Ók í fimm tíma til Siglufjarðar – Kom frá New York í morgun – Naut útsýnisins
Ferðamaður sem kom hingað til lands í morgun og átti bókað hótelherbergi á Laugaveginum í Reykjavík endaði á Laugarvegi á Siglufirði fyrir mistök. Hafði maðurinn slegið inn götuheitið í GPS-tæki bílaleigubíls sem hann hafði tekið á leigu en, á ótrúlegan hátt, keyrt alla leið til Siglufjarðar.
Það var skömmu eftir hádegið í dag að dyrabjöllunni á heimili Sirrýjar Káradóttur á Siglufirði var hringt, en hún er einmitt búsett á Laugarvegi á Siglufirði. „Ég fór til dyra og þar stóð maður haldandi á bréfsnepli og spurði mig kurteisilega á ensku hvort að hann væri á réttum stað og benti á heimilsfang á miðanum,“ segir í færslu um málið í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Það var vinkona Sirrýjar sem deildi sögunni sem vakið hefur mikla athygli.
Sirrý segir að þegar hún hafi skoðað heimilisfangið hafi henni brugðið þegar í ljós kom að hótelið er í Reykjavík, en ekki á Siglufirði. Laugavegur er vissulega í Reykjavík en Laugarvegur er á Siglufirði. Samkvæmt upplýsingum DV átti maðurinn bókað herbergi á Hótel Frón í Reykjavík.
„Ég spurði hvaðan hann væri að koma og hann svaraði mér því að hann væri búinn að keyra í 5 tíma alla leið frá Keflavíkurflugvelli – ég stóð og horfði á hann og kom varla upp orði,“ segir í Facebook-færslunni sem vakið hefur mikla athygli. Í samtali við DV segir hún að hann hafi verið frekar vandræðalegur þegar hún tjáði honum að hann væri á Siglufirði, en ekki í Reykjavík. Maðurinn tjáði henni að hann hefði komið með flugi frá New York í morgun og átt pantað hótelherbergi á Laugaveginum í Reykjavík. Hann setti heimilisfangið inn í GPS-tækið sem vísaði honum norður á Siglufjörð.
„Hann hefur verið svona um þrítugt,“ segir Sirrý í samtali við DV. „Ég held samt að hann hafi alveg verið búinn að átta sig á því að hann væri ekki í Reykjavík,“ segir Sirrý en maðurinn tjáði henni að hann hefði verið búinn að hugsa sér að fara norður, en kannski ekki á fyrsta degi. „Svo sagði hann að hefði notið þess að keyra norður, útsýnið hefði verið fallegt.“
Sirrý kveðst hafa boðið manninum inn, hringt fyrir hann á hótelið sem hann átti pantaða gistingu á og fengið að breyta bókuninni. Því næst hafi maðurinn farið á hótel í bænum. Hún segist vona að Íslandsdvölin verði ánægjuleg fyrir manninn, þrátt fyrir brösótta byrjun.