Brauðtertan er klárlega í hópi þjóðarrétta Íslendinga og nú hyggst Brauðtertufélag Erlu og Erlu, einn af vinsælli Facebook-hópum landsins, hefja leit að Íslandsmeistaranum í brauðtertugerð.
Til þess að sem flestir geti tekið þátt verða þrír keppnisdagar í boði, á morgun sunnudaginn 14. júlí í Reykjavík og aftur viku síðar og síðan 28. júlí á Akureyri.
Dómnefnd keppninnar skipa eftirfarandi: Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hússtjórnarskólans, Sigríður Örvarsdóttir, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Tómas Hermannsson, útgefandi hjá Sögum útgáfu og Erla Hlynsdóttir, frá Brauðtertufélagi Erlu og Erlu.
Er ætlunin að gefa síðan út bók með bestu tertunum sem líta dagsins ljós í Íslandsmótinu.
Verðlaunin eru einkar glæsileg:
Fyrir Íslandsmeistarann: Gjafabréf að verðmæti 120.000 kr frá Icelandair
Fyrir fallegustu brauðtertuna: Gjafabréf að verðmæti 15.000 kr frá Jómfrúnni
Fyrir bragðbestu brauðtertuna: Martusa, sikileysk ólífuolía beint frá bónda. 5 lítrar
Fyrir frumlegustu brauðtertuna: Bretti frá Kokku, tilvalið fyrir brauðtertur.
Sérstök aukaverðlaun, fyrir brauðtertu sem við mælum með að para með kampavíni: Kampavín, Drappier Brut Nature frá Sante
Enn er hægt að skrá sig til þátttöku inni á áðurnefndum Facebook-hóp, Brauðtertufélag Erlu og Erlu. Þátttakendur fá síðan tölvupóst með öllum nánari upplýsingum en einnig er hægt að senda póst á braudterta2024@gmail.com.