fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Segir Samfylkinguna hafa fórnað grunngildum og svara gagnrýni með gaslýsingum og hroka – „Dapurleg örlög jafnaðarflokks“

Eyjan
Föstudaginn 5. júlí 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég sagði mig úr flokknum haustið 2023. Það er óhætt að segja að aðdragandinn að því hafi verið nokkuð langur en þegar þú tilheyrir stjórnmálaflokki, eða hvers konar félagsskap fólks, svo lengi, verður hann hluti af sjálfsmynd þinni og ímynd og það er ekki auðveld ákvörðun að slíta á tengslin, þó þau hafi kannski verið orðin frekar stirð undir það síðasta,“

segir Sema Erla Serdaroglu, aðjúnkt við Háskóla Íslands og stofnandi Solaris um Samfylkinguna. Í færslu á Facebook með yfirskriftinni Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands? fer Sema Erla yfir veru sína í flokknum í tvo áratugi og ástæðu þess að hún sagði sig úr flokknum. Segir hún flokkinn hafa fórnað grunngildum sínum og þá sem gagnrýna stefnubreytingu flokksins og forystuna sökuð um að eyðileggja fyrir flokknum og ganga erinda Sjálfstæðisflokksins.

Sema Erla segir það hátt í tvo áratugi síðan hún mætti á sinn fyrsta fund hjá Ungum jafnaðarmönnum, ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar. „Svo hrifin var ég af áherslu hreyfingarinnar á mannréttindi, jöfnuð og réttlæti að það leið ekki á löngu þar til ég var búin að taka að mér hlutverk innan hreyfingarinnar, sem ég tilheyrði þar til ég varð einfaldlega of gömul til að mega vera hluti af ungliðahreyfingu, en ég var áfram í Samfylkingunni,“ segir Sema Erla.

Gegndi ýmsum stöðum fyrir flokkinn

Frá árinu 2008 gegndi Sema Erla hinum ýmsu stöðum fyrir flokkinn. Sat í fjölda nefnda og ráða, tók þátt í mörgum pólitískum verkefum innanlands sem og utan, verið í framboði til Alþingis og var meðal annars formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi í nokkur ár og um tíma formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, yngst allra sem á þeim tíma höfðu gegnt því embætti.

„Það hefur ýmislegt gengið á þau ár sem ég var í Samfylkingunni og sem ung kona í stjórnmálum lét ég ýmislegt yfir mig ganga. Ég hef verið skömmuð af leiðtogum flokksins fyrir að gagnrýna forystuna þegar þau hafa gefið afslátt af mannréttindum. Ég hef verið hvött til þess að draga gagnrýni til baka, eyða færslum og „fylgja línunni“ ef ég ætlaði mér eitthvað áfram í flokknum. Sem ég gerði að sjálfsögðu aldrei, enda ekki þekkt fyrir foringjadýrkun eða meðvirkni. Ég hef séð og heyrt hvernig flokksfélagar mínir hafa talað og skrifað um mig þegar ég gagnrýni flokkinn en ég lét það ekki hrekja mig úr honum. Ég fór ekki þrátt fyrir að hafa aldrei fengið (opinberan eða óopinberan) stuðning frá  flokknum og forystu hans vegna hatursorðræðu, áreiti, hótana og ofbeldi sem ég sat meðal annars undir daglega þegar ég gegndi embættum fyrir flokkinn.“ 

Ástæðan fyrir að Sema Erla sagði skilið við flokkinn

Sema Erla segir að sér hafi orðið ljóst að hún og flokkurinn ættu ekki samleið lengur „þegar forysta flokksins bauð fjölmiðlakonu, sem hefur um árabil haldið úti hatursorðræðu á útvarpsstöðinni sinni í garð jaðarsettra einstaklinga og hópa, sérstaklega hinsegin fólki og flóttafólki, til samtals um samfélags- og lýðræðismál undir því yfirskyni að hún væri „samfélagsrýnir“ og bjó þar með til vettvang fyrir konu sem ber meðal annars persónulega ábyrgð á því að ég, sem formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sat undir áreiti og hótunum um ofbeldi dögum saman, með herferðum sínum gegn mér þegar ég var í því embætti.“ 

Segist Sema Erla hafa sagt sig úr flokknum stuttu seinna.

Flokkurinn fórni grunngildunum

„Við erum mörg, sem erum virk í mannréttindabaráttu, sem höfum lengið viðrað áhyggjur okkar af því hvert Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands stefnir með nýrri forystu, sem hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna grunngildum jafnaðastefnunnar um mannréttindi, mannúð og réttlæti til þess að sigra kosningar. Málefni flóttafólks, málefni jaðarsettra hópa, frelsi Palestínu og fleiri mikilvæg mál, sem eru á meðal helstu mannréttindamála nútímans, eru einfaldlega ekki á dagskrá hjá Samfylkingunni.“

Segir Sema Erla dæmin einfaldlega orðin of mörg til að hægt sé að reyna að halda öðru fram. 

„Samfylkingin hefur að undanförnu ekki beitt sér með nokkru móti gegn breytingum á lögum um útlendinga og flokkurinn samþykkti í vor breytingar á lögunum sem fela í sér skerðingar á mannréttindum flóttafólks og tækifærum þess til þess að fá vernd á Íslandi, fyrst með því að samþykkja frumvarpið í annarri umræðu á Alþingi og svo með því að sitja hjá í kosningu um lagafrumvarpið í vor.

Það er nokkuð langt síðan Samfylkingin beitti sér sérstaklega fyrir jaðarsetta hópa og réttindum þeirra. Flokkurinn sem beitti sér fyrir því að bráðabirgðalög yrðu samþykkt á Alþingi árið 2017 til að stöðva brottvísun tveggja ungra stúlkna sést nú hvergi þegar brottvísa á ungum dreng með flóttabakgrunn, drengs sem er með Duchenne sjúkdóminn sem þýðir að brottvísun getur verið honum lífshættuleg. Svo mikið hafa mörkin færst til hjá flokknum!

Samfylkingin boðar nú harðlínustefnu í málefnum flóttafólks og tekur þátt í að normalísera útlendingaandúð og andúð í garð flóttafólks með afstöðu- og aðgerðaleysi sínu og með því að segja ekki nokkurn skapaðan hlut þegar valdhafar bera á borð hatursáróður, hatur í garð flóttafólks og gengur erinda síonista, í opinberri umræðu og í pontu á Alþingi! Samfylkingin er nánast ósýnileg á samstöðufundum og mótmælum gegn ríkisofbeldi í garð minnihlutahópa.

Samfylkingin hefur svo gott sem setið hjá á meðan verið er að fremja þjóðarmorð í Palestínu í stað þess að krefja ríkisstjórnina um raunverulegar aðgerðir og svo tekur forysta flokksins þátt í kosningabaráttu breska Verkamannflokksins, sem þessa dagana er einna helst þekktur fyrir að styðja þjóðarmorð í Palestínu, stríðsglæpi ísraelsríkis og transfóbíu!“ 

Áhyggjum af þróuninni mætt með gaslýsingu og hroka

Sema Erla segir að þegar áhyggjur af þessari þróun hafa verið viðraðar „hefur þeim verið mætt með ítrekuðum gaslýsingum og hroka af hálfu forystu flokksins og tilraunir til þess að ræða málin efnislega hafa ekki verið árangursríkar. Við sem gagnrýnum stefnubreytingu flokksins og forystuna erum sökuð um að eyðileggja fyrir flokknum og ganga erinda Sjálfstæðisflokksins (LOL). Í stað þess að vera tilbúin til þess að takast á við málefnalega gagnrýni, ræða áhyggjur okkar og jafnvel íhuga sjálfsskoðun með tilliti til þess hvað flokkurinn er að gera, erum við gerð að óvinum. Hið rétta er hins vegar að þau sem haga sér með þessum hætti eru sínir eigin verstu óvinir.

Ég var í Samfylkingunni þar til ég trúði því einfaldlega ekki lengur að hann væri besti vettvangurinn til þess að vinna að umbótum í mannréttinda- og mannúðarmálum á hinu pólitíska sviði. Það er fátt sem Samfylkingin gerir í dag sem bendir til þess að ég hafi rangt fyrir mér. Það eru dapurleg örlög jafnaðarflokks.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur