fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hvað segja Bretar nú um Brexit?

Eyjan
Mánudaginn 22. júlí 2024 14:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undirritaður skrifaði grein í Morgunblaðið 18. febrúar 2017, þar sem hann sagði m.a. þetta í inngangi:

„… Brexit er í augum undirritaðs einfaldlega stórfellt sögulegt slys, sem ábyrgðarlausir þjóðernissinnar, popúlistar og valdasjúkir menn æstu að nokkru óupplýstan almenning í, án greiningar á því hvað þetta myndi þýða, svo og án greiningar á því sem á eftir kynni að koma …“

Ég benti líka á þetta í greininni:

„Það er aðeins ein Evrópa, eitt ESB

Það er alllangt síðan ESB varð stærsti markaður heims, með yfir 500 milljónir að verulegu leyti velstæðra neytenda. Nú um áramótin bættist fríverzlun við Kanada og 37 milljónir mest efnaðra neytenda við. Þetta markaðssvæði er á góðri leið með að verða tvisvar sinnum stærra en Bandaríkin. Auk þess er ESB við húsdyr Breta. Það er engin önnur Evrópa á þessari jarðkúlu, allra sízt í næstu nálægð. Hvert ætla Bretar að fara með sinn útflutning og sína þjónustu? Auk þess hefur brezkur iðnaður stillt sig inn á evrópskar þarfir og evrópska vörustaðla“.

Því miður hefur það komið á daginn að Brexit var stórfellt og sögulegt slys, sem hefur – andstætt því sem fagurgalar og ósannindamenn lofuðu – skaðað efnahag, velferð og líka frelsi Breta bæði til ferða og athafna í alvarlegum mæli.

Í raun þurfti engan spámann til að sjá þetta fyrir, enda telst undirritaður ekki til slíkra. Almennar upplýsingar og almenn skynsemi dugði.

En, það sem gerðist í Bretlandi og er að gerast víða um Evrópu um þessar mundir er að almenningur er ruglaður í ríminu með yfirkeyrðum popúlísima, sem er drifinn áfram af þjóðernislegri skírskotun þar sem spilað er á strengi þjóðernistilfinninga og þjóðernisstolts, líka „sjálfstæðisvitundar“, líka strengi þess að aðrir, aðkomumenn, séu að hirða af okkur eigur okkar og velferð – þó að þetta fólk leggi svo sannarlega sitt af mörkum til að fylla eyður í okkar atvinnulífi og tryggja okkur okkar eigin velferð – og þessi lygasaga er svo öll pökkuð inn í umbúðir innihaldslausra loforða um gull og græna skóga.

Í þessu ljósi er vert að skoða hvað Bretar sjálfir segja nú um sitt Brexit.

Fréttamaður RÚV fór nýlega þar um, m.a. til að fylgjast með þeim kosningum til breska þingsins sem fram fóru, en hann átti líka viðtöl við ýmsa, bæði Íslendinga sem þar bjuggu og heimamenn, um stöðu mála og þá einkum afleiðingar Brexit.

Á vef RÚV birtist svo frétt um þessi viðtöl 17. júlí sl. undir fyrirsögninni „Hefur enn ekki orðið vör við jákvæði áhrif af Brexit,“ þar sem vitnað er í íslenzka tónlistarkonu sem hefur búið í Bretlandi í 30 ár.

„Víða í Bretlandi finnst kjósendum að logið hafi verið að þeim í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit,“ segir svo í undirtexta.

Tónlistarkonan bætir við:

„Þær eru alveg ótvíræðar þær breytingar, sem hafa orðið hvað varðar alla stjórnsýslu. Ég, sem tónlistarmaður, þarf að hafa skírteini um það að ég greiði skatta í þessu landi. Og ferli, sem tók fjórar til fimm vikur, tekur núna upp í níu mánuði“.

Svo segir þetta í fréttinni:

„Þá merkir Sigrún (tónlistarkonan) áhrif á verðlag og atvinnulíf. „Maður er að sjá fyrirtæki, sem manni þótti frekar rótgróin, loka. Verslunarhúsnæði, sem stendur autt, sem aldrei hafði gert það áður. Og svo náttúrlega það sem maður heyrir frá fólki sem er í einhvers konar viðskiptum, sem var með inn- eða útflutning til Evrópu, bara hversu margfalt erfiðara það er að standa í slíku. Og fólk er að gefast upp á því.“

Enn fremur:

„Og það er víðar en í Lundúnum sem gætir gremju vegna Brexit. „Þeim var öllum talin trú um, að sjávarútvegurinn, einkum í Grimsby, yrði betur settur utan sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Það hafði mikil áhrif. En sjö eða átta árum síðar er það orðið að veruleika? „Nei“, segir Martyn Boyers, forstjóri Grimsby Fish Market“.

„Það var logið að okkur öllum um Brexit. Okkur var sagt, að þar endaði regnboginn, fjársjóðurinn biði, en það gerðist ekki,“ segir vegfarandi í Blackpool.

Sigrún segist enn sem komið er ekki sjá jákvæð áhrif af Brexit. „Ég hef ekki séð það enn sem komið er. Það er ekki eitthvað, sem ég hef orðið vör við. Og svo sannarlega virðist ekkert jákvætt í þeirri umræðu, sem ég er hluti af.“

Takk fyrir þessa frétt, RÚV.

Auðvitað heyrast sams konar raddir alls staðar; í útvarpi, sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum í Bretlandi. Ofangreind frétt RÚV er bara nærtækt dæmi um umtalið.

Það er því ekki að ófyrirsynju að eitt höfuðmarkmið nýrrar ríkisstjórnar Keir Starmer er að dýpka og bæta sambandið við ESB á sem flestum sviðum, ekki bara á sviði landbúnaðarmála og viðskipta heldur líka á sviði varnar- og öryggissamstarfs.

Það munu þó líða áratugir þangað til ESB mun aftur fá tilfinningu fyrir mögulegum nýjum aðildarviðræðum við Breta. Þeir stjórnendur ESB, sem urðu að kljást við Brexit og þau ósannindi, blekkingar og lygar, þau óheilindi sem Brexit byggðist á, fengu þá nóg af breskum stjórnmálum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“