„Fólk líkir þessari furðulegu kynningu borgarstjórans í fréttum við að korti af hverfinu hafi verið stillt upp, pílum kastað og svo tússað um þá staði sem pílurnar lentu á,“ segir Árni Guðmundsson, varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs og fulltrúi í íbúðaráði Grafarvogs, um þéttingu byggðar í Grafarvogi sem nýr borgarstjóri hefur boðað.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag, en fyrirhugað er að allt að 500 íbúðir muni rísa í Grafarvogi á næstu árum, sem hluti af átaksverkefni sem var hrint úr vör þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri tók við embætti.
„Við þurfum að byggja upp úthverfin og ég er að gera nákvæmlega það sem ég sagðist vilja gera eftir kosningar og byggja fjölbreytt húsnæði, ekki bara blokkaríbúðir,“ segir Einar. Hann segir að efla þurfi húsnæðisuppbyggingu og það hafi áhrif á efnahagslegan stöðugleika, verðbólgu og hvort fólk sjái tækifæri í Reykjavík. „Það er þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt að við byggjum upp íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga.“
„Þegar þetta var kynnt með mikilli flugeldasýningu í sjónvarpinu af hálfu borgarstjóra þá voru rúmar þrjár vikur frá síðasta fundi í íbúaráði og ekkert var kynnt um þetta þar, það kom mér svolítið á óvart,“ segir Árni. Segir hann íbúum brugðið yfir áformunum og marga á þeirri skoðun að þétting byggðar hafi gengið allt of langt.
Einar segir að eftir sumarfrí verði haldinn fundur með íbúaráði Grafarvogs þar sem áformin verða kynnt. Segir hann að það liggi fyrir að það sé pláss í grunnskólunum í Grafarvogi og vitað sé að styrkja þurfi leikskólamálin samhliða þessari uppbyggingu. Allt skipulagsferlið sé eftir og þá þurfi að taka tillit til sjónarmiða nærsamfélagsins.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.