Lögreglan í Anderson sýslu í Suður Karólínu kom upp um undarlegan stórþjófnað fyrir skemmstu. Tvær konur höfðu stolið rándýru Barbídúkkusafni úr hjólhýsi.
Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar voru tvær konur að nafni Erin Duncan og Felicia Houser handteknar fyrir þennan bíræfna þjófnað. Höfðu þær komist að snoðir um að safnið væri geymt í hjólhýsi í bænum Echo Circle. Biðu þær færis og brutust inn þegar hjólhýsið var mannlaust.
Safnið er metið á 10 þúsund dollara, eða um 1,4 milljónir króna. Dúkkurnar voru enn þá í plastumbúðunum, til að halda verðgildi þeirra.
Þegar eigandinn kom heim til sín sá hann Duncan og Houser að fylla bílinn sinn af dúkkum, svartan Yukon jeppa. Sá jeppi reyndist vera stolinn. Hringdi hann í lögregluna en þjófarnir tveir höfðu sig á brott með þýfið.
Lögreglumenn eltu og fundu bílinn með Houser við stýrið skömmu seinna. Ekki nóg með að Barbídúkkusafnið væri í bílnum. Þar var einnig fágætt stolið safn af hafnaboltamyndum sem og nokkuð af hráu kjöti. Var Houser handtekin á staðnum og ákærð fyrir stórþjófnað og innbrot.
Duncan fannst seinna og var einnig handtekin. Auk áðurnefndra brota var hún einnig ákærð fyrir vörslu metamfetamíns.