fbpx
Föstudagur 05.júlí 2024
Eyjan

Jón Sigurður skrifar: Ronaldo og bölvað sjálfstraustið

Eyjan
Sunnudaginn 30. júní 2024 17:30

Jón Sigurður Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt er það atvik sem breytti hjartalagi heimsbyggðarinnar í einu vetfangi. Það var þegar Rögnvaldur Reiginskytta, stundum kallaður Ronaldo, var í dauðafæri en frekar að freista þess að opna eigin markareikning gaf hann tuðruna á félaga sinn sem þurfti þá ekki annað en pota henni í markið. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hjartalag heimsins, sem fram að þessu hafði verið hart gagnvart Rögnvaldi, varð mjúkt og auðsveipt. Allt í einu minntist mannskapurinn þess að hann hefði ausið milljónum í góðgerðarsjóði og aldrei verið neinum til tjóns nema þá kannski metnaðarfullum andstæðingum hans á vellinum. Nú er ég enginn sérfræðingur um hjartalag kappans, hann gæti alteins verið hin mesta bestía, en engu að síður vaknar spurningin, af hverju hann var talið slíkt illþýði í upphafi? Hvernig komst þessi orðrómur á stjá sem í einni svipan virtist svo bara bölvaður misskilningur?

Ja, af hverju hendir manneskjan sér útí þann aur að hafa andúð á einhverjum? Jú, fyrir því liggja auðvitað ótal ástæður og margar eiga eflaust fullan rétt á sér. En það er merkilegt hvað við höfum takmarkaðan húmor fyrir fólki sem gengur vel í lífinu. Ég tala nú ekki um ef það hagar sér einsog það sé vel að velgengninni komið og geti ekki asnast til að gera lítið úr eigin rammleik og þakka árangurinn happi og góðum hjálparhellum.

Stundum finnst mér lítið til þess fólks koma sem mest er hossað. Það kann kannski að koma sér á framfæri og að setja upp gáfulegan svip en skortir þann eiginleika að hlusta á þá sem mæla af meira viti og innsæi. Þá er gott að vitna í speki Bertrands Russells sem sagði að stór partur af vandamálum heimsins væru tilkomin vegna þess að heimskingjarnir væru svo vissir í sinni sök meðan þeir sem meira höfðu á milli eyrnanna væru fullir af efa. Hversu oft höfum við ekki haldið beinustu leið útí mýri því að sjálfsöruggur vitleysingur sannfærði okkur um að einmitt þar væru að finna gull og græna skóga? Sá sem vissi betur var hinsvegar svo feiminn og óframfærinn að hann gat ekki drullast til að ljúka sundur munni.

En Rögnvaldur er svo sem enginn andans leiðtogi og leiðir okkur því hvorki til lands mjólkur og hunangs né útí mýri svo Bertrand dugir kannski skammt í þessum samanburði. Það er eitthvað annað sem kemur hér til.

Það skyldi þó ekki vera að fátt fari mest í taugarnar á okkur en einmitt fólkið sem er með allt sjálfstraustið sem okkur skortir svo sárt?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bjarni hlýtur lof fyrir ræktun

Bjarni hlýtur lof fyrir ræktun
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Útvíkkun þessarar brjálsemi gæti svo verið að innheimta sérstakan skatt af þeim sem eru rauðhærðir eða örvhentir“

„Útvíkkun þessarar brjálsemi gæti svo verið að innheimta sérstakan skatt af þeim sem eru rauðhærðir eða örvhentir“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þetta tvennt skiptir einkum máli fyrir andlega heilsu Brynjars – „Finn fyrir kvíðaverkjum“

Þetta tvennt skiptir einkum máli fyrir andlega heilsu Brynjars – „Finn fyrir kvíðaverkjum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Tölurnar sýna að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er vinstri stjórn – hagstjórnin fyrir neðan allar hellur

Þorsteinn Pálsson: Tölurnar sýna að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er vinstri stjórn – hagstjórnin fyrir neðan allar hellur