fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 15. júlí 2024 21:00

Hluti af málinu varðar smygl á kókaíni með skemmtiferðaskipi. Kókaínið var falið í pönnum eins og sést hér.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðamikill hluti ákærunnar í stóra fíkniefnamálinu varðar smygl á 2,2 kg af kókaíni með skemmtiferðaskiptinu AIDAsol sem kom hingað til lands þann 11. apríl síðastliðinn. Fíkniefnin voru falin í pönnum með loki á, líkt og sjá má á samsettri mynd sem fylgir fréttinni.

Í gögnum sem DV hefur undir höndum kemur fram að 18 manna hópur brotafólks sem hafa verið ákærð í málinu, átti í samskiptum í gegnum samskiptaforritið Signal undir hópnafninu Sólheimajökull. Einnig kemur fram að lögreglan hafði í gegnum símahleranir veður af því allt frá því í janúar að til stæði að fara í þessa smyglferð. Þá hefur komið fram að hópurinn, eða stór hluti af honum, hittist einu sinni á veitingastað til að ræða um fíkniefnamarkaðinn.

Fjórir menn eru ákærðir fyrir smyglið með AIDAsol. Kemur fram að einn þeirra skuldaði höfuðpaur hópsins, tíu milljónir króna, og átti að fara í þessa ferð sem farþegi og áhorfandi, til að sjá með eigin augum hve auðvelt sé að smygla fíkniefnum með skemmtiferðaskipum. Skipið kom frá Frankfurt en mennirnir sóttu fíkniefnin til Spánar og fóru með þau þaðan til Þýskalands.

Lögreglan fékk staðfest að tveir af mönnunum sem hún hafði grunaða í málinu voru á farþegalista skipsins. Maðurinn sem átti að fara með sem farþegi og áhorfandi þurfti að grípa til aðgerða er skipið lagðist að bryggju við Skarfabakkahöfn. Sá sem hafði komið fíkniefnunum fyrir í pönnunum fór þá frá borði án efnanna, til að kanna aðstæður, en mennirnir sáu lögreglubíl við höfnina er skipið lagðist að.

Sá sem varð eftir um borð kom efnunum í land í samræmi við fyrirmæli frá höfuðpaurnum í málinu. Hann fór með fíkniefnin heim til sín þar sem annar aðili átti að sækja þau. Lögregla kom á heimili hans og fann efnin þar auk hnífs sem var gerður upptækur.

Tók rangar ákvarðanir

Þessi maður sagði í yfirheyrslu lögreglu að hann hefði tekið margar rangar ákvarðanir og með því að fara aftur í neyslu eftir 20 ára bindindi hefði hann misst stjórn á lífi sínu og leiðst út í þetta mál. Hann hefði gegnt algjöru aukahlutverki í brotahópnum og verið þar lágt settur en skuldin sem hann stofnaði til með neyslu sinni varð til þess að hann þurfi að blandast inn í þetta afbrot sem hann hafði engan hagnað af. Í yfirheyrslum lögreglu lýsti hann hlutverki annarra í hópnum og kemur þar fram að verkaskipting var skýr á milli fólks. Einn maður var hins vegar höfuðpaur og stýrði hópnum. Stýrði hann innflutningi á fíkniefnum og störfum sölumanna.

Höfuðpaur, hægri hönd og aðrir

Annar maður var hægri hönd höfuðpaursins, sá um að stýra sölumönnum og fylla á lager þar sem vantaði fíkniefni. Hann sá um að senda sölumenn með efni til aðila og taka á móti pöntunum. Hann sá um peningamál og fékk reiðufé á verkstæði sitt við Auðbrekku í Kópavogi eða á heimili sitt.

Þriðji maður er talinn vera rísandi hægri hönd höfuðpaursins og hafi hann tekið að sér sífellt stærra stjórnunarhlutverk yfir sölumönnum.

Fjórði maðurinn sá um að selja fíkniefni fyrir tvo hæst settu og fór með fjármuni á áðurnefnt verkstæði og heimili eiganda verkstæðisins.

Annað fólk í hópnum hafði ýmis hlutverk, meðal annars að geyma fíkniefni. Einn karlmaður sá um að flytja fíkniefni til landsins, geyma fíkniefni, afhenda fíkniefni til sölumanna og halda utan um lager. Einn hafði það hlutverk að sækja fjármuni og sendast með þá.

Sem fyrr segir hefur sakborningum í málinu, alls 18 talsins, verið birt ákæra. Óvíst er hins vegar hvenær réttað verður í málinu en það verður líklega í haust.

Sjá einnig: Ákæran í stóra fíkniefnamálinu:Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“