Í morgun birtist athyglisverð færsla frá konu einni, Anna að nafni, sem fór í Axelsbakarí á Akureyri í morgun þar sem hún keypti snúð, tvö smurð rúnstykki, tvo kaffibolla og kókómjólk.
Fyrir þetta borgaði hún 2.760 krónur og þótti greinilega nóg um. „Þvílíka verðlagið, þangað förum við ekki inn aftur,“ sagði hún meðal annars og benti á að rúnstykkin hefði minnkað „allhressilega“.
Færslan vakti talsverða athygli og voru flestir á því að verðlagið þarna sé fullkomlega eðlilegt og í raun töluvert ódýrara en gengur og gerist annars staðar.
„Mér finnst þetta nú bara með því ódýrara sem ég sé úr bakaríum,“ sagði ein og var komin með hátt í 150 „læk“ á einni klukkustund. „Mjög gott verð. Þú hefur farið öfugu megin fram úr í morgun,“ sagði annar.
„1.380 kr .á mann fyrir kaffi og snúð/rúnstykki, borðað á staðnum, vaskað upp og borðið þrifið eftir ykkur fyrir næsta viðskiptavin? Er það svo galið,“ spurði svo einn.
Aðrar athugasemdir voru í svipuðum dúr: „Þetta er nú frekar sanngjarnt verð. Það þarf að hugsa fyrir því að þarna eru starfsmenn á launum, húsnæði og fleira sem þarf að borga. Þeir peningar detta ekki af himnum ofan.“
Eftir að athugasemdirnar höfðu hrúgast inn hvarf færslan í hópnum og er hún ekki aðgengileg lengur. Virðist konan því hafa séð að sér og eytt færslunni í kjölfar þeirrar gagnrýni sem hún fékk.