fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
Fréttir

Snjallsímarnir gera börnin okkar kvíðin og þunglynd

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 11. júlí 2024 17:43

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Tvær miklar breytingar á lífskjörum og lífsháttum barna valda því að nú þjást mun fleiri ungmenni af kvíða og þunglyndi heldur en á árum áður. Önnur breytingin hófst á síðustu áratugum tuttugustu aldar og felst í því að tími til frjálsra leikja hefur minnkað og börn verja skemmri tíma en áður í hópi með öðrum börnum án eftirlits og afskipta fullorðinna. Hin breytingin er tilkoma samskiptamiðla (s.s. Facebook, Instagram og TikTok) á snjallsímum,“

segir Atli Harðarson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í grein sinni á Vísi. 

Vísar hann þar til bandaríska sálfræðingins Jonathan Haidt og meginkenningar hans sem kemur í bók hans sem kom út fyrir þremur mánuðum, The anxious generation: How the great rewiring of childhood is causing an epidemic of mental illness. Á íslensku gæti hún kallast Kvíðna kynslóðin: Hvernig róttæk umbreyting bernskunnar veldur faraldri geðrænna sjúkdóma

Segir Atli bókina þegar vakið mikla athygli enda rökfærsla höfundar afar vönduð, studd traustum gögnum og fræðilegri þekkingu á þroska barna. 

Meginefni bókarinnar er sálfræðilegar útskýringar á því hvernig þessar tvær breytingar spilla heilsu barna. Höfundur ræðir í leiðinni fleiri tengd efni eins og hvernig: Óheftur aðgangur að klámi veldur minni félagsfærni, einkum hjá piltum; Sífellt streymi mikið unninna glansmynda af grönnum líkömum ýtir undir átröskun og fleiri kvilla, einkum hjá stúlkum; Orsakir versnandi geðheilsu valda jafnframt versnandi námsárangri.

Að mínu viti á þessi bók afar brýnt erindi við alla sem láta sig varða velferð barna og unglinga,“ segir Atli sem tæpir í grein sinni á  í rökfærslu bókarinnar.

Tengsl geðsjúkdóma við notkun samfélagsmiðla

Atli nefnir að þeir sem starfi í skólum hafi líklega flestir orðið varir við vaxandi kvíða og þunglyndi meðal ungmenna. 

Tölfræðileg gögn um lyfjanotkun benda líka til að þessir sjúkdómar herji í auknum mæli á ungt fólk. Í umfjöllun um þessi efni er stundum leitað staðbundinna skýringa. Í bókinni bendir Haidt á að tíðni kvíða og þunglyndis meðal ungmenna jókst víða um heim eftir 2010 og því sé ósennilegt að orsakirnar séu staðbundin vandamál.

Tengsl geðsjúkdóma við notkun samfélagsmiðla eru, segir Haidt, að jafnaði sterkari hjá stúlkum en piltum. Hann bætir því við að vísbendingar séu hins vegar um að minni tími til frjálsra leikja fari enn verr með piltana en stúlkurnar. Þótt hann ræði talsvert um kynjamun í þessu sambandi er það ekki aðalatriðið í bókinni heldur þörf allra barna fyrir meira frelsi til leikja í raunheimum og meiri vernd gegn ágengum öflum í netheimum.

Frjálsir leikir og þörfin fyrir hnjask

Við höfum ónæmiskerfi sem þroskast við að verða fyrir hnjaski. Þess vegna er ekki gott að alast upp í dauðhreinsuðu umhverfi. Haidt segir að hugurinn þurfi líka hæfileg áföll og vandamál til að þroskast. Þegar börn leika sér saman í hópum án eftirlits og afskipta fullorðinna þurfa þau að leysa ágreining, semja sátt og móta sínar eigin reglur og viðmið um hvernig þeim skuli framfylgt. Vissulega tekst þeim þetta misjafnlega og þess vegna þurfa fullorðnir að vera í kallfæri og grípa inn í við og við.

Atli segir að rannsóknir sem Haidt segir frá sýni „að tími barna til frjálsra leika tók að minnka á níunda áratugnum og þegar kom fram undir aldamót var nær hver vökustund skipulögð af fullorðnum og eftirlit með leikjum orðið miklu meira en áður. Þessi öfugþróun hélt svo áfram og með snjallsímunum minnkaði enn tími til frjálsra leikja. Meðal bandarískra ungmenna á aldrinum 10 til 20 ára fór tími með vinum í raunheimum úr því að vera að jafnaði um tvær klukkustundir á dag 2012 niður í rétt rúma klukkustund á dag 2019.

Áhrif snjallsímanna bættust þannig við breytingu sem varð undir lok síðustu aldar og tengdist auknum áherslum á fullkomið öryggi og algerlega hættulaust umhverfi fyrir börn. Haidt kallar þetta „safetyism.“ Ef til vill ætti það að heita öryggisárátta á íslensku. Hún rænir börn reynslu sem gerir þeim mögulegt að bregðast skynsamlega við hættum og eykur því hreint ekki raunverulegt öryggi þeirra. Svo rammt kveður að þessari áráttu að víða er börnum bannað að leika sér úti með jafnöldum og skólar hafa dregið úr útiveru og leikjum í frímínútum.

Á sama tíma og börnin eru pössuð allt of mikið í raunheimum hafa þeir sem reka gróðadrifnar þankamyllur í netheimum ótakmarkaðan aðgang að athygli þeirra og vitund.

Hvernig snjallsímar skaða börn á fjóra vegu

Snjallsímar með snertiskjá komu fram seint á fyrsta áratug þessarar aldar. Um svipað leyti jókst notkun samskiptamiðla og fyrir 2010 tóku þeir á sig þá mynd sem þeir nú hafa þar sem hægt var að bregðast við innleggjum frá öðrum með því að smella á „like“ eða annað ámóta.

Haidt segir að þessi tækni hafi gerbreytt lífi barna og ungmenna og dagurinn líði allt öðru vísi hjá þeim sem eru með snjallsíma heldur en hjá þeim sem voru, áratug fyrr, með einfalda farsíma sem var bara hægt að nota til að hringja og senda SMS. Hann segir að snjallsímarnir skaði börn á fjóra vegu. Með því að:

  1. Draga úr samveru við fólk í raunheimum

  2. Stytta nætursvefn

  3. Hindra einbeitingu

  4. Valda fíkn

Svo aðeins sé hér farið yfir fjórða skaðann segir Haidt: 

„Samskiptamiðlar eru, rétt eins og spilakassar í spilavítum, hannaðir til að vera vanabindandi þannig að einlæg löngum og ásetningur dugi ekki til að slíta sig frá þeim. Þekking á sálfræði er notuð til að gera fólki erfitt að leggja símana frá sér enda græða netfyrirtækin á því að halda athygli sem flestra. Hugur okkar er söluvaran og því er rekstur samskiptavefja ekki þjónusta við notendur í venjulegum skilningi. Peningarnir koma frá auglýsendum sem borga fyrir að fá fólk til að hafa athyglina á skjánum.

Flestir samskiptamiðlar spyrja um aldur þegar menn nýskrá sig og oftast á að heita að notendur þurfi að vera orðnir 13 ára. Ekkert hindrar samt níu ára krakka í að segjast vera eldri. Í reynd eru því engin aldurstakmörk. Því fleiri sem eru tengdir því meiri eru auglýsingatekjurnar svo það er enginn hvati yfir eigendur að hindra aðgang barna. Þeir sem framleiða þessa nýlegu gerð af vanabindandi efni eru því í svipaðri stöðu og tóbaksframleiðendur í Bandaríkjunum voru meðan sígarettur voru seldar í sjálfsölum þar sem börn höfðu sama aðgang og fullorðnir.

Atli Harðarson

Atli nefnir að þó að Haidt leggi áherslu á skaðsemi samfélagsmiðla fyrir börn tekur hann fram að þessi tækni sé á ýmsan hátt til góðs. 

Fólk notar hana til að finna upplýsingar, mynda tengsl og viðhalda þeim, skipuleggja viðburði og létta sér lífið á ýmsa lund. Fyrir marga fullorðna er gagnsemin mikil og skaðinn lítill en fyrir stóran hluta barna er þessu öfugt farið, tjónið miklu veigameira en ávinningurinn.

Ráð til úrbóta

Í fjórum síðustu köflum bókarinnar ræðir Haidt ráð til úrbóta og eru þau einkum fjögur:

  1. Engir snjallsímar fyrir 14 ára aldur.
  2. Engir samskiptamiðlar fyrir 16 ára aldur.
  3. Engir snjallsímar í grunn- og framhaldsskólum.
  4. Mun meira af frjálsum leikjum án eftirlits og afskipta fullorðinna.

Grein Atla má lesa í heild sinni hér. 

Bók Haidt má meðal annars panta hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dópaði og drukkni skipstjórinn hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm

Dópaði og drukkni skipstjórinn hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Manndrápsmál á Akureyri – Komið til saksóknara

Manndrápsmál á Akureyri – Komið til saksóknara