Kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson er orðinn fasteignasali. Júlían hefur verið útnefndur íþróttamaður ársins og á að baki ótal met.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út löggilt leyfi fyrir Júlían til að starfa sem löggiltur fasteigna- og skipasali á mánudag, þann 15. júlí síðastliðinn. Frá þessu er greint í Lögbirtingablaðinu.
Júlían hefur reyndar starfað á fasteignasölunni Remax síðan árið 2022, en í nóvember það ár greindi Júlían frá því að hann væri að láta gamlan draum rætast og hefja nám til löggildingar fasteigna- og skipasölu.
Júlían var í helgarviðtali við DV í nóvember árið 2018, þá 25 ára gamall. En þá hafði hann nýlega sett heimsmet í réttstöðulyftingum, í tvígang meira að segja. Hafði hann unnið ótal titla, bæði hérlendis og á erlendri grundu í greininni sem og sett 210 met á ferlinum.
Ári seinna, það er árið 2019, var Júlían útnefndur íþróttamaður ársins.