirvalda verður aldrei fyrirgefin. Svo það sé tekið fram þá voru foreldrar mínir ekki í óreglu eða rugli heldur var það höfuðhöggið sem ég fékk 8 mánaða sem var orsökin fyrir þessu helvíti sem þetta sannarlega var,“ segir hann.

Davíð segir að lokum að hugsanlega höfum við sem samfélag brugðist þegar litið er til þess að 3.000 ungmenni eru hvorki í skóla né vinnu. Hvetur hann stjórnvöld til að tileinka sér nýja nálgun í menntamálum og vinna að þeim með hagsmuni allra barna í huga, ekki bara þeirra sem ná samræmdu prófunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fjölskyldufaðir ósáttur við að vera kallaður flugdólgur

Fjölskyldufaðir ósáttur við að vera kallaður flugdólgur
Fréttir
Í gær

Gleðifréttir fyrir líffæraþega – Sjúkratryggingar Íslands munu greiða allan kostnað við bólusetningar

Gleðifréttir fyrir líffæraþega – Sjúkratryggingar Íslands munu greiða allan kostnað við bólusetningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Holskefla ofbeldisbrota gagnvart börnum gæti skýrst af kórónuveirufaraldrinum

Holskefla ofbeldisbrota gagnvart börnum gæti skýrst af kórónuveirufaraldrinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kamala Harris býður sig fram til forseta

Kamala Harris býður sig fram til forseta