Ýmislegt hefur gengið á í baráttu Garðbæinga við máva. Mávarnir hafa verpt á húsþök í Sjálandshverfi og víðar á undanförnum árum við litla hrifningu íbúa. Sumir íbúar hafa brugðið á það ráð að fjarlægja egg og hreiður en aðrir hafa hins vegar sent til tilkynningar til Matvælastofnunar (MAST) um ungadráp.
Í hverfisgrúbbunni greinir einn íbúi frá því að flestir séu sammála um að aðgerðirnar í sumar hafi gengið vel. Segir hann að einhverjir íbúar séu hins vegar ósáttir við aðgerðirnar og hafi tilkynnt til MAST. Tekur hann fram að engir ungar hafi verið drepnir. Aðeins egg og hreiður hafi verið fjarlægð af húsþökum eins og heimilt er.
„Þess vegna er ekki ásættanlegt að einhver tilkynni íbúa sem fara upp á þökin til MAST um að þar séu ungadráparar að störfum,“ segir hann.
Mávarnir hafa plagað íbúana um nokkurra ára skeið og reglulega birst fréttir í fjölmiðlum um þessa baráttu þeirra. Húsin í hverfinu eru mörg hver með flöt þök og jafn vel steina ofan á sem henta einkar vel sem varpstaðir fyrir máva, sem skíta út um allt og verja varpstaðinn með kjafti og klóm.
Í apríl á síðasta ári var haldinn vel sóttur íbúafundur í Sjálandsskóla til að ræða leiðir til að takast á við mávana. En hraunið sem byggðin stendur við er friðlýst og baráttan því takmörkum háð. Á fundinum voru meðal annars bæjarstjóri, meindýraeyðir og dýravistfræðingur.
Hvetur bærinn íbúa til að fylgjast með þökum sínum og öðrum stöðum sem mávar geta nýtt sem varpstaði eða set staði. Leiðir til að hrekja þá burtu eru meðal annars að trufla þá, eyða eggjum og hreiðrum og skilja ekki eftir rusl og matvæli á opnum svæðum. Ekki má þó eyða eggjum í friðlandinu sjálfu.
Varptímabilið hefst í maí og stendur fram í júlí. Enn þá eru íbúar að finna egg og hreiður á þökum sínum.
Hópur sem gengur undir merkinu Mávadeildin: Terminators fer um og eyðir hreiðrunum. Einn greinir frá því á íbúasíðunni að hafa fjarlægt tvö egg í einu hreiðri í gær.
„En mávurinn gaf þau ekki eftir mótstöðulaust, náði að skíta einni hressilegri bunu yfir okkur! Hlýtur að þýða að varptíminn sé að klárast,“ segir hann.
Eins og áður segir er ekki full samstaða um aðgerðirnar. Ein kona nefnir í umræðunum á síðunni að þetta merki, Mávadeildin: Terminators, sé mjög ósmekklegt og sorgleg nálgun.
„Eins og þetta sé einhver tölvuleikur. Hvað með ágang mannskepnunnar? Blessuð dýrin og náttúran þurfa stöðugt að víkja fyrir manninum,“ segir hún.