fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Orri stefnir hátt í kvikmyndaheiminum – „Kvikmyndir fá okkur til að hlæja, gráta, óttast og læra“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 22. júní 2024 18:30

Orri Guðmundsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orri Guðmundsson er átján ára gamall upprennandi kvikmyndagerðarmaður sem stefnir á nám við kvikmyndabraut Listaháskólans í haust. Nýlega sýndi hann stuttmyndina Skuggi í Bíó Paradís.

„Myndin er átta mínútna stuttmynd sem heitir Skuggi og fjallar um gamlan mann sem missir sinn besta vin og þarf að taka til sinna eigin ráða, í grunninn er þetta harmþrungin saga um ást og þráhyggju og þann hárfína mun sem skilur þar á milli,“ segir Orri. „Sýningin gekk vel, margt var um manninn og myndinni ákaflega vel tekið.“

Orri og leikari Skugga, Gísli Ragnarsson

Skuggi er þó ekki fyrsta verk Orra þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur áður gert hreyfimynd sem tónlistarmyndband við lagið Hiroshima eftir Bubba Morthens, heimildarmyndina Bak við bæinn sem fjallar um stofnun og framgang Latabæjarþáttanna. „Meðal viðmælenda var stofnandinn Magnús Scheving sem nýlega keypti Latabæjarsamsteypuna til baka og í myndinni minnist hann einmitt á þau áform. Sú mynd var sýnd á Icelandic Documentary Film Festival og vann til verðlauna á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna.“

Orri Guðmundsson

Aðspurður um hvað það er sem heilli hann við námið og kvikmyndabransann segist Orri aldrei ánægðari en þegar hann er að vinna að skapandi verkefnum og segja sögur sem hreyfa við fólki.

„Ég hef verið að gera stuttmyndir frá unga aldri og alltaf verið mjög metnaðarfullur þegar kemur að verkefnum mínum. En þrátt fyrir metnað er leik- og sköpunargleðin sjaldnast langt undan. Með hverju verkefni sem ég tekst á við finn ég mig vaxa og læra og þokast nær endanlegum markmiðum mínum sem er að starfa við kvikmyndagerð.“

Myndir á sýningunni tók faðir Orra, Guðmundur Þór Kárason.

Feðgarnir Orri og Guðmundur

„Ég gerði stuttmyndina Skuggi sem lokaverkefnið mitt á kvikmyndabraut í Borgarholtsskóla. Ég skrifaði, leikstýrði og klippti verkið sjálfur. Myndin fjallar um eldri mann sem missir besta vin sinn og í sorg sinni verður háður félagskap ókunnugs hunds fyrir utan búð með ófyrirséðum afleiðingum. Mig langaði að segja söguna með mjög myndrænni frásögn og myndin er því nánast án tals. Ég kaus að segja sögu um vinskap milli manns og hunds því ég taldi það vera eitthvað sem áhorfendur myndu tengja við án mikillar fyrirhafnar. Með sögunni vildi ég taka áhorfandann í ferðalag og sýna þann hárfína mun milli ástar og þráhyggju og hvernig gott fólk gerir stundum slæma hluti ef sett í sérstakar aðstæður.“

Hvernig gekk ferlið og var eitthvað sem kom á óvart?

„Ég lærði ótrúlega mikið af ferlinu og slatti af lærdóm sem ég tek með mér í næsta verkefni. Það sem reyndist erfiðast við ferlið var að leikstýra hundi. En það er ekki hægt að segja að ég hafi ekki verið varaður við því. Það sem var auðveldast var að vinna með aðalleikaranum Gísla. Gísli er frændi minn og það kom líka mest á óvart í ferlinu hversu frábær leikari hann reyndist vera. Ég er mjög þakklátur öllum sem komu að ferlinu og hjálpuðu mér að láta þetta verk verða til.“

Orri segist hafa verið spenntur fyrir kvikmyndanámi eftir menntaskóla en hann sótti um í Listaháskólanum og erlendis. Hann komst inn á báðum stöðum en var spenntari fyrir Listaháskólanum.

„Frá því ég man eftir mér hef ég haft gríðarlegan áhuga á kvikmyndagerð, svo það mætti kannski segja að það var alltaf augljóst fyrir mér að ég myndi sækjast í slíkt nám. Ég var nú fyrir stuttu að klára stúdentspróf við Borgarholtsskóla þar sem ég var á kvikmyndabraut. Ég lærði þar ótrúlega mikið og er mjög þakklátur fyrir árin mín þar. Ég á þó enn langt í land með að þroska hæfileika mína og færni.“

Námið í Listaháskólanum er þrjú ár og lýkur með BA gráðu. „Í hverjum árgangi eru einungis tólf manns og ég tel það merki um gæði námsins. Það eru fáir sem komast inn í námið beint eftir menntaskóla en ég er einn af þeim heppnu.“

Eru kvikmyndir mikilvægar og af hverju?

„Kvikmyndir hafa að mínu mati mikið mikilvægi í samfélaginu því þær draga fram tilfinningar. Þær fá okkur til að hlæja, gráta, óttast og læra. Að segja sögur er eitthvað sem mannkynið hefur verið að gera frá tímum steinaldarinnar og ég trúi því að kvikmyndir séu hið æðsta listform til þess að segja sögur. Kvikmyndir eru í raun hreyfðar myndir og mér finnst magnað að geta raðað saman hreyfðum myndum á sérstakan hátt sem hefur svo áhrif á áhorfandann,“ segir Orri.

Og hver skyldi þá vera uppáhaldskvikmynd kvikmyndagerðarmannsins unga og af hverju?

„Ég á margar uppáhalds myndir og það virðist breytast mjög frá degi til dags. Mynd sem alltaf er í uppáhaldi hjá mér er Match Point frá árinu 2005 eftir Woody Allen. Mér finnst myndin snilldar satíra á stéttarskiptingu auk þess að vera meistaralega skrifuð spennusaga.“

Hverjir eru vonir og væntingar þínar til framtíðarinnar?

„Væntingar mínar til framtíðarinnar eru miklar og ég ætla mér að ná langt. Ég veit hins vegar að til þess þarf að leggja hart að sér og umfram allt vanda sig. Framtíðarmarkmið mitt er að leikstýra eigin kvikmyndum. Ég veit að það geri ég ekki einn því kvikmyndagerð er jú alltaf eins og hópíþrótt þar sem margir koma að verki. Ég er þakklátur að fái tækifæri til að taka næstu skref í Listaháskólanum.“   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“