fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Karlmannleg orka í gegnum töluna einn

Fókus
Laugardaginn 6. júlí 2024 09:00

„Það er alltaf gott að fá gagnrýni. Jú, jú, ég er ábyggilega viðkvæmur fyrir gagnrýni en ég ætla ekkert endilega að láta það segja mér hver ég er þó ég fái gagnrýni og einn fundur hafi verið lélegur. Auðvitað hafa verið góðir fundir og lélegir fundir. Það er allt upp og niður. Sumt hefur tekist og sumt hefur ekki tekist. Þannig er bara með allt í lífinu. Það mega allir hafa sína skoðun. Við höfum tjáningarfrelsi.“

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Texti: Svava Jónsdóttir

Hermundur Rósinkranz Sigurðsson er einn af þekktari talnaspekingum landsins og hefur fjöldi fólks leitað til hans í gegnum árin. Hermundur var fimm ára þegar faðir hans lést og þá breyttist lífið. Flutt var frá Hveragerði til miðbæjar Reykjavíkur þar sem kúrekaleikir voru í uppáhaldi og Roy Rogers á meðal föðurímynda. Andlegir hæfileikar gerðu vart við sig meðal annars á þann hátt að Hermundur stóð upp oftar þegar einhver kom inn í skólastofuna en aðrir þar sem hann sá fleiri en hinir. Hann fór sextán ára í sambúð, varð faðir og vann verkamannavinnu um árabil en andlegi heimurinn opnaðist meira og í um 20 ár vann hann sem talnaspekingur. Hermundur ræðir einnig meðal annars einnig um talnaspekina, ástina og dauðann.

Hermundur Rósinkranz Sigurðsson telur sig vera Landeying í móðurætt. Hann segir að Landeyjarnar hafi verið sinn þroskastaður þar sem hann hafi þroskast mest og var að hluta til alinn þar upp. Hann var þar í sveit í æsku. Hann er hins vegar ættaður að vestan í föðurætt. „Ég býst við að það sé Ísafjörður. Ef það er rangt hjá mér þá biðst ég afsökunar,“ segir talnaspekingurinn þar sem hann situr í herberginu á heimili sínu þar sem hann tekur á móti fólki sem vill fá svör. Þar hangir kross á einum veggnum. Engill fyrir ofan dyrnar.

Og Hermundur Rósinkranz er með kross um hálsinn.

Hann sem telur sig vera Landeying og er ættaður að vestan, sennilega frá Ísafirði, fæddist í Reykjavík. Hann bjó í Hveragerði í fjögur ár á æskuárunum. Hann var fimm ára þegar faðir hans lést og þá flutti hann ásamt móður sinni og systkinum til Reykjavíkur – nánar tiltekið á Vitastíginn. Hann á einn albróður og svo þrjár hálfsystur en ein þeirra er samfeðra.

Hann er spurður um fyrstu æskuminninguna.

„Ég man eftir því þegar ég var í kringum eins árs. Þá sat ég úti í gluggakistu í Hveragerði og var að horfa upp í stjörnurnar og mér fannst þetta svo þægilegt af því að glugginn var kaldur. Mér var heitt. Ég varð var við að einhver labbaði fram í eldhús og kom til baka og þá sá ég að þetta var faðir minn með pela. Hann var að bogra yfir barnarúmi. Ég sá barn í rúminu sem var ég og þá fór ég aftur í líkamann en ég hafði farið úr líkamanum til að hvíla mig en ég var svo lasinn.

Ég man mjög vel eftir mér í kringum fimm ára aldurinn. Ég man ótrúlega margt úr lífi mínu frá þeim tíma. Svo lokuðust þessar minningar eftir að faðir minn dó. Þá lokaðist þessi heimur fyrir mér af því að ég og pabbi vorum eins og eitt. Ég var alltaf tilbúinn til að hitta pabba og hlakkaði til að hitta hann og við vorum alltaf kjaftandi og syngjandi. Þannig að það var eins og tappinn úr lífi mínu væri tekinn úr mér á þeim tíma.

Líf mitt var farið og allar spurningarnar sátu eftir: Af hverju, hvers vegna og út af hverju. Maður fékk ekki að vita hvað væri andlát og hvað það væri að deyja. Sem krakki áttaði ég mig ekkert á því; á þessum tíma voru börn lítið upplýst um andlát og lítið látin vita hvað það var. Og þegar maður spurði var mér sagt að fara út að leika mér eða að vera ekki að spyrja svona spurninga. Það var ekkert mikið verið að segja börnunum frá andlátinu. Við vorum ekki við jarðarför föður okkar.

Ég hef aldrei getað farið í gegnum það ferli að syrgja. Það er hlutur sem ég á kannski eftir að gera en kannski var leit að svörum ástæðan fyrir því að ég fór inn í þennan svokallaða andlega heim. Það opnar þessa leit, gæfu, gjöf eða hæfileika. Þetta er atburðarás sem hefur áhrif á mannslíkamann og það fer alveg inn í DNA-ið okkar. Þannig að maður veit ekkert af hverju þetta kemur; hvort þetta sé ættgengt að fólk sjái, skynji og finni eða hvort það var bara þessi tímapunktur sem gerði það að verkum að ég fór að leita.

Ég man meira eftir mér frá eins árs upp í fimm ára og það eru skýrari minningar heldur en eftir fimm ára fram til bara ég veit ekki hvað; tvítugs. Heimurinn lokaðist. Það var eitthvað sem ég afneitaði. Ég fór eflaust í einhverja afneitun gagnvart heiminum út af því að heimurinn hafði tekið svo mikið frá mér eða Guð eða hver sem það var. Það vantaði svör eða eitthvað. Mér leið ekki vel vegna þess að spurningunum mínum var ekki svarað.“

Roy Rogers á meðal föðurímynda

Eins og þegar hefur komið fram á Hermundur þrjár hálfsystur og einn albróður sem er yngri en hann. „Ég tók við hlutverkinu að gæta hans stóran hluta af lífinu. Það var oft þannig að ég vildi ekkert endilega vera að passa hann. Ætli ég hafi ekki verið svona þriggja ára og átti að passa hann í Hveragerði. Ég var ekkert til í að gera það. Ég rúllaði honum bara út í læk í barnakerrunni en sem betur fer var lækurinn svo grunnur að vatnið fór varla yfir dekkin. Ég gat ekki losnað við hann þarna.“

Hann hlær. „Ég mátti ekkert vera að því að passa hann, skilurðu. En samt passaði ég hann í rauninni allt mitt líf.“

Hann segir að uppáhaldsleikirnir hafi verið fallin spýta, landaparís og alls konar venjulegir krakkaleikir.

„Þetta var öðruvísi eftir að ég flutti til Reykjavíkur en þá var maður í kúrekaleikjum. Indíánar og kúrekar; við vorum eins og bíómyndahetjurnar. Við vorum að upplifa vestrið í sjónvarpinu. Roy Rogers og allt þetta. Það var ofsalega gaman að horfa á þetta. Þetta mótaði einhvers konar karlmennsku í manni; krakkar sem eiga ekki föður leita kannski í einhverjar ímyndir í bíóhetjunum. Með aldrinum sá maður að þetta var bara bíómynd og afskaplega vitlaust af manni. En svona virkar hugurinn.“

Fjölskyldan átti hund og kött þegar þau bjuggu í Hveragerði.

„Mér þótti vænt um hundinn sem við áttum í Hveragerði. Kátur hét hann. Ég man vel eftir honum. Mér fannst hann vera yndislegur. Svo vorum við líka með kött. Ég man ekki hvað hann hét. Kátur var tekinn frá mér þegar við fluttum í bæinn. Þá var hann fjarlægður.“

Hermundur var að verða fimm ára þegar móðir hans og systkini fluttu til Reykjavíkur.

„Það geta orðið miklar breytingar þegar barn upplifir það að allt það góða er tekið frá því. Og ekki nóg með það heldur lenti bróðir minn í bílslysi þegar ég var sex ára og hann fjögurra ára. Hann hljóp út á götu og bíll keyrði á hann. Enn einu sinni ætlaði lífið að taka frá mér allt það sem mér þykir gott. Móðir mín var afkastamikil og var á tímabili í þremur störfum og hún ól okkur vel upp. Sálin manns einhvern veginn lokaðist inni í sér. Hún fékk ekki að koma fram.

Maður hefur verið tilfinningalega lokaður þrátt fyrir þessa miklu þörf fyrir að sýna ást. Það gerði það að verkum að maður er frekar varkár við að gefa ekki of mikið og elska ekki of mikið því það yrði tekið frá manni. Kannski er þetta röng hugsun en svona var tilfinningin. Það er margt sem maður þurfti að vinna úr þegar maður eltist og áttaði sig meira á þessum hlutum; hvernig umhverfið, aðstæðurnar, foreldrar og allt í uppeldi okkar mótar okkur. Þetta er fyrsta prógramið sem við fáum.“

Fjölskyldan bjó við Vitastíg í fjögur til fimm ár og Hermundur gekk í Austurbæjarskóla. Umhverfið var frábrugðið náttúrunni við Hveragerði og Hermundur segir að sér hafi fundist það vera spennandi og framandi.

Hann segir að móðir sín hafi unnið mjög mikið eins og þegar hefur komið fram. „Hún vann hjá Sláturfélagi Suðurlands og hún vann í mörg ár á Hótel Holti. Hún vann síðan í Kjötbúðinni Borg og skúraði í Sundhöll Reykjavíkur. Ég skildi ekki hvernig hún fór að þessu með fjögur börn. Við vorum bara svo ofboðslega heppin að nágrannakonur í rauninni tóku mömmu algjörlega undir sinn verndarvæng og hjálpuðu með alla þá hluti sem þurfti. En mamma var aldrei að betla. Mamma vann fyrir sér og þær kannski hjálpuðu og pössuðu þannig að þar eignuðumst við „ömmur“. Viggu og Gunnu. Þetta voru yndislegar konur að Vigastíg 11. Þetta var dásamlegur staður að alast upp á.“

Leikfélagarnir úr klettinum

Hermundur var þriggja eða fjögurra ára þegar móðurafi hans og nafni lést. Hann hafði búið í burstabæ í Landeyjum og segir Hermundur að hann hafi séð afa sinn liggja látinn í rúmi en hann sá hann aldrei settan í kistu en að hann hafi þó séð kistuna uppi á borðum og var búið að loka henni. Hún var síðan færð fram á gang.

„Ég hljóp úr baðstofunni þegar var verið að bera kistuna út; hljóp úr ganginum og inn í búr en þaðan var gengið í fjósið. Svo sneri ég við þegar ég heyrði að mennirnir voru búnir að bera kistuna út og voru farnir. Ég ætlaði að hlaupa út en þá stóð afi við kistuna. Ég stoppaði og hann sagði: „Þetta er allt í lagi, Hermundur minn, farðu bara út að leika þér.“ Og ég hljóp út. Svona sá ég afa minn. Svona sé ég stundum hlutina en ekki alltaf alla daga. Þetta gerist ekkert eftir óskum. Þetta gerist þegar það gerist. Kannski er maður í rétta ástandinu þegar það gerist eða við réttu aðstæðurnar.“

„Ég talaði oft um krakkana í hellinum en það vissi enginn hvað ég var að tala um.“

Hermundur segist ekki hafa umgengist marga krakka þegar hann bjó í Hveragerði. Hann á frændur á sama aldri sem bjuggu þar og segir hann að þeir hafi framið alls konar prakkarastrik.

Hann bjó í húsi fyrir neðan hlíð í bænum og þar fyrir ofan er berg og hellir. Hermundur gekk stundum upp í hlíðina og einn daginn heyrði hann bjölluhljóm sem honum fannst koma úr hellinum. Hann segir að þá hafi hann verið þriggja eða fjögurra ára.

„Þegar ég leit upp sá ég krakka ganga niður úr þessum skúta og koma niður úr berginu og niður hlíðina. Þetta var lítið fjall. Og þar lékum við okkur. Ég man að við vorum að skoða bjöllur og köngulær í móanum. Ég talaði oft um krakkana í hellinum en það vissi enginn hvað ég var að tala um. Ég held ég hafi hitt þessa krakka svona tvisvar til þrisvar sinnum.“

Hann segir að þetta hafi verið álfakrakkar.

„Mig minnir að þau hafi verið í hvítum fatnaði. Þetta voru venjulegir krakkar. Það var eitthvað sem við töluðum saman af því að við virtumst vera að spjalla en ég man ekki eftir neinu samtali sem slíku. Ég hef síðan farið á staðinn og sest niður en hef ekki orðið var við neitt. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið fyrirboði einhvers.“

Hann segist ýmislegt hafa upplifað í sveit sem krakki sem hann getur ekki tengt við annað en eitthvað yfirnáttúrulegt. Hann talar um atburð sem hann og bróðir hans upplifðu einu sinni á bænum. Hann var þá 10 ára og bróðir hans átta ára.

„Það kom mjög sjaldan fyrir að við værum einir á bænum; það var alltaf einhver heima. Einu sinni urðum við þó varir við að við vorum einir og þá ætluðum við að fara að gera einhver prakkarastrik. Við vorum að leika okkur með riffil og púðurskot sem við máttum náttúrlega ekki gera. Eftir fyrsta skotið flúðum við með þetta á sinn stað og lokuðum. Svo skriðum við upp í rúm.

Þar sem þetta var burstabær var háaloft og við heyrðum hljóð berast þaðan. Við veltum fyrir okkur hvað þetta gæti verið; hvað gæti þetta verið annað en mýs? Svo heyrðum við hlera lyft og gengið niður tréstigann. Við veltum því fyrir okkur hvort þetta væri bóndinn á bænum en við vissum að það var enginn kominn heim en bærinn sneri þannig að ljós á ökutækjum lýstu upp baðstofuna þegar ekið var upp hlaðið. Það var stór og mikil trékista inni í eldhúsi og var trégólf þar inni og var kistan dregin eftir gólfinu alveg fram að dyrum. Við sáum síðan að traktor bóndans var ekið upp að bænum og var síðan drepið á honum. Þá var kistunni ýtt af alefli innst að veggnum.

Við heyrðum síðan að tekið var í hurðarhúninn á baðstofunni og ég og bróðir minn héldum að við myndum mæta draugi og skriðum undir sæng. Þá var pikkað í okkur og spurt hvað við værum að bardúsa. Þá var bóndinn kominn. En svakalega var þetta skrýtin upplifun. Þetta er eitthvað sem við getum aldrei skilið með vissu og vitað hvort þetta var afturganga, einhver framliðinn eða ímyndunarafl tveggja ungra drengja. Ég veit það ekki. Trúin getur flutt fjöll.“

Stóð of oft upp

Hann segist oft hafa orðið var við eitthvað í Austurbæjarskóla. „Ég er með dyslexíu.“ Lesblindu. „Þegar ég les línur þá detta þær niður og þarf að vera með bók eða blað frekar nálægt til að halda þeim kyrrum þannig að ég fari ekki að lesa næstu línu. Þetta var svolítið óþægilegt fyrir mig í skóla. Ég sat fremst til að geta fylgst með hvað væri á töflunni. Svo var ég skammaður fyrir að standa upp þegar einhver kom inn.“

Hann hlær.

„Það þótti vera almenn kurteisi í skólanum að standa upp þegar einhverjir aðrir en nemendur komu inn og ég var skammaður fyrir að standa of oft upp. Ég var svo líka skammaður þegar ég stóð ekki upp en þá voru einhverjir raunverulega að koma inn. Þannig að þá færði ég mig aftast í bekkinn til þess að fylgjast með hvenær ætti að standa upp og hvenær ekki en ég átti þá erfiðara með að fylgjast með á töflunni.“

Hermundur sá einfaldlega fleiri koma inn í stofuna en sem aðrir sáu.

„Ég tók upp á því að leika trúðinn í vinahópnum. Ég reyndi að fá athygli vinanna. Ég var alltaf að forðast eitthvað. Tilfinningar eða eitthvað. Þannig að eflaust fer maður í eitthvað hlutverk til að þóknast hégómanum. Ég er með mín sár í mínu litla hjarta en ég er búinn að líma þau með gulli og ég horfi þá á þetta sem yndislega reynslu. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi.“

Þótt hann hafi átt góða vini segist hann aldrei hafa átt heima í þessum félagslega hópi sem vinirnir voru í.

„Ég var ekki beint þessi strákur sem fór út á verkstæði með þeim að gera við bílana. Ég átti yndislega æskufélaga og það var gaman með þeim þótt mér fyndist ég ekki eiga beint heima í þessum hópi. Ég hafði meiri áhuga á stjörnum og öðru slíku. Það fannst mér vera áhugaverðara. Ég skildi stelpurnar betur heldur en strákana þegar þær voru að tala um tískuna – ég vissi hvað þær voru að tala um.“

Hann segir að eftir að hann varð unglingur hafi hann lokast þegar kom að andlegum málum.

„Ég fór meira í að verða strákurinn sem ætlaði að verða ástfanginn. Það var allt önnur hugsun. Þetta var eiginlega lokað frá unglingsárum og fram til rúmlega tvítugs.“

16 ára í sambúð

Hermundur fór snemma í sambúð. Hann eignaðist kærustu 15 ára og fóru þau að búa saman ári síðar. Þau voru saman í 22 ár og eiga tvær dætur.

Hvernig var að verða faðir?

„Það var dásamleg tilfinning en um leið var ég svakalega hræddur. Ég var svo hræddur. Nú var lífið komið á herðarnar á mér og nú þurfti ég að standa mig og mátti ekki brotna. Ég mátti ekki brákast eða gera neitt. Það mátti ekkert koma fyrir mig. Það var einhver sem reiddi sig á mig. Þetta var skrýtin tilfinning. Svo þegar yngri dóttir mín fæddist fjórum árum seinna var óttinn ekki eins mikill. Ég var búinn að fá smá æfingu og vissi við hverju ég mátti búast.“

Dæturnar fæddust árin 1986 og 1990 og á Hermundur fjögur barnabörn sem eru 17 ára, 13 ára, fimm ára og svo er eitt nokkurra mánaða gamalt. Hann segist oftast hafa vitað að dæturnar væru orðnar ófrískar áður en þær tilkynntu það.

Hermundur segist hafa hellt sér út í vinnu eftir að skyldunáminu lauk.

„Svo stundaði maður böllin, partíin og djammið á þessum árum. Maður var frjáls 16 ára gutti og þóttist vita allt og geta allt. Þetta var æðislega skemmtileg reynsla. Lífið er erfitt. En það er ofboðslega skemmtilegt. Maður þarf bara að sjá það skemmtilega í þessu erfiða. Báturinn fer niður og kitlar mann í magann og svo fer hann upp og þá lyftist maginn og maður verður hræddur. En lífið er bara svona.“

Hermundur fór ekki aftur í skóla eftir að grunnskólanáminu lauk. Hann fór 15 ára gamall að vinna hjá Sláturfélagi Suðurlands og tveimur árum síðar fór hann að vinna í Húsasmiðjunni til dæmis á lager og þar vann hann í níu ár. Hann vann síðan í níu ár sem öryggisvörður hjá Securitas og síðan í níu ár hjá Sjóklæðagerðinni. „Maður vann myrkranna á milli. Þetta var ótrúlegur tími.“

Andlegu málin

Hermundur vann við framleiðslu á gúmmívettlingum hjá Sjóklæðagerðinni og var almennt með heyrnartól á eyrunum og hlustaði oft á þáttinn Maddama, kerling, fröken, frú. Hann hringdi stundum í umsjónarmann þáttarins í beinni útsendingu og í eitt skiptið vann hann vinning sem var miðilsfundur.

„Ég fór á þann miðilsfund og sagði miðillinn að ég hefði andlega hæfileika. Ég vissi ekkert hvað það var. Í rauninni man ég lítið eftir þessum fundi. Þetta var annaðhvort írsk eða skosk kona sem var miðill. Ég hef hlegið að þessu en mér var sagt að það væri einhver munkur í kringum mig og svo hefur mér verið sagt að það sé einhver indíáni í kringum mig. Svo hefur verið sagt að það sé einhver Egypti í kringum mig. Það er líka einhver Japani í kringum mig. Ég er alveg hættur að hlusta á þetta. Mér kemur það bara ekkert við hvort það sé Japani, eskimói, svertingi, gulur maður eða hvað það er. Það skiptir engu máli. Sumir stæra sig af því að vera með indíána með sér eftir að miðill hefur sagt þeim það.“

Hann dæsir.

„Að skreyta sig með fjöðrum sem sjást ekki!“

Indíánafjöðrum.

„Miðillinn sagði að ég hefði andlega hæfileika sem ég þyrfti að láta virkja. Þar af leiðandi fór ég til hjóna sem voru að kenna um andleg mál og þau leiddu mig í gegnum þetta. Þetta var hópur sem kom saman og við fórum í andlegar hugleiðingar og æfingar og reyndum að virkja þetta. Kannski var þetta ekki rétta leiðin fyrir mig að fara en ég fann mig ekki beint í þessu. Ég gat farið í hugleiðslur. Það var ekki fyrr en ég sá talnaspekina. Mér var sýnt kort og þá opnaðist eitthvað innra með mér. Ég skildi eitthvað. Það var eitthvað sem talaði til mín og þá fór ég að læra talnaspeki hjá Guðbjörgu Hermannsdóttur.“

Hermundur segir að sér hafi þrátt fyrir allt fundist hann vera kominn „heim“ þegar hann var á námskeiðinu hjá hjónunum þar sem þar var fólk sem skildi hvað hann var að tala um.

„Ég var 32 ára en fram að þeim tíma fannst mér ég vera lokaður gagnvart þessu. Það virtist enginn skilja þetta. Það hafði ekki verið hægt að tjá sig um þessa hluti, skynjanir eða tilfinningar en þarna opnaðist fyrir mér heimur. Ég var bara kominn heim sem voru andlegu málin. Og þar með hellti ég mér svo heiftarlega út í þetta að það var eiginlega orðið að þráhyggju. Ég hellti mér út í djúpu laugina og þar var ég næstum því drukknaður. Það hafði þau áhrif að það kostaði jafnvel skilnað.

Andlegu málin voru mér mjög erfið þroskalega. Ég ætla ekkert að stæra mig af því að ég þroskaðist af þessu. Ég sé eftir hlutum sem ég hef gert en það hefur ekki verið eftirsjá. Alls ekki. Þetta eru hlutir sem maður lærir af. En þegar maður fer í gegnum þessi andlegu mál og því dýpra sem ég fór inn í þessi andlegu mál; það kom í ljós afbrýðisemi og samkeppni. Mér fannst slíkt ekki eiga heima í andlegum málum en þetta kom bersýnilega í ljós. Og það var verið að berjast á andlega sviðinu hjá þessum miðlum. „Þú færð fleiri kúnna heldur en ég!“ Og baktal. Miðillinn er nú ekki heilagur. Ég baktala ekki annað fólk sem ég þekki ekki einu sinni. Ég get sagt skoðun mína en ég hef ekki þörf fyrir að baktala einhvern sem ég þekki ekki. Það væri heimska að baktala einhvern sem ég þekki ekki.“

Það á líka við um alla aðra.

Sér hann látna?

„Það kemur fyrir.

Skynfæri mín eru ekkert endilega tengd sjóninni. Þegar ég sé eitthvað eða verð var við eitthvað þá er það inni í höfðinu á mér. Ég fæ stundum orðsendingar inn í höfuðið á mér og ég fæ kannski myndir þaðan en ég fiska ekkert eftir því. Ég hef aldrei verið það öflugur að ég geti tengt mig við framliðna.“

Svipað og stjörnuspeki

Aftur að talnaspekinni sem Hermundur segir að sé 1100-1200 ára gamalt fyrirbæri. „Þetta er frá Pýþagórasi. Þetta er mun eldra en stjörnuspekin. Stjörnuspeki og talnaspeki er í rauninni það sama en öðruvísi lesið úr því.“

Talnaspekingurinn segir að fólk þurfi ekki að vera næmt til að verða talnaspekingar. „Það geta allir lært þetta. Þetta er nákvæmlega eins og með tarotspil. Þú lærir reglurnar í tarotspilum. Þegar ég byrjaði að spá fyrir fólki; almáttugur hvað mér fannst ég vera lélegur. Mér fannst ég ekkert kunna og vissi ekkert hvað ég átti að segja. En svo þegar ég fór að horfa betur á kortin með tímanum, persónuleikann sem og straumana sem koma til dæmis úr nafni viðkomandi þá skapast einhver önnur sýn. Talnaspekin sýnir til dæmis möguleikann á frjósemi og ást og samskiptum við nýtt fólk. Tölurnar sýna mér ýmislegt og út frá þeim finn ég tilfinningu.

Þegar ég horfi á tölur þá segja þær mér eitthvað allt annað heldur en bara einn eða tveir. Það fylgir þessu eitthvað sem ég á erfitt með að útskýra. Ég sé til dæmis tölustafinn einn sem karlmannlega orku – sá sem stendur einn er sjálfstæður hvort sem það er karl eða kona. Sjálfsöryggi skapar persónuleika hvort sem það er karl eða kona. Þannig að ég finn karlmannlega orku í gegnum töluna einn. Og það getur verið karlmannleg orka í konum. Konur átta sig kannski ekki á því að sjálfsöryggi er karlmannleg orka.“

Hann viðurkennir að stundum séu tímarnir sínir eins og þerapía.

„Þetta er samtal manneskjunnar við sjálfa sig í gegnum mig af því að þegar við tölum saman koma upp alls konar mál sem manneskjan hefur ekki séð áður eða áttað sig á. Hún fær stundum lausnir bara með því að tala. Það er ekki endilega talnaspekin sem segir þér að þú eigir að gera hlutina heldur er talnaspekin að segja þér hverjir möguleikarnir á komandi tíma geta verið. Þá er það spurningin hvernig við höfum komið úr árinu sem við erum að koma úr. Það sem við sköpum á undan kemur í ljós fyrir framan okkur. Og það er það sem við þurfum að vera meðvituð um í lífi okkar. Ekki skapa þér kaos ef þú vilt ekki kaos. Ekki vera að eltast við eitthvað. Ég vil frið; vertu þá friður. Ég vil hamingju; vertu þá hamingja.“

Hvernig get ég útskýrt þetta?

Um 20 ár í fullri vinnu sem talnaspekingur. Aðstæður breyttust í hruninu og nú er það aukavinna. Hvað stendur upp úr varðandi þennan feril sem talnaspekingur?

„Það er svo margt sem ég hef farið í gegnum og sem ég hefði engan veginn trúað að myndi nokkurn tímann gerast. Ég hafði einhvern tímann spáð fyrir manneskju og henni fannst það vera svo mikil vitleysa og þvæla að hún skildi ekkert í sér að hafa eytt peningi í að koma til þessa hálfvita og fannst að þetta væri illa eyddur peningur. Henni fannst fundurinn hjá mér vera svo lélegur. Hún var einstæð móðir og öryrki sem bjó í félagslegri íbúð og ég sagði á fundinum að hún myndi fara í ferðalag þar sem hún myndi kynnast manni og myndi síðan flytja á heitari stað. Systir hennar bjó í Noregi og um hálfu ári síðar bauð hún henni til Noregs og þar kynntist hún manni sem er Portúgali og matreiðslumaður og þau opnuðu veitingahús í Noregi og ráku hann í einhvern tíma.

Svo lokuðu þau honum og fluttu til Portúgal og opnuðu þar tvo veitingastaði. Þessi manneskja kom svo aftur til mín og sagðist skammast sín fyrir að hafa hugsað illa til mín af því að það hafði verið svo þversagnakennt að ég gæti séð svona hluti. Ég veit ekkert hvernig ég á að útskýra þetta. Hvernig get ég útskýrt þetta? Hvaðan kemur þetta? Þegar ég opna mig inn á andleg mál þá nota ég tölu; þá tengi ég mig yfir og dýpka tenginguna. Ég veit það ekki. Ég undirbý mig oftast áður en einhver kemur; þá kannski gef ég mér hálftíma í að hlusta á rólega tónlist og pæli í engu. Losa mig við daginn. Stari út í loftið af því að ég held að besta hugleiðslan sé að stara því þá hugsar maður ekkert. Það er málið. Finna bara ró. Undirbúa sig.

Ég hef yfirleitt rólegt í kringum mig. Ég er lítið fyrir að hafa ys og læti. Ég fer aðeins yfir kort þess sem er að koma og tengi mig aðeins inn á viðkomandi. Svo þegar manneskjan kemur fer ég að lýsa fyrir henni talnaspekinni og því sem ég sé. Sumir vilja vita hvað þeir voru í fyrra lífi. Það er hægt að finna það út með talnaspeki. En hver er tilgangurinn að finna út hvað viðkomandi var í fyrra lífi ef hann getur ekki lifað eins og hann er að lifa núna?

„Ég var bara kominn heim sem voru andlegu málin. Og þar með hellti ég mér svo heiftarlega út í þetta að það var eiginlega orðið að þráhyggju. Ég hellti mér út í djúpu laugina og þar var ég næstum því drukknaður. Það hafði þau áhrif að það kostaði jafnvel skilnað.“

Allt þetta fólk sem hefur komið til mín í lestur eða annað slíkt; ég veit ekki hvort ég hafi hjálpað einhverjum. Það má vel vera. Ég hef fengið hringingar og fólk hefur sagt að ég hafi bjargað hinu eða þessu og ég er mjög þakklátur fyrir það.

Það hefur komið til mín alls konar fólk. Mér finnst allir hafa verið jafnmerkilegir sem hafa komið til mín; allar sögurnar og reynslan sem ég hef fengið með þessu fólki. Mér eru sagðir alls konar hlutir. Og þegar ég er búinn með fund þá er fundurinn farinn. Ég man ekkert hvað var sagt því ég pæli ekki í því. Fólk heilsar mér kannski tveimur árum síðar og segist hafa komið til mín og spyr hvort ég muni ekki hvað ég sagði. Nei, ég get ekki munað það. Ég hef kannski verið að taka átta manns á dag dag eftir dag. Það er ekki séns að ég muni það sem ég sagði við fólk, enda er það ekki mitt að bera.

Ég er bara millistykki. Ég leiðbeini fólki að finna réttu leiðina eða gefa því sjálfsöryggi eða þá lyfta upp anda þínum – hvað sem það er sem þú sækist eftir þegar þú kemur til mín. Fólk hefur sagt að ég eigi að taka jafnmikið fyrir og sálfræðingur. Ég hef ekki þörf fyrir það. Ég er ekki að þessu fyrir peninginn. Ég er að þessu vegna þess að ég veit að einhvers staðar get ég vonandi hjálpað. Og peningurinn er kannski réttlát borgun fyrir tímann sem ég gef. Æ, ég veit það ekki. Það verður enginn ríkur af því að vera miðill. Ég er talnaspekingur en sumir kalla mig miðil en ég er það ekki. Ég er með þennan hæfileika að sjá og skynja.“

Hann spáði um árabil fyrir fólki í útvarpsþáttum. „Það gekk vel en ég var farinn að endurtaka mig og þess vegna hætti ég. Ég var alltaf að segja sömu hlutina um sömu tölurnar. Það var komið nóg.“

Hermundur segist í gegnum tíðina hafa enst í störfum upp í níu ár.

„Það er svo merkilegt og ég veit ekkert af hverju það er en þegar maður skoðar talnaspekina, sem ég horfi mikið til og eru mikil fræði fyrir mér, þá er hringrás lífsins eða hvert tímabil níu ár. Út frá fæðingardeginum okkar fáum við örlagatölu eða lífstölu. Svo kemur hringrásin frá ári til árs þannig að það breytist á hverju einasta ári talan einn upp í níu. Viðkomandi gæti verið á fjórða ári hringrásarinnar og er toppurinn á fimmta ári. Þá er sumar og besti tíminn til frelsis, ánægðu, gleði og til að opna hugann. En um leið og viðkomandi er kominn í níunda árið, sem er vetur, þá þarf að skoða fortíðina og sjá hvað er óklárað í fortíðinni eða á árinu og klára það. Vinna úr því. Sleppa því, losa sig við það eða hvað sem er. Ekki hafa það hangandi yfir sér þegar þú byrjar nýja hringrás á nýju vori. Það skiptir svo miklu máli hvernig við sjáum lífsgöngu okkar í lífinu. Þessi níu ára hringrás finnst mér mjög merkileg því að ég hef alltaf verið í níu ár í vinnu. Mér finnst það magnað.“

Hermundur fæddist 4. júní og segir hann töluna tengjast því að hann vilji helst vinna með höndunum og segir hann þetta vera vinnutölu; vinnuorku.

„Aftur á móti er örlagatala mín átta sem tengist vinnu í hinum efnislega heimi. Áttan í mér á að hafa þá reynslu að vinna í umhverfi þar sem þú skapar sjálfum þér ánægju en um leið skapast ánægja í kringum aðra. Ég vona að ég skapi að minnsta kosti hlátur í vinnunni. Það er alltaf gaman í vinnunni; við erum alltaf eitthvað að grínast og djóka,“ segir Hermundur um núverandi vinnustað þar sem hann vinnur sem bílstjóri.

Hermundur er maður með sál og hjarta sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Hvað gerir hann sjálfur? Hefur hann farið til talnaspekings eða miðils frá því þegar hann fór fyrst þegar um var að ræða vinninginn í útvarpsþættinum Maddama, kerling, fröken, frú?

„Já, ég hef gert það meira að gamni mínu. Á meðan ég var meira í þessum andlegu málum leitaði ég til miðla ef ég þarfnaðist einhverrar staðfestingar fyrir sjálfan mig og fyrir egóið mitt.“

Gagnrýnin réttmæt

Það hafa ekki allir trú á talnaspekingum og miðlum. Hvað segir talnaspekingurinn um gagnrýnisraddir?

„Það er allt í lagi. Það er gott að fá gagnrýnisraddir. Þá gerir þú aðeins betur. Það er alltaf þannig. Það er alltaf gott að fá gagnrýni. Jú, jú, ég er ábyggilega viðkvæmur fyrir gagnrýni en ég ætla ekkert endilega að láta það segja mér hver ég er þó ég fái gagnrýni og einn fundur hafi verið lélegur. Auðvitað hafa verið góðir fundir og lélegir fundir. Það er allt upp og niður. Sumt hefur tekist og sumt hefur ekki tekist. Þannig er bara með allt í lífinu. Það mega allir hafa sína skoðun. Við höfum tjáningarfrelsi. Og gallinn er að við megum ekki lengur tjá okkur og það er miður. Fjölmiðlamenn þurfa að stoppa þessa öldu. Þessa þöggun í öllu.“

Hann segist taka gagnrýni hóflega nærri sér.

„Ég tek hana ekki sem sársauka. Ég mótast ekki miðað við gagnrýni á mig. Ég frekar skoða það til að sjá hvort það sé rétt. Hvort það geti verið rétt. Og ef ég vil breyta þá breyti ég því. Það er allt undir mér komið hver ég er af því að ég hugsa. Við erum alltaf að reyna að þjóna öðrum og gera öðrum til hæfis.

Af hverju erum við endalaust að leita eftir samþykki heimsins? Alheimurinn er búinn að fæða okkur inn í hann. Við erum til. Hvers vegna þurfum við meira samþykki? Við erum eins og tölvukubbur sem er mótaður af umhverfinu, upplýsingum um hver þú ert og hvað þú átt að hugsa um, hvaða þjóðar þú ert, hvaða trúar þú ert og hvað er vinsælt.“

Hvað með þá pælingu að ekki eigi að leita frétta hjá framliðnum?

„Af hvaða þörf fer maður til miðils? Til að fá svör. Er það ekki réttlátt að fá svar? Og það er æðislegt ef maður fær svar hjá miðli og telur sig hafa fengið svar. Heilun fer þannig fram að þegar þú biður einhvern að biðja fyrir einhverjum þá ertu þegar búinn að heila. Það ert þú sem heilar. En við þurfum alltaf millistykkið til að trúa á eitthvað sem gerir gott. Og það er líka gott. Ef okkur þykir gott að senda beiðni um bæn fyrir einhvern þá er æðislegt ef þú getur hringt í einhvern eða talað við einhvern um það og hann segist ætla að biðja fyrir manneskjunni. Þér líður vel og þú ert þegar búinn að senda heilunina. Það ert þú sem heilar. Þú biður.“

Ástin

16 ára í sambúð.

Hvað er ástin í huga talnaspekingsins?

„Ef ég gæti sagt þér það þá myndi ég hætta að elta hana. Nei, nei, ég er löngu hættur að elta ástina. Ástin er eitthvað sem maður finnur innra með sjálfum sér að manni líður vel í. Það er ást þar sem maður finnur eitthvert öryggi og traust og maður fær að vera bara eins og maður er. En það verður hver og einn að vega það og meta fyrir sjálfan sig hvað honum þykir gott og hvernig hann sér ást. Ást er eitthvað sem er allt í kringum mann. Hún er inni í okkur. Við þurfum bara að læra að elska okkur sjálf. Það held ég að sé erfiðasta verkefnið í heiminum. Við getum endalaust leitað eftir henni og ætlast til þess að aðrir elski okkur. Aldrei getum við verið ástfangin af okkur sjálfum og liðið vel í okkar eigin skinni og verið þakklát fyrir að hafa komist alla þessa leið þrátt fyrir það sem við erum búin að ganga í gegnum.“

Tvö hjónabönd að baki. Tveir skilnaðir. Hvernig reynsla var það?

„Að skilja við barnsmóður sína er alltaf ofboðslega erfitt. Ég held að það sé erfiðast fyrir alla að skilja við barnsmóður sína eða barnsföður af því að þetta fer allt á börnin. Og það er ennþá verra. Þetta er eins og tré sem ræturnar eru hoggnar af að hluta til; helmingurinn af greinunum deyr. Það er ekki gott. Þegar ég skildi í seinna skiptið þá var það líka að mörgu leyti erfitt en á allt annan máta.

Ég sé hlutina frá allt öðru sjónarhorni í dag. Þegar ég horfi í baksýnisspegilinn þá horfi ég ekki á einhvern sársauka og hugsa „ég hefði átt“ – ég horfi á reynsluna mína og vá! Sjáðu staksteinana sem ég get stigið á og trítlað yfir ána. Ég ætla ekki að bera þetta á bakinu á mér. Ég ætla að hafa þetta með mér í vasanum og vera með alla mína reynslu. Reynsla mín er ekkert betri en annarra manna reynsla. Við förum öll í gegnum reynslu. Þetta er bara spurning hvernig við ætlum að nýta þessa reynslu. Ætlum við að gera aftur sömu mistök og endurtaka alltaf það sama? Og svo skiljum við ekki af hverju það breytist ekki neitt. Þegar við erum í erfiðu umhverfi og erum kannski brotnar sálir þá getum við valið að vera brotna sálin eða sterka sálin sem er búin að líma sig saman og gylla með gulli öll sín brot.“

Að öskra upp í vindinn

Talnaspekingurinn er mannlegur og gerir sín mistök og upplifir hæðir og lægðir.

„Við rekum okkur á. Það er bara þannig. Og maður hefur rekið sig á.“

Og stundum er þetta sárt.

„Það er góð aðferð að fara til dæmis niður í fjöru eða upp á fjall þar sem enginn heyrir í manni og ef maður er með gremju innra, eitthvað sem þarf að losa, þá á bara að fara út og byrja að tala við hana og öskra. Við þurfum að hreinsa innan úr okkur. Það er ekki nóg að fara í líkamsræktina, hamast, verða líkamlega þreyttur og höfuðið of dofið og geta ekki hugsað um þennan sársauka. Það er innan úr okkur sem hlutirnir þurfa að fara. Sumir gera það með því kannski að tjá sig í gegnum listina sína því þeir eiga kannski erfittt með það á annan máta.

Ég hef vanist öllum þeim breytingum sem ég hef gengið í gegnum sama hversu erfiðar eða flóknar þær eru. Það skellur á manni alda og maður er kannski ekki viðbúinn en svo skellur á manni önnur alda og maður er þá viðbúinn. Þannig að lífið byggir á þessari reynslu að vera viðbúinn þannig að við megum ekki sjá framtíðina með einhverjum ótta. Þegar við hugsum of mikið um það og sendum of mikið af þessum hugsunum frá okkur af ótta og hræðslu þá erum við alltaf að hlaða ofan á það vonda. Það á að hugsa jákvætt.“

Talnaspekingurinn hefur farið niður í fjöru og upp á fjall og öskrað upp í vindinn þegar eitthvað hefur legið á honum og þegar hann er ekki sáttur.

„Ó, já. Ég öskra svo mikið. Ég hef öskrað allt upp í tvo tíma. Ég hætti ekki fyrr en ég er orðinn hás. Svo fer ég heim og er allur uppgefinn inni i mér. Þetta er svo gott. Það eru öll líffæri laus við hnútana og allt þetta sem við erum að hlaða inn á líkamann með streitu. Svo fer ég daginn eftir og byrja að öskra aftur hás og öskra þar til ég fæ röddina til baka. Maður einhvern veginn uppgötvar röddina í sér miklu sterkari eftir svona hreinsun.“

Hermundur segir að það sé langt síðan hann öskraði síðast upp í vindinn. Það hefur þá verið lygnara í lífi hans en áður.

„Ég er kominn á þann stað í lífinu að ég þarf ekkert endilega að vera alltaf að öskra. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir. Við getum öll ákveðið að halda áfram að lifa og sleppa fortíðinni og láta hana ekki alltaf vera hangandi yfir sér. Ég er svo laus við fortíðina mína. Ég er sáttur við hana. Það er margt ofboðslega gott í reynslunni minni sem ég get tekið með mér. Sársauki minn gagnvart skilnaðinum við barnsmóður mína tengist því hvað ég gerði börnunum mínum. Það er stærsti og erfiðasti þátturinn kannski í fyrirgefningunni eða við að sætta sig við farinn veg og sjá að maður getur engu breytt heldur segja frekar að þetta sé reynsla sem ég þurfti að fara í gegnum. Börnin mín þurftu að fara í gegnum hana. Þetta er það sem gerði þau sterkari. Kannski undirbúnari fyrir lífið.“

Hermundur segir að fyrir utan dæturnar tvær, sem séu það besta sem hann hefur eignast og sem hann er stoltur af, sé tækifærið til að þess að fá að vera einn það besta sem hann hefur fengið í lífinu.

„Einveran hentar mér ofboðslega vel. Ég er félagsfælinn að vissu leyti. Ég get vel farið og hitt fólk og talað við fólk en þegar ég fer til dæmis í mannþröng eða kem inn á stað þar sem er mikið af fólki, hvort sem það er bar eða eitthvað annað, þá glymur svo mikið í höfðinu á mér. Ég get ekki útskýrt þetta öðruvísi. Það er eins og það heyrist í pottum og pönnum ef maður er að reyna að hlusta á fólk. Þetta er ofboðslega vont fyrir mig og ég vil helst ekki vera í svona umhverfi. Ég var meira að segja svona þegar ég var krakki og unglingur þegar ég fór að skemmta mér. Ég gat aldrei verið ánægður með að fara á böll. Þetta er bara í mér; ég hef alltaf verið með þessa þörf fyrir að hafa þögn og vera í fámenni.“

Í sundskýlunni í rigningu

Hermundur segist vita að það eigi ýmislegt eftir að gerast í sínu lífi sem hann segir að verði ábyggilega ofboðslega gaman og spennandi. Hann leggur áherslu á að láta sér líða vel. Hann vill ekki skapa vandamál, búa til spennu, leiðindi eða þras.

„Mér fannst alltaf leiðinlegt að skara flórinn. Alltaf þegar maður var búinn að skara flórinn þá skitu kýrnar aftur og þá skaraði maður flórinn aftur. Þetta finnst mér vera gott mottó. Hætta að skara flórinn. Það er bara þannig.

Ég held að líf mitt fram undan eigi eftir að verða gott og ég finn fyrir tilhlökkun. Hver einasti dagur sem ég fæ að vakna; Guð, hvað ég er þakklátur fyrir það. Verum ekki að láta veður hafa áhrif á okkur. Það er sól í okkar sinni, er það ekki? Það er undir okkur sjálfum komið hvernig okkur líður í rigningunni. I’m Dancing in the Rain var vinsælt lag á sínum tíma. Það er æðislegt að hafa það í huga þegar rignir. Ég held að fólk ætti að gera meira af því. Fólk tekur kannski ekki eftir því og ég vona að það geri það ekki en þegar er hellidemba úti fer ég í sundskýluna mína og fer út á svalir og leyfi rigningunni að rigna yfir mig. Þetta er sólbað. Veistu út af hverju þetta er sólbað? Sólin er búin að hlaða regndropana fulla af sól og vítamínum og þá fer þetta allt yfir mig. Og þetta geri ég oft. Stundum sest ég í sólstól og læt rigna á mig. Þetta er yndisleg tilfinning.“

Nágrannar hafa ekki sýnt nein viðbrögð.

„Það hefur enginn kvartað og ég hef heldur ekki fengið blístur.“ Talnaspekingurinn hlær. „Ég leyfi mér að lifa akkúrat svona. Þetta er kannski það sem við ættum að gera meira af; ganga oftar berfætt í náttúrunni. Það er yndislegt að finna jörðina undir fótum sér. Hún nærir hverja einustu frumu.“

Dauðinn

Talnaspekinguirnn varð 64 ára í sumar. Áður fyrr var hann hræddur um að hann dæi 46 ára gamall en faðir hans var einmitt 46 ára þegar hann lést.

„Ég fór til miðils sem sagði að það yrði ofboðslega mikil breyting þegar ég yrði 46 ára og hann sagði að það væri mikið hvítt ljós í kringum mig. Ég spurði hvort ég væri þá að drepast en miðilinn sagði að svo væri ekki og að hvítt ljós þurfi ekki að tákna dauða en ég var ákveðinn í að það yrði af því að pabbi dó 46 ára. Svo varð ég 46 ára og var einhvern tímann að keyra frá Reykjavíkurflugvelli með mína fyrrverandi seinni konu til að keyra hana til Sandgerðis.

Pabbi dó úr heilablóðfalli og allt í einu var eins og slanga springi í höfðinu á mér. Ég fann að ég byrjaði allur að dofna. Ég var að missa máttinn og ég var orðinn þvoglumæltur. Ég hugsaði með mér að ég væri að fá heilablóðfall, ég væri 46 ára og nú dæi ég. Og ég hélt ég myndi deyja. Svo þegar ég var kominn upp á sjúkrahús var mér sagt að ég hefði fengið heiftarlegt mígrenikast sem var ekki rétt en þeir sáu síðar að þetta hafði verið heilablóðfall. Í mörg ár var ég oft með mígreni. Og það er skelfileg upplifun. Sama hversu mjúkur koddinn er þá er hann alltaf harður. Og maður kastar upp. Þetta er ógeðslegt. Eftir að ég fékk svo heilablóðfallið 46 ára gamall fékk ég ekki aftur mígrenikast.

Svo fékk ég aftur tappa í heilann árið 2018, þá 58 ára. Ég fór á spítala og það gekk til baka.

Ég er orðinn 64 ára. Núna er ég orðinn þetta fullorðinn og ég hugsa með mér að ég veit að næsta heilablóðfall getur orðið verra eða mitt síðasta. Móðir mín dó þegar hún fékk blæðingu inn á heilastúku. Hálfsystir mín í föðurætt hefur líka fengið heilatappa. Þetta er kannski ættgengt. Minn tími mun koma einhvern tímann og ég get ekkert gert í því þegar hann kemur. Hann kemur hvernig svo sem það gerist.“

Óttast Hermundur dauðann?

„Nei. Jú. Bæði og. Þetta er eitthvað sem maður leiðir ekkert mikið hugann að fyrr en það gerist. Þegar ég fékk heilablóðfallið í seinna skiptið var ég ekkert að pæla í því að ég væri að deyja. Ég var að vissu leyti hræddur um að nú væri eitthvað að gerast, nú myndi ég missa máttinn og þurfa að læra að ganga á ný og tala á ný og fara í endurhæfingu. Sem betur fer gekk þetta til baka á einum eða tveimur dögum, Guði sé lof. Ég þakka heilladísunum fyrir það. Minn tími mun koma eins og einhver sagði og þá hverf ég ekki bara úr þessum heimi heldur mun þessi heimur hverfa fyrir mér. Og ég mun aldrei aftur sjá þennan heim. Og það er sárt.

Dauðinn er svo óraunverulegur þegar maður hugsar út í hann. En í ferðalaginu þegar maður verður eldri þá finnst manni maður nálgast Guð sinn meira. Ég tala orðið meira við Guð. Það er eitthvað sem ég var aldrei að pæla í og jafnvel afneitaði á sínum tíma. Ég trúði ekki að Guð væri til. Ég veit ekkert hvort hann sé til. Ég hef ekki hugmynd um það. Tilfinning mín gagnvart því að trúa að Guð sé til er barnstrú mín. Ég vil að minnsta kosti hafa hreinar dyr fyrir Guði mínum þegar ég kem ef ég þarf á því að halda.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld
Fókus
Fyrir 3 dögum

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“