fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði
Föstudaginn 12. júlí 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði er áhugamaður um að verðugir njóti viðurkenningar fyrir verk sín. Á þjóðhátíðardaginn bíður hann spenntur eftir fregnum af því hverjir hafi hlotið náð fyrir augum orðunefndar og verið sæmdir riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Sama gildir um nýársdag.

Svarthöfða þykir þó súrt í broti að einungis skuli vera gerlegt að sæma um 25 Íslendinga á ári hverju þessari heiðursorðu. Vitaskuld er hrein fásinna að viðtakendum fálkaorðunnar sé ekki fjölgað í takt við fjölgun þjóðarinnar. Mættu nú þingmenn taka þetta til athugunar um leið og þeir fjölga meðmælendum með frambjóðendum til forseta Íslands. Ekki má á milli sjá hvort málið er brýnna.

Það er þyngra en tárum taki að ekki skuli vera hægt að umbuna nema litlu brotabroti allra þeirra samviskusömu embættismanna, sem fórna sér fyrir land og þjóð, starfa við erfiðar aðstæður, raunar oft og tíðum við algert aðstöðuleysi, á lúsarlaunum við að gera Ísland sífellt betra og betra með viðurkenningarvottinum sem fellst í því að vera sæmdir orðu fyrir störf sín. Svarthöfði hefur lengi dáðst af lítillæti og þolinmæði þessa vaska hóps sem ber harm sinn í hljóði.

Nú hefur loks stigið fram skörungur í íslenskri stjórnmálastétt. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hefur sýnt að hún hefur puttann á púlsinum og skilur kjarnann frá hisminu. Forgangsröðunin vefst ekki fyrir henni. Hún vindur sér beint í stóru verkin, sýnir kjark, dirfsku og framsýni svo um munar.

Svarthöfði er þess fullviss að jafnframt því sem þessarar ríkisstjórn verður minnst fyrir efnahagsstjórn og stöðugleika verði hennar minnst sem ríkisstjórnarinnar sem hjó á heiðursmerkjahnútinn. Utanríkisráðherra er í fylkingarbrjósti og stofnar heiðursmerki íslensku utanríkisþjónustunnar. Merkið verður með þremur stigum, gulli, silfri og brons, rétt eins og í íþróttunum.

Við blasir að fyrsti viðtakandi gullmerkisins verði einmitt utanríkisráðherra. Ekki er nóg með að Þórdís Kolbrún hafi sýnt þann stórhug að koma heiðursmerkinu á fót heldur hefur hún tekið fleiri stórar ákvarðanir í embætti á borð við að loka sendiráði Íslands. Aðrir augljósir viðtakendur gullmerkisins eru svo Bjarni Benediktsson, sem á stuttum utanríkisráðherraferli sínum náði að skipa vini sína, Svanhildi Hólm og Guðmund Árnason, sendiherra í Washington og Róm, og Davíð Oddsson, sem á rétt rúmu ári náði að skipa 11 af sínum nánustu og kærustu vinum í sendiherrastöður, áður en hann færði sig í Seðlabankann og átti þar feril sem eflaust kallar á einhverja medalíu einhvers staðar.
Svarthöfði treystir því að aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar feti nú í fótspor utanríkisráðherra og komi á fót heiðursmerkjum sinna ráðuneyta. Alltaf er jákvætt að sjá leiðtoga þjóðarinnar takast á við stóru málin sem hafa úrslitaáhrif á hag almennings í landinu. Næsta víst er að kjósendur verða utanríkisráðherra ævinlega þakklátir fyrir þetta merka framtak, sem ekki var vanþörf á.

Einhverjir hafa kallað svona heiðursmerki glingur en Svarthöfði ansar ekki slíku og telur gagnrýni af því tagi  stafa af annarlegum hvötum.

Svarthöfði telur sjálfsagt að gullmerkin verði spöruð fyrir þessa virkilega stóru, á borð við ráðherra og ráðuneytisstjóra og sendiherra, og almennir embættismenn geti gengið að silfurmerkjunum vísum. Svo mætti hugsa sér að bronsmerkin falli til stórbokka í atvinnulífinu, útgerðarmanna og kaupfélagsstjóra og fólks af því kalíberi.

Enn einu áhyggjuefninu er létt af Svarthöfða og hann fer rólegur inn í helgina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin