fbpx
Sunnudagur 29.september 2024
Fókus

Heimilislæknir Evu hafði orð á því hvað hún leit vel út – Undirgekkst tvær neyðaraðgerðir stuttu síðar

Fókus
Þriðjudaginn 25. júní 2024 15:58

Eva Gunnarsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Gunnarsdóttir, sálfræðingur og núvitundarkennari, fékk ristilkrabbamein þegar hún var fertug. Hún ræðir um krabbameinsgreininguna og áhættuþætti sem tengjast sjúkdómum í pistli á Vísi.

„Það síðasta sem heimilislæknirinn minn í London sagði rétt áður en ég var lögð inn á Royal Free Hospital og undirgekkst tvær neyðaraðgerðir við ristilkrabbameini var hvað ég liti vel út. Eftir ár af krabbameinsmeðferð með stóma og lyfjagjöf beið mín mikið heilsufarslegt uppbyggingarstarf,“ segir hún.

Í kjölfarið fór hún að rannsaka ýmsa áhættuþætti sem tengjast sjúkdómum.

„Böndin beindust fljótt að áhrifum áfalla á heilsu og hvaða áhrif tengslamótun í æsku hefur á líkur þess að fólk þrói með sér sjúkdóma á lífsleiðinni. Eftir því sem fólk skorar hærra á Adverse Childhood Experiences (ACE) kvarðanum aukast líkur á að fólk veikist af sjúkdómum á fullorðinsárum,“ segir hún.

„Áföll í æsku og ótrygg geðtengsl við nánustu umönnunaraðila geta haft neikvæð áhrif á taugakerfið og skapað óheilbrigð hegðunarmynstur sem börn taka síðan með sér út í lífið. Það getur valdið langvarandi mallandi streitu sem getur með tímanum bælt ónæmiskerfið sem getur orsakað sjúkdóma eins og krabbamein.“

The Body Keeps the Score: Brain, Mind, and Body in the Healing of Trauma: van der Kolk M.D., Bessel: 9780143127741: Amazon.com: Books

Vann með færasta fagfólki heims

Á þessum tíma var Eva búsett í London og gafst kostur á að vinna með sumu af færasta fagfólki heims á sínu sviði, meðal annars með Karden Rabin sem er sérfræðingur í stýringu taugakerfisins.

„Skjólstæðingar hans eru meðal annars geðlæknirinn Bessel Van der Kolk sem skrifaði New York Times Best Seller bókina Líkaminn geymir allt (The Body Keeps the Score) en hann er brautryðjandi í áfallafræðum innan læknavísindanna.“

Eva segir að Karden hafi komist að því að taugakerfi hennar væri fast í svokölluðu viðbragðsleysi (shut down mode). „Eftir að það var búið að kortleggja vandann fór ég á fullt í þjálfun til að ná betri heilsu og nýtti núvitundina til að velja athafnir sem ég dregst að til að auka líkur á að endurhæfingin yrði árangursrík því oft krefst það vissrar bersköldunar að læra nýja hluti frá grunni. Þá er gott að velja athafnir sem maður hefur ástríðu fyrir sem í mínu tilviki var hreyfing, tónlist og spilamennska,“ segir hún og útskýrir þetta nánar í pistlinum á Vísi.

Mynd/Getty Images

Reiði og krabbamein

„Rannsóknir Gabor Mate og annarra sérfræðinga benda til þess að það sé samband á milli niðurbældrar reiði og krabbameins. Fólk sem fær krabbamein hefur stundum verið bendlað við Type C manngerð sem er innhverft og kurteist fólk með sterka þörf til að þóknast öðrum. Til að tengja betur við tilfinningu heilbrigðrar reiði fór ég að læra box og kynntist þar þessari kraftmiklu tilfinningu sem hjálpar okkur að setja mörk og standa upp gegn óréttlæti,“ segir Eva.

„Sómatískar meðferðir eins og nudd hafa líka góð áhrif á taugakerfið og öndunaræfingar í gegnum jóga geta líka hjálpað til að stilla taugakerfið. Líkamsrækt er mikilvæg og ég hef unnið reglulega með einkaþjálfara og pílates kennara til að byggja upp líkamann en eftir mikil veikindi og rúmlegu hafði vöðvamassinn rýrnað.“

Langhlaup ekki spretthlaup

Eva segir að það sé langhlaup að ná aftur heilsu. „Það gerist ekki á einni nóttu en með þekkingu, þjálfun og þolinmæði þá er hægt að ná ótrúlega miklum árangri, meira að segja í sjúkdómum sem eru taldir krónískir og þar með ólæknandi. Það getur krafist hugrekkis að hefjast handa og að fara út fyrir þægindarammann en árangurinn sem af því getur hlotist er sannarlega þess virði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt