Önnur ferðataska með mynd af Loga Bergmanni Eiðssyni hefur dúkkað upp. Netverjar furða sig á þessari nýju tísku.
DV greindi frá því í á miðvikudag að Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefði séð tvo ferðamenn í leigubílaröðinni á Reykjavíkurflugvelli með bleika ferðatösku með andliti Loga Bergmanns Eiðssonar á.
Ferðamennirnir virtust vera af asískum uppruna. „Ætli Spurningabomban sé vinsæl í Asíu?“ spurði Jóhannes í færslu á samfélagsmiðlum og vísar í spurningaþátt Loga á Stöð 2.
Nú hefur önnur slík taska dúkkað upp í Reykjavík. Útvarpsmaðurinn Ívar Guðmundsson birti mynd og færslu af tösku sem hann sá í miðbænum, sem kona heldur á.
„Hvað er í gangi? Hvar fær maður svona Loga tösku?“ spyr Ívar.
Svörin létu ekki á sér standa. Meðal annars bendir tónlistarmaðurinn norðlenski Rögnvaldur Bragi á að þetta sé frekar hlíf utan um tösku en taska. „Ómissandi á hverju heimili eftir sem áður,“ segir hann.