Vanessa Vasey, 48 ára gömul bresk móðir, fór með son sinn Jesse á tónleika með uppáhaldstónlistarmanninum hans, Pink. Jesse er með Downs-heilkennið og þjáist auk þess að skyntruflunum. Hann hafði lengi hlakkað til að fara á tónleika með þessu goði sínu, söngkonunni Pink. Móðirin keypti miða fyrir þau á 630 pund, sem er andvirði um 110 þúsund íslenskra króna.
Fjallað er um málið á vefnum Metro. Vanessa greinir frá því að þegar þau mæðginin voru komin í sætin og þá vildi Jesse ekki sitja í sætinu sínu heldur dansaði á svæði skammt frá sætaröðunum. Hann hafi þó ekki verið fyrir neinum enda lágvaxinn og ekki verið að valda öðrum gestum neinum truflunum. Vinkona Vanessu, Kristy, var með í för og gætti að Jesse á meðan hann dansaði og skemmti sér.
Rétt áður en Pink átti að stíga á svið komu nokkrir öryggisverðir að þremenningunum og sögðu þeim að setjast í sætin sín eða yfirgefa staðinn. Skipti engu máli þó að Vanessa útskýrði fyrir þeim ástand sonar hennar. Í þann mund sem Pink steig á svið leiddu öryggisverðir þau burtu af svæðinu.
„Við vorum ekki að valda neinum vandræðum, Jesse er 3 fet á hæð og hann var bara að skemmta öllum. En svo birtast þarna sex öryggisverðir og segja okkur að við verðum að færa okkur.“
Vanessa segir að þeim hafi verið boðið að sitja í hljóðeinangruðum sal og fylgjast með tónleikunum þar en Vanessa afþakkaði það þar sem hún óttaðist að þá myndi Jesse þurfa að fylgjast með goðinu sínu á skjá en gæti ekki séð á sviðið.
„Þegar ég útskýrði fötlunina hjá Jesse sögðu þau að þau gætu ekkert gert og við yrðum annað hvort að setja í sætunum eða fara,“ segir Vanessa, og ennfremur: „Þeir leiddu okkur eins og glæpamenn út úr byggingunni. Ég er viss um að Pink myndi þykja þetta andstyggilegt ef hún vissi af þessu.“
Tónleikarnir voru haldnir á Tottenham Hotspur Stadium. Forsvarsmenn leikvangsins harma atvikið en minna á að Vanessu og Jesse hafi verið boðin aðstoð sem þau þáðu ekki. Forsvarsmenn Tottenham Hotspur Stadium ætla að vera í sambandi við Vanessu til að reyna að bæta henni og Jesse þetta upp.