Icelandair var stundvísasta flugfélag Evrópu í júní samkvæmt greiningafyrirtækinu Cirium, sem sér hæfir sig í flug- og ferðageiranum. Að jafnaði voru 84 prósent ferða Icelandair á réttum tíma í síðasta mánuði sem er sambærilegt við stundvísi félagsins í maí.
Þetta kemur fram á fréttavefnum FF7.is.
Í öðru sæti á lista Cirium er spænska flugfélagið Iberia Express og Iberia í þriðja sæti. SAS varð í fjórða og Finnair í fimmta, en úttekt Cirium tók einungis til stærri flugfélaga í álfunni og var Play því ekki með, en samkvæmt tölum flugfélagsins sjálfs voru 91 prósent flugferða þess á áætlun í júní.
Þrátt fyrir þessa miklu stundvísi íslensku flugfélaganna stóðst áætlun heimaflugvallar þeirra, Keflavíkurflugvallar, aðeins í 74 prósent tilvika í mánuðinum, samkvæmt tölum frá Cirium, sem er fimm prósentustigum lakari stundvísi en í maí.