Aðalmeðferð í máli Dagbjartar Rúnarsdóttur, sem ákærð er fyrir morð á fyrrverandi sambýlismanni sínum, þann 23. september árið 2023, hófust í Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 9:30 í morgun.
Dagbjört er talin hafa misþyrmt manninum í meira en sólarhring áður en hann lést. Þó liggja fyrir mismunandi álit matsmanna um hvað raunverulega dró manninn til dauða, og er það á meðal þeirra álitamála sem tekist verður á um fyrir dómi.
Málið vakti gífurlega athygli er það kom upp í september í fyrra. Greint var frá því að lögregla hefði fundið á vettvangi dauðan smáhund í frystihólfinu ísskápsins í eldhúsinu. Hundshræið varð tilefni mikilla sögusagna en óvíst hvort og þá með hvaða hætti það tengist morðinu.
Við þingfestingu málsins þann 19. janúar síðastliðinn lýsti héraðssaksóknari yfir ákveðnum efasemdum um sakhæfi Dagbjartar. Gögn út farsíma hennar þóttu gefa tilefni til að andlegt ástand hennar yrði kannar nánar en þá var orðið. Í einni upptökunni heyrist Dagbjört halda því fram að hinn látni hafi haft undir höndum skotvopnið sem banaði Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, árið 1986. Einnig var vísað til framburðar samfanga Dagbjartar á Hólmsheiði, þ.e. lýsinga á framkomu og atferli Dagbjartar þar, sem þóttu ógnvekjandi.
Dagbjört hafnaði yfirmati á sakhæfi sínu. Hún telst sakhæf.
Við þingfestinguna hafnaði Dagbjört sök. Er dómari spurði hana hver afstaða hennar væri til ákærunnar og miskabótakrafna aðstandenda hins látna, sagði hún: „Ég bara hafna þessu. Neita sök.“
DV mun greina frá efni réttarhaldanna í fréttum hér á eftir.