Rafmagnsgirðingu sem sveitarfélagið Kjósahreppur setti upp til að hindra að hross kæmust niður á þjóðveg hefur verið stolið. Harðar landamerkjadeilur hafa staðið yfir á jörðinni sem girðingin stóð við.
Að sögn Jóhönnu Hreinsdóttur, oddvita hreppsins, er um að ræða 400 metra girðingu á milli Fells og Lækjarbrautar. Fjárhagslegt tjón vegna girðingarinnar sjálfrar er ekki mikið en að mati hreppsins er þetta alvarleg aðför að umferðaröryggi á Hvalfjarðarvegi.
„Þar með er opið þarna niður og hross komast niður á þjóðveg. Þess vegna vorum við að setja þessa girðingu upp,“ segir Jóhanna.
Harðar landamerkjadeilur hafa staðið yfir á jörðinni Þúfukoti sem girðingin var við síðan árið 2018. Þau mál, sem snúast um eignarhald á 25 hektara spildu, hafa komist í kastljós fjölmiðlanna.
Sumarið 2020 greindi Fréttablaðið frá því að sérsveit lögreglunnar hefði handtekið fatlaðan mann á áttræðisaldri eftir að hann hafði lagfært girðingu. En sá maður er annar þeirra sem standa í landamerkjadeilunni.
Þáverandi hreppstjóri, Karl Magnús Kristjánsson, gagnrýndi sérsveitina harðlega eftir þá uppákomu og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, krafði Ríkislögreglustjóra um svör. En Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri sagðist hafa grun um að maðurinn hefði ætlað að beita vopnum á hinn aðilann.
Þá hafa óvægnar athugasemdir verið látnar flakka í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum í deilunni. Sumarið 2021 greindi Vísir frá því að hinn aldraði maður hefði verið dæmdur til að greiða 200 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla um hinn.
„Það eru í gangi deilur um þetta land,“ segir Jóhanna. „Það er enginn alveg sekur eða alveg saklaus í þessu máli.“
Hún ítrekar það að sveitarstjórn hafi enga vitneskju um að stuldurinn á girðingunni tengist þessum deilum. Sveitarstjórn viti ekki um afdrif girðingarinnar en óski eftir upplýsingum þar um.
„Við erum ekkert að blanda okkur í þessar deilur. Við erum fyrst og fremst að huga um umferðaröryggi,“ segir Jóhanna.
Jóhanna segir að Vegagerðin hafi fyrir mörgum árum sett upp girðingu á þessum stað. Sú girðing hafi verið góð og vel við haldið.
„Annar aðilinn fjarlægði þá girðingu þar með var opið fyrir hestana frá hinum aðilanum niður á veg,“ segir hún. Síðar hafi sveitarstjórn ákveðið að setja þarna upp einfalda rafmagnsgirðingu.
Sveitarstjórn Kjósarhrepps hefur ekki enn þá tilkynnt málið til lögreglu. Kom málið aðeins upp í gær.
„Við munum hittast seinni partinn í dag og taka ákvörðun um næstu skref,“ segir Jóhanna.
Að mati sveitarstjórnar er það óskiljanlegt að einhver taki sig til og vinni gegn markmiðum um bætt umferðaröryggi. Allir þeir sem geta gefið upplýsingar um afdrif girðingarinnar eru beðnir um að hafa samband við oddvita eða sveitarstjóra.