fbpx
Sunnudagur 29.september 2024
Fókus

Sean Penn þvertekur fyrir að hafa lamið Madonnu með hafnaboltakylfu

Fókus
Sunnudaginn 23. júní 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sean Penn neitar að hafa nokkurn tímann gengið í skrokk á fyrrverandi eiginkonu sinni, Madonnu, hvað þá að hafa lamið hana með hafnaboltakylfu.

„Ég fékk sérsveitina heim til mín,“ segir Penn í viðtali við New York Times í gær. Hann segir að Madonna hafi haft samband við lögreglu og lýst yfir áhyggjum af skotvopnum sem leikarinn hefði á heimili sínu.

„Ég sagði við sérsveitina að ég ætlaði ekki að koma út. Ég ætlaði að klára morgunmatinn minn. Næsta sem ég veit eru þeir að brjóta alla glugga og ryðjast svo inn.“

Penn segist hafa áttað sig of seint á því að sögur væru að ganga um að hann væri að ganga í skrokk á söngkonunni. Það var ekki fyrr en eftir skilnaðinn, þegar þáverandi kærasta spurði hann út í sögusagnirnar.

„Ég vissi ekki hvað í fjandanum hún var að tala um. Ég held að það sé sanngjarnt að halda því fram að ég sé ekki stærsti karlmaðurinn í heiminum. En ef ég myndi lemja Mike Tyson í höfuðið með hafnaboltakylfu myndi hann enda á sjúkrahúsi,“ sagði Penn sem vísaði til þess að ef eitthvað væri hæft í þessum sögum þá hefði Madonna þurft að leita sér læknisaðstoðar, sem hún gerði aldrei.

Madonna hefur sjálf furðað sig á þessum sögum og árið 2015 skrifaði hún yfirlýsingu þegar Penn ákvað að fara í meiðyrðamál við leikstjórann Lee Daniels sem kallaði hann ofbeldismann. Madonna sagði í yfirlýsingu sinni að þessar sögur væru ekkert annað en tilhæfulaust slúður. Penn hafi aldrei beitt hana ofbeldi.

Madonna og Penn voru gift á árunum 1985-1989. Þau eiga engin börn saman og Penn segir að það hafi gert skilnaðinn auðveldari og hann og Madonna náð að byggja upp vinskap í kjölfarið, sem sé erfiðara þegar börn eru í spilinu. Hann segist enn elska fyrrverandi eiginkonu sína, en nokkur misheppnuð hjónabönd hafi þó orðið til þess að hann kann í dag frekar að meta félagsskap hunda sinna en kvenna. Hann metur frelsið mikils og ef svo verði að hann fari aftur í samband þá þurfi maki hans að virða frelsi hans.

Penn er þó ekkert viss um að hann kæri sig um ástarsambönd. Hann kunni illa að meta fólk og semur illa við aðra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt