Úrskurðarnefnd lögmanna hefur vísað frá máli tveggja systra gegn tveimur lögmönnum sem þær telja að hafi gert á sinn hlut við gerð erfðaskrár látinnar móður sinnar. Tvö systkini þeirra fengu aukinn arf eftir móðurina sem systurnar segja að hafi ekki munað kennitöluna sína á þeim tíma þegar erfðaskráin var gerð.
„Varnaraðilar, [C] lögmaður, og [D] lögmaður, hafa í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [A] og [B], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna,“ segir í niðurstöðu Úrskurðarnefndar frá 10. júlí síðastliðnum.
Störfuðu lögmennirnir fyrir móður þeirra árin 2019 til 2020, við gerð erfðaskrár þar sem tvö önnur systkini fengu þriðjung eigna hennar.
Sögðu systurnar að heilsu móður sinnar hefði hrakað mikið allt fra árinu 2011, að hún hafi verið komin með Alzheimer á fyrstu stigum og ekki getað séð um fjármál sín. Reyndu þær að fá hana bæði lögræðis og fjárræðissvipta fyrir dómstólum en það hafi ekki tekist. Dómkvaddur matsmaður mat ástand móðurinnar svo að hún væri með heilabilun á vægu stigi en þyrfti ekki sjálfræðissviptingu. Hún þyrfti þó aðstoð með fjármál sín.
Í lok árs 2018 veitti móðirin endurskoðanda umboð til að sjá um sín fjármál og eignir. Fasteignir ætti þó ekki að selja nema brýna nauðsyn bæri til. Skömmu seinna var gerð erfðaskrá fyrir hana.
„Í erfðaskránni kom fram að móðir sóknaraðila lýsti því yfir, þrátt fyrir að vera greind með heilabilun á vægu stigi, að hún gerði sér fullkomlega grein fyrir því að með erfðaskránni væri hlutur systkina sóknaraðila aukinn umfram hlut þeirra tveggja barna sinna sem ekki tækju arf eftir hana með erfðaskránni,“ segir í málsatvikum úrskurðarins. Vottuðu lögmennirnir tveir erfðaskránna og gengu úr skugga um að móðirin nægilega heil heilsu og allsgáð til að gera sér grein fyrir þýðingu hennar.
Systkinin tvö fengu fyrirframgreiddan arf í formi tveggja skuldlausra fasteigna í Bólstaðarhlíð í Reykjavík og var gjörningnum þinglýst árið 2019. Það sama ár afturkallaði móðirin skipun endurskoðandans sem ráðsmanns. Móðirin lést svo þann 23. maí árið 2022.
Að sögn systranna hafði annar lögmaðurinn tengsl við bróður þeirra, það er að hann hafi starfað fyrir hann síðan árið 2012. Lögmaðurinn hafi vitað að það væri fjárræðissviptingarmál í gangi gegn móðurinni.
„Sóknaraðilar segja móður sína hafa verið ófæra um að gefa upp eigin kennitölu tveimur vikum áður en erfðaskráin var gerð sem þær telja sýna fram á að hún hafi ekki verið fær til þess að ráðstafa eignum sínum með sem hætti sem þar var gert,“ segir í úrskurðinum. Einnig telja þær að ráðstöfunin hafi verið langt umfram heimildir samkvæmt erfðalögum. Þar að auki hafi lögmennirnir geymt erfðafjárskattinn í um fjóra mánuði á sínum reikningum áður en hann rann til sýslumanns.
Segja þær ljóst að allsherjarumboðið til endurskoðanda hafi vegið þungt í mati dómstóla í fjárræðismálinu. Hafi annar lögmaður afturkallað skipun hans sem ráðsmanns og í millitíðinni hafi móðirin ráðstafað eignum sínum án vitundar ráðsmannsins. Þetta hafi verið gert með liðsinni systkina sinna og hins lögmannsins.
„Sóknaraðilar segjast í fyrsta sinn hafa fengið aðgang að gögnum varðandi dánarbúið á fundi skiptastjóra þann 21. október 2022, meðal annars umræddri erfðaskrá,“ segir í úrskurðinum. Draga þær í efa að móðirin hafi sjálf óskað eftir þjónustu lögmannanna um áðurnefnda gjörninga. Það hafi systkini þeirra gert. Hafi þau vitað af heilsubresti móðurinnar og hafi hún ekki fengið hlutlausa ráðgjöf. Telja þær að lögmennirnir hafi brotið gegn siðareglum og jafn vel lögum.
Kröfðust lögmennirnir að málinu yrði vísað frá. Erindið væri óskýrt og málsástæður vanreifaðar. Því væri erfitt að verjast því. Óljóst sé hvort meint brot þeirra eigi að hafa beinst gegn systrunum eða móður þeirra. Einnig að tímafresturinn til að leggja erindið fram hafi verið löngu liðinn.
„Að sögn varnaraðila var ein meginástæða þess að sóknaraðilar kröfðust þess í annað sinn að móðir þeirra yrði svipt sjálfræði og fjárræði tímabundið, eftir að Landsréttur hafði áður hafnað þeirri kröfu, sú að þeim hafi borist vitneskja um að móðir þeirra hefði fyrirframgreitt arf til systkina þeirra,“ segir í úrskurðinum.
Sögðust lögmennirnir ekki hafa vitað af viljayfirlýsingu móðurinnar frá árinu 2018. Hún hafi ekki verið á meðal gagna í lögræðismálinu, þar sem annar lögmaðurinn var verjandi móðurinnar. Ráðsmaðurinn hafi heldur aldrei verið skipaður þar sem beiðnin var afturkölluð.
„Varnaraðilar hafna því að varnaraðilinn [C] hafi gætt hagsmuna bróður sóknaraðila í tengslum við gerð erfðaskrár 21. desember 2018, eða í öðrum málum á þeim tíma. Varnaraðilinn hafi mörgum árum áður gætt hagsmuna bróðurins vegna máls sem hafi tengst afleiðingum efnahagshrunsins árið 2008,“ segir í úrskurðinum. Á þeim tíma hafi hvorugur varnaraðili verið að vinna fyrir móðurina og því engir hagsmunaárekstrar.
Eftir að móðirin hafi komið á skrifstofu lögmannanna til að gera erfðaskrá hafi þeir gengið sérstaklega á eftir því að hún gerði sér grein fyrir efni hennar áður en þeir vottuðu hana.
Eins og áður segir féllst nefndin á röksemdir lögmannanna en ekki á kröfu þeirra um að systurnar greiddu málskostnað. Báðir aðilar bera sinn kostnað.