fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
Pressan

Hver myrti Sherri? – Hvar var DNA-sýnið?

Pressan
Laugardaginn 13. júlí 2024 21:00

Sherri og John. Mynd:Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún var nýgift og hamingjusöm þegar hún var myrt á hrottalegan hátt á heimili sínu. Það liðu tæpir þrír áratugir þar til lögreglan komst að því hver morðinginn var. Málinu hefur verið lýst sem einu stærsta hneykslismáli Bandaríkjanna hvað varðar rannsóknarvinnu lögreglunnar.

Þegar Sherri Rasmussen, sem var yfirhjúkrunarfræðingur á Glendale Adventist Medical Center, hitti jafnaldra sinn John Ruetten í fyrsta sinn féll hún kylliflöt fyrir honum. Hann var að ljúka námi sínu við UCLA þegar þau kynntust en það var árið 1984.

Þau urðu bæði ofurástfangin og þau gengu í hjónaband ári síðar. Eftir brúðkaupsferðina og langt frí var komið að því að hefja lífið saman. En það varð ekki langt því Sherri var myrt á hrottalegan hátt þann 24.febrúar 1986.

Fann Sherri myrta

Á síðasta degi sínum í þessu lífi tilkynnti Sherri sig veika í vinnunni. Þegar John hringdi í hana fyrir hádegi, svaraði hún ekki í símann og það var slökkt á símsvaranum. John róaði sjálfan sig með að Sherri hefði líklega verið farin að hressast og hefði því farið í vinnu.

Þegar hann kom heim eftir vinnu, áttaði hann sig á að eitthvað var að því bæði bílskúrsdyrnar og bakdyrnar voru galopnar.

Hér bjuggu Sherri og John.

Hann fann Sherri liggjandi á stofugólfinu, hún hafði verið myrt. Hún var í náttsloppnum sínum og John sá strax að líkið var illa farið því hún hafði verið skotin mörgum sinnum.

Þegar John leit nánar í kringum sig, sá hann blóð á veggjum og dyrum í húsinu. Einnig voru tannför á öðrum handlegg Sherri.

Rannsókninni var hætt fljótt

Þrátt fyrir að ummerki væru um að til átaka hefði komið og að Sherri var með bitför á handleggnum og að líklega væri DNA úr gerandanum eða gerendum í húsinu, þá komst lögreglan fljótt að þeirri niðurstöðu að Sherri hefði líklega komið að innbrotsþjófi sem hefði banað henni.

Lögreglan byggði þetta á að hún var í náttsloppnum sínum og aðeins nærfötum undir honum. Henni hlyti því að hafa verið komið að óvörum af einhverjum sem hún átti ekki von á og því hlyti morðinginn að vera aðili sem hún þekkti ekki.

Rannsókn málsins var hætt fljótlega og tengt við fjölda innbrota í hverfinu á svipuðum tíma og morðið var framið.

Sherri og John.

Lögreglan taldi að karlmaður hefði verið að verki og hafði það engin áhrif á þessa niðurstöðu að rannsóknir hafa sýnt að konur eru mun líklegri til að bíta þegar til slagsmála kemur.

Lögreglan taldi því að morðinginn væri sá sem hafði framið fjölda innbrota í hverfinu.  En það eina sem var saknað af heimili Sherri og John, var giftingarvottorð þeirra og BMW bíll Sherri en hann fékk hún að gjöf frá John.

Skartgripaskrínið hennar var hins vegar á sínum stað en það var mun verðmætara en giftingarvottorðið. Skrínið var mjög sýnilegt í svefnherberginu en samt sem áður hafði það verið látið óhreyft.

Engir óvinir

Þegar nánustu ættingjar og vinir Sherri voru yfirheyrðir var henni lýst sem umhyggjusamri og góðri konu sem hefði ekki átt neina óvini. Fjölskylda hennar skildi ekki að einhver hefði hatað Sherri svo mikið að viðkomandi hefði verið reiðubúinn til að valda henni skaða eða drepa hana.

Foreldrar Sherri og John sögðu lögreglunni að eina manneskjan sem hefði komið undarlega fram við þau væri Stephanie Lazarus, sem var 25 ára lögreglukona í Los Angeles. Hún og John höfðu átt í stuttu ástarsambandi áður en hann kynntist Sherri en hann sleit sambandinu við Stephanie þegar hann kynntist Sherri.

Nels Rasmussen, faðir Sherri, grunaði að Stephanie hefði hugsanlega átt hlut að máli varðandi morðið því hún hafði ítrekað heimsótt ungu hjónin og hafði Sherri ekki verið sátt við það.

Eitt sinn birtist hún heima hjá þeim með sjóskíði sem hún vildi fá John til að vaxbera. John fullvissaði Sherri um að hann hefði í raun ekki átt í ástarsambandi við hana en Sherri bað hann um að halda sig frá henni.

Flutti úr borginni

John var með pottþétta fjarvistarsönnun og sjónir lögreglunnar beindust ekki að honum. Hann treysti sér ekki til að búa áfram í húsinu þeirra og sagði upp vinnunni og flutti úr borginni skömmu eftir morðið.

Málinu vakti ekki mikla athygli eftir að rannsókn þess var hætt nema hvað fjallað var aðeins um það í nokkrum dagblöðum átta mánuðum síðar þegar fjölskylda Sherri hét verðlaunum fyrir upplýsingar sem gætu orðið til þess að morðinginn myndi nást.

Fjölskyldu Sherri fannst sem lögreglan í Los Angeles sýndi málinu engan áhuga og fór ekki leynt með að lögreglan hefði skellt á þegar þau hringdu til að forvitnast um gang rannsóknarinnar eða þá að þau voru látin bíða í óratíma í símanum eftir svörum.

DNA.

Nels Rasmussen var sannfærður um að Stephanie tengdist morðinu og reyndi ítrekað að fá lögregluna til að taka málið til rannsóknar á nýjan leik. Lögreglan fullvissaði hann um að Stephanie væri ekki grunuð í málinu, rannsóknin hefði leitt það í ljós. Þetta róaði hann ekki og hélt hann áfram að gera það sem í hans valdi stóð til að réttlætið myndi ná fram að ganga.

Lögreglan gekk ekki að kröfum hans um að DNA-rannsókn yrði gerð á hári, blóði og munnvatni sem fannst á vettvangi. 1993 var fjölskyldunni sagt að lögreglan hefði ekki fjármagn til að láta gera DNA-rannsókn. Nels bauðst til að greiða fyrir rannsóknina en fékk þau svör að slík rannsókn væri tilgangslaus, því enginn lægi undir grun til að bera niðurstöðurnar saman við.

Tíminn leið

Þrátt fyrir óskir fjölskyldunnar um að rannsókn málsins yrði haldið áfram, þá var málið flokkað sem óleyst og sett í bunka óleystra sakamála. Þar lá það til 2001 þegar það var tekið til rannsóknar á nýjan leik og skoðað hvort nýjar rannsóknaraðferðir gætu komið að gagni.

Það vakti athygli rannsakenda að DNA-sýni úr málinu hafði verið tekið úr málsgögnunum 1993 af lögreglumanni og hafði ekki verið skilað aftur. Það var ekki fyrr en 2004 sem lögreglan fann sýnið á nýjan leik þegar hún fór yfir öll DNA-sýni frá réttarmeinalæknum. En það var sama sagan að þessu sinni og áður, málið var ekki tekið til nákvæmrar rannsóknar.

Hringurinn þrengdist

Dan Jaramillo, sem vann við rannsóknir á gömlum óleystum málum, hafði skipulagt daginn vel þegar hann bað samstarfskonu sína Stephanie Lazarus um aðstoð í máli einu þann 5. júní 2009.

Stephanie var vel metin og reynd í starfi og ferilskrá hennar var glæsileg. Vinnubrögð hennar voru nákvæm og hún starfaði mjög fagmannlega. Hún var gift lögreglumanni og hafði unnið mikið að málum er varða öryggi barna.

Hún hafði starfað lengi hjá lögreglunni í Los Angeles en þess utan hafði hún einnig um hríð rekið sitt eigið einkaspæjarafyrirtæki, Unique Investigations.

Þennan dag var hún á leið í yfirheyrsluherbergið til að aðstoða við rannsókn á listaverkaþjófnaði, það var það sem henni hafði verið sagt. Þetta var hrein rútína fyrir hana og hún virtist eiginlega ekki vera hissa þegar henni var vísað til sætis í sætinu þar sem hinn grunaði situr venjulega í yfirheyrslum.

Loksins komst upp um hana

Hljóðupptökur frá yfirheyrslunni voru notaðar sem sönnunargögn þegar málið var tekið fyrir dóm. Hafa þessar upptökur fengið töluverða umfjöllun í heimildarmyndum og þáttum um morðið á Sherri Rasmussen.

„Við erum með mál, þar sem nafnið þitt kemur upp öðru hvoru á minnisblöðum“ sagði Dan Jaramillo við hana.

„Ókey,“ svaraði hún og var síðan spurð hvort hún myndi eftir John Ruetten.

Í þessar löngu yfirheyrslu sagði Stephanie frá sambandi sínu við John. Hún sagði að sig rámaði í að hann væri kvæntur og að eiginkona hans hefði verið myrt. Hún sagðist ekki minnast þess að hafa hitt Sherri og sagði útilokað að muna hluti sem „gerðust fyrir milljón árum“.

Valminni

Hún reyndi að stýra yfirheyrslunni með því að nefna sameiginlega vinnufélaga sína og Dan og félaga hans sem var einnig í yfirheyrsluherberginu.

Hún virtist ekki vera taugaóstyrk en reyndi að vera vinaleg og spila á að hún væri vinnufélagi lögreglumannanna. Hún hló og grínaðist en var einnig pirruð og hissa inn á milli.

„Manstu hvernig þú brást við þegar þú heyrðir að hún væri dáin?“ spurði Dan hana.

„Ég hringdi í fjölskylduna. Ég hringdi í nokkra af gömlu vinum hans. Þetta var mikið áfall,“ sagði hún en minni hennar virtist lagast eftir því sem leið á yfirheyrsluna.

Hún sagði einnig að hún og John hefðu verið par en þau hefðu ákveðið að þetta væri ekki mjög alvarlegt og að þau gætu einnig deitað aðra. Hún játaði síðan að hafa hitt Sherri og rætt við hana um samband sitt við John.

Öll smáatriðin voru gerð opinber

Yfirheyrslurnar voru skrifaðar upp og birtar og vöktu mikla athygli um öll Bandaríkin. Hvorki götublöð né virt dagblöð reyndu að leyna því að Stephanie hefði ísköld neitað að hafa myrt Sherri fyrir þrjátíu árum.

„Er þetta falin myndavél? Eruð þið að saka mig um þetta? Er það, það sem þú ert að segja?“ sagði Stephanie öskureið rétt áður en hún rauk út úr yfirheyrsluherberginu.

„Þetta er klikkun. Þetta er algjör klikkun,“ var það síðasta sem hún sagði áður en hún yfirgaf yfirheyrsluherbergið í kjölfar þess að Dan hafði kynnt henni sífellt fleiri sönnunargögn sem bentu til sektar hennar.

Nokkrum sekúndum eftir að hún æddi út úr yfirheyrsluherberginu var hún handtekin og sett í handjárn.

Hneyksli

Hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald og tryggingaupphæð hennar var 10 milljónir dollara. Hún gat ekki greitt hana og þurfti því að sitja í varðhaldi fram að réttarhöldunum.

Í þeim var fjöldi sönnunargagna, þar á meðal DNA-gögn, lagður fram til að sýna fram á að það var Stephanie sem myrti Sherri.

Stephanie fyrir dómi.

Lögreglukonan Jennifer Francis, var helsta driffjöðrin í að fá málið tekið til rannsóknar á nýjan leik. Þegar að ljóst var orðið að Stephanie var morðinginn, gagnrýndi Jennifer lögregluna, vinnuveitanda hennar, og lögreglumennina sem höfðu rannsakað málið í upphafi. Hún sagði að réttlætið hefði náð fram að ganga miklu fyrr ef lögreglan í Los Angeles og Clipp Shepperd, sem stýrði rannsókninni, hefðu ekki viljað hlífa Stephanie.

Jennifer höfðaði síðan mál á hendur lögreglunni fyrir að hafa hunsað sannanir úr DNA-sýnum sem hún gerði til að upplýsa málið.

Afgerandi sönnunargögn

Í kjölfar handtökunnar var Stephanie rekin úr starfi hjá lögreglunni í Los Angeles og hún sat í gæsluvarðhaldi til 2012 þegar málið var tekið fyrir hjá dómi.

Þegar saksóknarinn hóf málflutning sinn fyrir dómi sagði hann: „Bitfar, byssukúla, skothylki og brostið hjarta. Þetta eru sönnunargögnin sem við munum leggja fram til að sýna að Stephanie Lazarus myrti Sherri Rasmussen.

DNA, sem fannst á morðvettvangi, passaði fullkomlega við DNA úr Stephanie. Sherri var skotin með 38 kalibera skammbyssu en slíkar skammbyssur voru vopn lögreglunnar í Los Angeles þegar Sherri var myrt. Stephanie hafði einmitt verið með slíka byssu.

Í maí 2012 var Stephanie dæmd í 27 ára fangelsi fyrir morðið á Sherri.

Stephanie afplánar dóminn í Central California Womens‘s Facility í Chowchilla í Kaliforníu. Hún getur sótt um reynslulausn 2039.

Byggt á umfjöllun NBC News, InsideEdition, VanityFair og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Baba Vanga spáði fyrir um heimsendi – Hefst á næsta ári

Baba Vanga spáði fyrir um heimsendi – Hefst á næsta ári
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skammbyssur sem Napóleon ætlaði að skjóta sig með seldust fyrir 255 milljónir

Skammbyssur sem Napóleon ætlaði að skjóta sig með seldust fyrir 255 milljónir
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fjölskyldufaðirinn ætlaði að sýna sig – Endaði hörmulega

Fjölskyldufaðirinn ætlaði að sýna sig – Endaði hörmulega
Pressan
Fyrir 3 dögum

Heillaráð frá lækni – Drekktu þetta fyrir kynlíf og fullnægingin verður betri

Heillaráð frá lækni – Drekktu þetta fyrir kynlíf og fullnægingin verður betri
Pressan
Fyrir 4 dögum

Týndi farsímanum sínum – Kostaði hann 11 ára fangelsi

Týndi farsímanum sínum – Kostaði hann 11 ára fangelsi
Pressan
Fyrir 5 dögum

Banki þvingaði fólk til að kaupa óþarfa tryggingar, stofnaði yfirdátt í þeirra óþökk, færðu til peninga og sendu þeim óumbeðin greiðslukort

Banki þvingaði fólk til að kaupa óþarfa tryggingar, stofnaði yfirdátt í þeirra óþökk, færðu til peninga og sendu þeim óumbeðin greiðslukort