fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Hefur aldrei fengið önnur eins viðbrögð – „Þá komu fjölmargir eldri jaxlar að mér til að þakka mér fyrir og sögðust hafa lent í því sama“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 25. júní 2024 12:59

Gulli Helgason. Mynd/Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnlaugur Helgason fjölmiðlamaður og frumkvöðull segist aldrei hafa fengið jafnmikil viðbrögð við neinu í lífinu eins og þegar hann opnaði sig um kulnun á síðasta ári. Gulli Helga, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir viðbrögðin hafa sýnt sér að umræðan sé augljóslega mikilvæg, ekki síst þegar kemur að karlmönnum:

„Ég hef verið mjög lengi í fjölmiðlum, en ég hef aldrei fengið önnur eins viðbrögð við neinu sem ég hef gert. Ég var til dæmis á Iðnsýningunni í vikunni eftir viðtalið og þá komu fjölmargir eldri jaxlar að mér til að þakka mér fyrir og sögðust hafa lent í því sama. Þeir drógu mig afsíðis til að ræða málin, en þeim fannst gott að duglegi kallinn í sjónvarpinu og útvarpinu hefði farið í gegnum það sama og þeir,” segir Gulli, sem vísar þarna í viðtal við hann í Íslandi í dag, þar sem ætlunin var ekki að opna sig um kulnun, en einhvern veginn æxlaðist viðtalið þannig.

Gerðist alveg óvart

„Þetta gerðist alveg óvart að ég fór að tala um þetta í viðtalinu við Sindra, sem átti bara að vera um aðra hluti. En það var gaman að finna hvað það voru margir þakklátir eftir þetta viðtal. Það sagði mér að líklega væri mikilvægt að einhver eins og ég myndi tala um þetta opinberlega. Ég er af þeirri kynslóð þar sem það að vera karlmaður og geta ekki unnið á fullum krafti þótti bara aumingjaskapur, alveg sama hvað. En auðvitað er það ekki þannig og líklega löngu tímabært að opna þessa umræðu,” segir Gulli, sem klessti harkalega á vegg árið 2022:

„Það er mjög erfitt þegar allt er orðið leiðinlegt og allir í kringum mann orðnir hálfvitar. Þá veit maður að það er eitthvað að. 2022 hafði verið erfitt ár hjá mér, þar sem ég var að halda of mörgum boltum á lofti og tók of mikið að mér. Ég var að gera sjónvarpsseríu, gera upp íbúð, móðir mín veiktist og ég var að hjálpa henni að finna hjúkrunarheimili og fleira. Ofan á það var ég í fullri vinnu í Bítinu og ég klessti bara á vegg og vissi að ég yrði að draga úr einhverju. Ég var hættur að ná fullum svefni og lá oft andvaka og það lá því kannski beinast við að ég hætti í Bítinu eftir öll þessi ár. Þetta var orðið svolítið eins og „groundhog day“ og mér leið eins og ég væri að taka sömu viðtölin aftur og aftur og neistinn var farinn.”

Gott að vera komin í hvíld

Gulli segist þakklátur fyrir fjölbreyttan og skemmtilegan feril, en að sama skapi líka feginn að vera kominn í hvíld frá Bítinu.

„Fólk fattar ekki hvað það er mikil vinna á bakvið það að halda úti útvarpsþætti í nokkra klukkutíma á hverjum einasta degi. Það þarf að fylla mörg hólf af viðmælendum alla daga og það hættir aldrei. Það er meira en að segja það í svona litlu samfélagi og að vera alltaf að reyna að finna eitthvað nýtt. Þetta geta verið allt að 1700-2000 viðtöl á ári, sem er engin smá tala,” segir Gulli, sem er frelsinu feginn og ekki síst því að þurfa ekki að vera að lesa og horfa á fréttir daginn út og inn:

„Ég er ofboðslega feginn að þurfa ekki lengur að liggja yfir fréttamiðlunum alla daga. Það er oft mikil neikvæðni og allir að kvarta og það gerir manni ekki gott að liggja yfir fréttamiðlum. En maður verður háður því þegar maður vinnur þessa tegund af vinnu og það tók mig nokkra mánuði að ná að kúpla mig meira í burtu frá hringiðu umræðunnar. En þegar það tókst loksins fann ég hvað það hafði góð áhrif á mig.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Gulla og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“